Þá er vísað í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið lögfestur hér á landi. Samkvæmt sáttmálanum ber stjórnvöldum skylda að hafa ávallt hagsmuni barna í forgangi.
Fjöldinn allur af íslenskum barna- og ungmennabókahöfundum skrifuðu undir yfirlýsinguna en þar má nefna Sigrúnu Eldjárn, Ævar Þór Benediktsson, Sif Sigmarsdóttur, Gunnar Helgason og Birgittu Haukdal.
Brottvísanir á flóttabörnum hafa verið mikið í umræðunni undanfarið eftir að brottvísununum var mótmælt í miðbæ Reykjavíkur í síðustu viku. Samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum mótmælanna hafa íslensk yfirvöld synjað 75 börnum á flótta um alþjóðlega vernd það sem af er þessu ári, að meðaltali 12 börnum í hverjum mánuði.
Yfirlýsinguna í heild sinni ásamt undirskriftunum má sjá hér fyrir neðan.
„Við, íslenskir barna- og ungmennabókahöfundar sem undir þetta ritum, fordæmum brottvísanir íslenskra stjórnvalda á börnum á flótta og fjölskyldum þeirra. Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið lögfestur hér á landi ber stjórnvöldum alltaf að hafa hagsmuni barna í forgangi. Við teljum ekki forsvaranlegt að senda börn á flótta til Grikklands þar sem aðstæður í hæliskerfinu hafa verið metnar ófullnægjandi og ekkert bíður þeirra nema gatan. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að mál barna á flótta séu metin á þeirra forsendum.
Við teljum það algjörlega óviðunandi að 75 börnum hafi verið synjað um vernd á Íslandi það sem af er árinu og hvetjum stjórnvöld til að virða Barnasáttmálann og hafa hagsmuni barna ávallt að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku.
Við bendum á að Íslendingar teljast, samkvæmt öllum mælikvörðum, ein ríkasta þjóð heims og okkur ber að axla ábyrgð á við aðrar þjóðir er kemur að vanda fólks á flótta frá stríðshrjáðum svæðum. Mikill auður felst í fjölbreytilegu mannlífi og fólk með ólíkan bakgrunn og reynslu auðgar samfélag okkar og við eigum að taka því fagnandi. “
Arndís Þórarinsdóttir
Benný Sif Ísleifsdóttir
Bergrún Íris Sævarsdóttir
Birgitta Elín Hassel
Birgitta Haukdal
Bryndís Björgvinsdóttir
Brynhildur Þórarinsdóttir
Davíð Hörgdal Stefánsson
Elísa Jóhannsdóttir
Gunnar Helgason
Hildur Knútsdóttir
Hilmar Örn Óskarsson
Hjalti Halldórsson
Ingibjörg Valsdóttir
Jenný Kolsöe
Jóna Valborg Árnadóttir
Katrín Ósk Jóhannsdóttir
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Kristín Ragna Gunnarsdóttir
Linda Ólafsdóttir
Margrét Tryggvadóttir
Ragnheiður Eyjólfsdóttir
Ragnheiður Gestsdóttir
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir
Sif Sigmarsdóttir
Sigrún Eldjárn
Vala Þórsdóttir
Þórdís Gísladóttir
Þorgrímur Þráinsson
Ævar Þór Benediktsson