Staðfest er að Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir af sér varaformennsku í fjárlaganefnd. Ágúst Ólafur sneri aftur til starfa í dag eftir leyfi sem hann tók sér vegna óviðeigandi framkomu í garð blaðakonu á Kjarnanum. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, kvaðst munu gangast fyrir mótmælum gegn Ágústi Ólafi ef hann segði ekki af sér varaformennskunni.
Ágúst Ólafur tilkynnti fyrir skömmu um endurkomu sína á Alþingi með færslu á Facebook-síðu sinni. Mikil auðmýkt einkenndi þau skrif en Ágúst Ólafur sagði meðal annars:
„Ég tek því ekki sem sjálfgefnu að taka aftur sæti á þingi á ný og mun leggja mig allan fram að ávinna mér traust á nýjan leik. Ég brenn enn fyrir því að starfa í þágu samfélagsins og koma góðum málum til leiðar sem stjórnmálamaður. Í raun er ég að biðja um annað tækifæri.“