Almar Smári Ásgeirsson hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í Noregi vegna gruns um hlutdeild í morðinu á Gísla Þór Þórarinssyni. Samkvæmt norskum fjölmiðlum var Almar með Gunnari Jóhanni í fimm tíma eftir morðið.
Gunnar Jóhann Gunnarsson, hálfbróðir Gísla Þórs, er talinn hafa skotið Gísla í norska smábænum Mehamn á sunnudag. Aina M. Indbjör, saksóknari hjá norsku lögreglunni, hefur sagt að öll sönnunargögn í málinu bendi til þess að Gunnar Jóhann hafi skotið bróður sinn.
Í fréttum frá Noregi er sagt að Almar, sem er 32 ára, mótmæli gæsluvarðhaldskröfunni og er haft eftir verjanda hans að hann hafi ekkert haft með morðið að gera. „Hann veit ekkert af hverju hann liggur undir grun,“ er haft eftir verjanda Almars.
„Ég trúi á sakleysi hans,” segir Halldóra Sigrún Ásgeirsdóttir, systir Almars. Halldóra hefur að öðru leyti lítið að segja um málið. „Við vitum ekkert meira en það sem komið hefur fram í fjölmiðlum,“ segir hún en hún hefur, sem von er, ekki verið í neinu sambandi við bróður sinn síðan atburðurinn átti sér stað.