fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Skúli tekur á sig ábyrgð á falli WOW air – „Þykir verst að hafa brugðist öllu því fólki sem stóð með mér“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 3. apríl 2019 17:40

Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri flugfélagsins WOW air, sem tekið var til gjaldþrotaskipta í síðustu viku, sendi yfirlýsingu til fjölmiðla í dag. Í henni segist hann ávallt hafa verið sannfærður um að WOW yrði öflugt flugfélag. Það sjáist einna best í fjárfestingum hans í félaginu, upp á fjóra milljarða frá stofnun þess. Skúli segir í yfirlýsingu sinni að hann hafi lánað WOW air eigið fé, auk þess að taka á sig persónulega ábyrgð og veðsetja bæði hús sitt og jörð í Hvalfirði. „Ég mun að öllum líkindum þurfa að selja hvort tveggja til að standa undir mínum persónulegur skuldbindingum og ábyrgðum vegna WOW air. Ég hef því lagt allt undir í þessari vegferð.“

Segir Skúli að erfitt sé að horfa á eftir félaginu, „ég elskaði þetta félag, fólkið okkar og það sem við stóðum fyrir og vorum að byggja upp.“

Að lokum segist Skúli þurfa að lifa með ákvörðunum þeim sem hann tók, en hann sé stoltur af því sem hann og starfsmenn hans gerðu. „Ég vona innilega að allt það sem við lögðum í félagið og sú mikla reynsla og þekking sem hefur orðið fari ekki forgörðum. Ég vona líka að þrátt fyrir hvernig fór að þetta ævintýri okkar letji ekki aðra frumkvöðla frá því að láta drauma sína rætast.“

Yfirlýsing Skúla í heild sinni

Fall WOW air

Það er eðlilegt og viðbúið að það verði fjallað mikið um WOW air næstu misserin, mikinn vöxt og fall félagsins og aðdragandann að því.

Sem eigandi og forstjóri WOW air ber ég mikla ábyrgð á því hvernig fór.  Ég hef aldrei skorist undan þeirri ábyrgð né reynt að koma sökinni á aðra.  Staðreyndin er sú að ég trúði því og trúi enn að þetta einstaka flugfélag sem við hjá WOW air byggðum upp hafi brotið blað í íslenskri flugsögu með því að bjóða fargjöld og áfangastaði sem höfðu aldrei sést áður á glænýjum Airbus flugvélum.  Á árunum 2015 og 2016 óx og dafnaði WOW air mun hraðar og betur en nokkur hafði trú á og skilaði félagið um 5 milljörðum í hagnað.  Lággjaldamódelið eins og lagt var upp með í byrjun virkaði vel og á fullan rétt á sér á Íslandi líkt og annars staðar.

En þessi mikla velgengni átti líka sinn þátt í því að við fórum fram úr sjálfum okkur og eftir á að hyggja vildi maður óska þess að við hefðum gert ýmislegt öðruvísi.

Í fyrsta lagi var ákveðið að fljúga til fjarlægðari staða og taka í notkun 350 sæta Airbus A330 breiðþotur. Þar með gátum við hafið flug til fjarlægðari staða eins og Los Angeles, San Francisco, Miami, Dallas og Delhi með það að markmiði að gera Ísland að alþjóðlegri tengistöð á milli Asíu, Norður-Ameríku og Evrópu, ekki ósvipað og Finnair hefur gert með góðum árangri í Helsinki. Þetta var háleit sýn og markmið sem við höfðum fulla trú á en þetta reyndist því miður óhemju dýrt og flókið verkefni og við vanmátum hversu alvarlegar afleiðingar breiðþoturnar myndu hafa á rekstur félagsins, sérstaklega eftir að olíuverð fór að hækka hratt á haustmánuðum 2018.

Í öðru lagi þá fjarlægðumst við lággjaldastefnuna og fórum að bæta við viðskiptafarrými og fleiri þjónustum sem eiga alls ekki heima í lággjaldamódelinu. Þetta jók flækjustigið enn frekar og undirliggjandi kostnað félagsins.  Þetta reyndist okkur dýrkeypt og eftir á að hyggja hefðum við átt að halda fast í það að vera hreinræktað lággjaldafélag.

