Liðsmenn Hatara standa harðlega með Palestínu. Þetta vissu þeir sem til þekkja en meðlimir hljómsveitarinnar héldu á fána Palestínu þegar tilkynnnt var um stigin sem áhorfendur gáfu Hatara í símakosningu í beinni útsendingu. Skilaboðin náðu til líklega um 200 milljóna í heiminum.
Einar Hrafn Stefánsson, betur þekktur sem trommugimpið í Hatara, birti myndband á samfélagsmiðlum þar sem meðlimir hópsins eru krafnir um afhendingu fánanna.
Nú bíða margir spenntir að sjá hver viðbrögð ísraelska sjónvarpsins, Ísraela almennt og Samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva verða við gjörningi hljómsveitarinnar.
Myndband Einars má sjá að neðan en í myndbandinu heyrist í Sólbjörtu Sigurðardóttur, einn þriggja dansara í atriði Hatara. „Ég er mjög hrædd núna,“ segir hún. „Við verðum að fara upp á hótel.“
Þessi afstaða Hatara til stöðu mála í Ísrael og Palestínu og hreinskilni þeirra hefur heldur betur hrært upp í Eurovision þetta árið. Þegar hljómsveitin kom fram á fréttamannafundi í Tel Aviv í vikunni var fundinum slitið hið snarasta af ísraelskum fundarstjóra sem sagði að tíminn væri útrunninn. Þetta gerðist í kjölfar þess að Hatari var spurður um afstöðu hljómsveitarinnar til deilna Ísraels og Palestínu.
„Við vonum auðvitað að hernámið endi svo fljótt sem verða má og að friður ríki.“ Var það eina sem Matthías náði að segja áður en hljómsveitin varð að yfirgefa sviðið.
Skömmu eftir að keppninni lauk birtust myndir af Palestínufánanum á Instagram-síðu Hatara.
Þess má einnig geta að atriði söngkonunnar Madonnu og rapparans Quavo á Eurovision vakti mikla athygli í kvöld en þar sást í Palestínufána á baki eins dansara en fáni Ísraels á öðrum. Þegar báðir dansararnir gengu út af sviðinu virtust skilaboðin vera þau að Ísrael og Palestína skyldu ganga hönd í hönd.
Both the Icelandic entry and Madonna’s performers showing off the Palestinian flag. I have only extreme respect and admiration for those who decide to use their platform to raise awareness of the issues that cannot be ignored as all our eyes are turned to Israel #Eurovision pic.twitter.com/ytbQMmKkmC
— Lisa Wehrstedt (@lisa_wehrstedt_) May 18, 2019