fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Fréttir

Þórarinn blæs á kjaftasögurnar um samstarf við Simma: „Þetta gæti orðið eitraður kokteill“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 21. júní 2019 11:00

Þórarinn Ævarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Að sjálfsögðu sakna ég IKEA. Ég er hundrað prósent sáttur; þetta var rétt ákvörðun og gott að gera þetta á þessum tímapunkti. En IKEA er eins og litla barnið mitt og ég sakna ekki aðeins vinnustaðarins heldur einnig allra starfsmanna,“ segir athafnamaðurinn Þórarinn Ævarsson. Það kom mörgum í opna skjöldu þegar Þórarinn hætti störfum sem framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi um miðjan apríl á þessu ári. Komu fréttirnar flatt upp á marga, enda hefur Þórarinn verið ötull talsmaður þess að bæta hag neytenda og lækka vöruverð.

Ekki blanda vinskap og viðskiptum saman

Undanfarið hafa þær flökkusögur farið á kreik að Þórarins bíði nýtt viðskiptatækifæri og hann sagður vera með nýjan pítsastað í pípunum ásamt Sigmari Vilhjálmssyni. Báðir hafa þeir gert það gott í veitingabransanum, Þórarinn hjá Domino’s og IKEA, og Sigmar hjá Hamborgarafabrikkunni og Shake & Pizza. Þessum sögum vísar Þórarinn algjörlega á bug.

„Ég get því miður ekki staðfest þetta því þetta eru afskaplega miklar nýjungar fyrir mér. Ég hef ekkert heyrt um þetta. Við Simmi erum gamlir vinir og þegar hann byrjaði með sjónvarpsþáttinn 70 mínútur og ég var rekstrarstjóri Domino’s, var Domino’s fyrsti styrktaraðili 70 mínútna. Simmi var ekki orðinn þekkt nafn þegar við kynntumst fyrst og við höfum þróað með okkur fínan vinskap,“ segir Þórarinn og bætir við að það sé einmitt ástæðan fyrir því að hann ætli aldeilis ekki í viðskipti með Simma.

„Almennt séð er ekki sniðugt að blanda saman vinskap og viðskiptum. Ég mæli ekki með því. Ég á því síður von á því að ég fari í viðskipti með Simma, þó hann sé klár og góður drengur. Þetta gæti orðið eitraður kokteill.“

Þegar blaðamaður ýtir á Þórarinn og spyr hvort það sé því helber lygi að hann og Simmi ætli sér landvinninga með nýjan pítsastað stendur ekki á svörunum.

„Þú mátt birta nektarmyndir af mér í DV ef ég er að ljúga,“ segir hann og hlær.

Sigmar Vilhjálmsson.

Útilokar ekki veitingarekstur

Þórarinn situr þó ekki auðum höndum þó asinn í IKEA sé víðs fjarri.

„Fjórtán ár er ofsalega fínn tími. Það er rosalega gott að hleypa nýju blóði að, alveg sama hvað manni gengur vel. Það er eitthvað sem stjórnmálamenn mega tileinka sér. Nú þarf ég að takast á við nýjar áskoranir og prófa eitthvað nýtt. Ég er í góðu fríi núna að sparsla vegg heima hjá mér og dunda mér við það. Það kemur svo í ljós með haustinu hvað ég tek mér fyrir hendur,“ segir Þórarinn og bætir við að það nýja hlutverk muni ekki koma neitt sérstaklega á óvart.

„Það er ekkert leyndarmál að það tvennt sem er mér efst í huga eru náttúruverndarmál, í breiðum skilningi, og hins vegar lágt verð. Hvað sem ég geri þá verður það annað hvort tengt náttúruvernd eða að bæta kjör almennings. Þar liggja mín áhugamál.“

Þórarinn er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum og hefur til að mynda gagnrýnt veitingahúsaeigendur og aðila ferðaþjónustunnar fyrir að okra á viðskiptavinum. Sú gagnrýni hefur farið öfugt ofan í marga en Þórarinn lætur það ekki á sig fá.

„Það hefur enginn hrakið eina tölu sem ég hef lagt fram, því ég hef alltaf lagt töluleg gögn fram, hvort sem það hefur verið um verð á rúnstykkjum eða þegar bílaverð var ekki lækkað þrátt fyrir verðstyrkingu krónunnar. Það hefur enginn farið í málefnið, bara í manninn sem er týpískt íslenskt. Ég veit það jafnvel og þessir aðilar hvernig kaupin gerast á eyrinni. En ég hef ekki aðeins verið að gagnrýna heldur einnig hvetja menn til að hætta þessu kjaftæði með rosa há verð. Ef við lítum á veitingastað IKEA þá er þar lægra verð en sumsstaðar í Evrópu. Samt er staðurinn rekinn með fínni afkomu. IKEA er ekkert einsdæmi – það er hægt að leika þennan leik. Það er ekkert ólíklegt að ég endurtaki þennan leik í því næsta sem ég geri, sama hvað það verður. Ég ítreka að ég er ekki með neitt fast í hendi en ég þekki svona viðskipti gríðarlega vel og ég býst við að feta þá braut.“

IKEA

Fær engan afslátt í IKEA

Þórarinn segist ekki vera að hugsa um að flytja sig erlendis og stunda sín viðskipti þar því hann er „búinn með útlandapakkann“ eftir búsetu í Sviss sem ungur maður og fjögurra ára dvöl í Danmörku þar sem hann kom Domino’s á laggirnar. En er hann enn dyggur viðskiptavinur síns gamla vinnustaðar, IKEA?

„Ég fór nú bara síðast í IKEA í gær til að kaupa flutningskassa,“ segir hann og hlær en segist ekki hafa fengið neina sérmeðferð eða afsláttarkjör. „Nei, nú er ég ekki hluti af pakkanum lengur. En ef ég fer í stjórn, sem mér þykir ekki ólíklegt að gerist, þá fæ ég vonandi einhver betri kjör.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Pútín hækkar „ónothæfan“ hershöfðingja í tign

Pútín hækkar „ónothæfan“ hershöfðingja í tign
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Fæstir hafa líklega hugsað út í þessa þróun stríðsins í Úkraínu

Fæstir hafa líklega hugsað út í þessa þróun stríðsins í Úkraínu
Fréttir
Í gær

Joe Biden harðlega gagnrýndur eftir að hann náðaði son sinn

Joe Biden harðlega gagnrýndur eftir að hann náðaði son sinn
Fréttir
Í gær

Mjög ósáttur og hvetur Icelandair til að skammast sín

Mjög ósáttur og hvetur Icelandair til að skammast sín