fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Margrét hrökk við eftir samtal við ungan mann – „Þessu þarf að breyta“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 27. júní 2019 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þú ert jú komin á aldur“, sagði ungur maður við mig um daginn, þegar í tal barst tiltekið verkefni sem ég hef með höndum og hvort ég hygðist láta af því, sem hann taldi augljóslega tímabært. Ég hrökk við því sjálfsmynd mín er vissulega ekki sú að ég ráði ekki við verkefnið og fannst að mín þátttaka ætti ekki að ráðast af aldri, heldur því hvort ég valdi viðfangsefninu.“

Þetta segir Margrét S. Björnsdóttir, 71 árs starfsmaður Háskóla Íslands og formaður stjórnar Stofnunar sjórnsýslufræða og stjórnmála við skólann, í mjög svo athyglisverðri grein í Fréttablaðinu í dag. Þar skrifar hún um þá aldursfordóma sem stundum virðast ríkja í íslensku atvinnulífi. Rifjar hún upp samtalið við unga manninn í því samhengi og nefnir raunar annað dæmi.

Listamenn ekki settir undir sama hatt

„Af svipuðum toga var ótrúleg og raunar sprenghlægileg frásögn Óttars Guðmundssonar (72 ára) nýverið í Fréttablaðinu, þar sem ungur maður, sem var samferða honum í flugvél, spurði Óttar: „Ertu enn að ferðast?“ Aldursmörkin 67 eða 70 ára virðast orðin að mælikvarða í sjálfu sér, óháð getu eða löngun viðkomandi. Listamenn eru hins vegar ekki settir undir þessa mælistiku og verk þeirra eða frammistaða metin óháð aldri, sem sýnir ágætlega hversu fáránleg hún er,“ segir Margrét í grein sinni.

Hún bendir á að í atvinnulífinu sé fólki, sem náð hefur þessum aldri, lang oftast vísað á dyr og virðist þá engu skipta hvort viðkomandi hafi getu og vilja til að sinna starfinu.

„Hér er verið að sóa samfélagslegum verðmætum og jafnvel töluvert yngra fólk, 45-50 ára, kvartar undan svonefndum „kennitöluvanda“ við atvinnuumsóknir, ekki síst konur. Þeim sé ekki einu sinni boðið í atvinnuviðtal þrátt fyrir þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Sömu viðhorf eða aldursfordómar birtast í opinberri umræðu um þriðja orkupakkann. Þar hafa verið áberandi nokkrir eldri áhugamenn um stjórnmál, en þeim er ítrekað bent á að „tími þeirra sé liðinn“, skoðanir þeirra sagðar „rykfallnar“ og þeir beðnir um að skipta sér ekki af því sem kallað er „okkar framtíð“, svo aðeins sé vitnað í kurteisari ummælin.“

Reynsla einskis metin

Margrét segir að reynsla og afleidd dómgreind séu einskis metin en raunin sé sú að þetta séu kostir sem ættu að teljast mikilvægir í þjóðmálaumræðu. Margrét, sem hefur starfað í háskólanum mörg undanfarin ár, segir að Háskóli Íslands sé ánægjuleg undantekning þessa.

„Þar hefur með nýjum rektor verið mörkuð sú stefna, að heimilt er að semja við fólk sem komið er á eftirlaun um tiltekin verkefni, séu þau til staðar. Samið er til afmarkaðs tíma í senn, á fyrri launum, þótt ekki fylgi öll sömu starfskjör. Slíkir samningar verða að sjálfsögðu að þjóna hagsmunum beggja aðila og viðkomandi starfsmaður að sætta sig við reglubundna endurskoðun. Opinberir aðilar og fyrirtæki ættu að fylgja þessu almenna fordæmi og einhverjir kunna að gera það. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr því, að sum störf ganga mjög nærri fólki þannig að sjálfsagt er að það geti farið á eftirlaun 67-70 ára.“

„Þessu þarf að breyta“

Margrét segir lykilatriði að fólk hafi val sé geta og áhugi á annað borð til staðar. Það sé eitt af einkennum samtíma okkar að hópar sem hafa mátt sæta fordómum af einhverju tagi hafa risið upp.

„Þar hafa verið áberandi t.d. fatlaðir, samkynhneigðir, hörundsdökkir, tónlistarmaðurinn Logi Pedro Stefánsson talaði nýverið um kynþáttaníð, fólk í yfirþyngd, sem kallar það fitusmánun, að ekki sé minnst á konur. Barátta eldri borgara fyrir mannsæmandi eftirlaunum og tryggingabótum er mikilvæg. En það er ekki síður mikilvægt og raunar mannréttindi að á þá sé hlustað og borin fyrir þeim tilhlýðileg virðing. Eldra fólk taki þátt í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli, hvar sem það kýs. En einhvern veginn er eins og þeir sem eldri eru séu feimnir við að setja fram þá kröfu og sætti sig við jaðarsetninguna. Þessu þarf að breyta – það eru hagsmunir allra, líka þeirra sem yngri eru og eiga eftir að eldast.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Rýmingu lokið í Bláa lóninu

Rýmingu lokið í Bláa lóninu
Fréttir
Í gær

Ólafur fengið nóg og yfirgefur Ísland: „Farið út, var sagt við mig, þið fáið enga hjálp hér“

Ólafur fengið nóg og yfirgefur Ísland: „Farið út, var sagt við mig, þið fáið enga hjálp hér“
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtalækkunin þýðir fyrir 45 milljóna króna húsnæðislán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtalækkunin þýðir fyrir 45 milljóna króna húsnæðislán