Í þriðja lagi hefðum við átt að sækja fjármagn byggt á þeim góða árangri sem við náðum 2015 og 2016 til að styrkja eiginfjárgrunn félagsins og efla félagið verulega áður en áfram yrði haldið.

Síðast en ekki síst hefur ytra umhverfi flugfélaga verið mjög erfitt undanfarið ár og sjaldan hafa fleiri flugfélög farið í þrot eins og undanfarna mánuði.  Þar vegur hækkandi olíuverð þungt en það fór í hæstu hæðir skömmu eftir skuldabréfaútboðið okkar sem hafði veruleg neikvæð áhrif á allar okkar áætlanir. Jafnframt hafði gjaldþrot Primera Air skömmu eftir að við kláruðum skuldabréfaútboðið okkar verulega neikvæð áhrif.  Með falli Primera Air breyttist viðhorfið hjá svo til öllum okkar birgjum og fóru birgjar og færsluhirðar fram á meiri tryggingar og staðgreiðslufyrirkomulag í öllum sínum viðskiptum við WOW air.  Þetta hafði gríðarlega miklar afleiðingar í för með sér á mjög skömmum tíma. Við höfðum reiknað með því að fá betri fyrirgreiðslu í kjölfar skuldabréfaútboðsins en vegna falls annarra flugfélaga, mikils og slæms umtals um fluggeirann í heild sinni í aðdraganda útboðsins versnuðu kjör okkar í kjölfarið á útboðinu þvert á okkar spár. Jafnframt dróg verulega úr sölunni hjá okkur vegna slæms umtals sem veikti traust almennings á félaginu. Það er einnig ljóst að krónan, verkföll og íslenskt umhverfi í heild sinni var ekki að gera okkur lífið auðveldara undanfarna mánuði.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á og á þeim tíma þegar ákvarðanir voru teknar um stækkun og stefnubreytingu WOW air var það augljóslega gert í þeirri trú að það væri best fyrir félagið og að með þessu móti gætum við eflt WOW air enn frekar til langs tíma litið.  Til dæmis var það grundvallaratriði þegar ákveðið var að taka breiðþoturnar í flota okkar að með þessu móti gætum við betur varist aukinni samkeppni sem er að aukast með beinu flugi milli Evrópu og austurstrandar Bandaríkjanna og þar af leiðandi lækkandi fargjöldum á þeim leiðum. Við höfðum haft þetta að leiðarljósi þegar við pöntuðum fjórar glænýjar breiðþotur til viðbótar við flota okkar sem áttu að afhendast í lok árs 2018 og ætlað var að fljúga á fjarlægari slóðir. Forsendurnar fyrir slíkum flugum versnuðu hins vegar til muna mjög hratt síðastliðið haust vegna hækkandi oliuverðs og aukinni samkeppni í flugi á heimsvísu.

Ég hef verið sannfærður frá fyrsta degi að WOW air gæti orðið öflugt flugfélag.  Ég fjárfesti í WOW air fyrir um 4 milljarða króna allt frá stofnun þess.  Núna er ljóst að ég mun fá lítið sem ekkert af því til baka.  Ég var það sannfærður um að við værum á réttri leið að ég lánaði WOW air 600 milljónir króna í janúar 2018 eftir að fall Kortaþjónustunnar setti verulegt strik í reikninginn hjá okkur.  Jafnframt fjárfesti ég aftur fyrir um 750 milljónir króna í skuldabréfaútboðinu í september 2018 ásamt öðrum fjárfestum.  Til að geta tekið þátt í skuldabréfaútboðinu fór ég í persónulega ábyrgð og veðsetti bæði húsið mitt og jörð í Hvalfirði.  Ég mun að öllum líkindum þurfa að selja hvort tveggja til að standa undir mínum persónulegu skuldbindingum og ábyrgðum vegna WOW air. Ég hef því lagt allt undir í þessari vegferð.

Það var fyrirséð og eðlilegt að margir munu núna rýna í sögu og viðskiptamódel WOW air.  Það væri mikil einföldun að fullyrða að WOW air hefði aldrei getað gengið eða að fargjöldin hafi verið ósjálfbær og því hafi þetta verið dauðadæmt frá upphafi.  Það er einfaldlega ekki rétt.  Það er einnig fyrirsjáanlegt að einhverjir munu reyna að tortryggja WOW air og mig persónulega og viðskipti minna félaga við WOW air.  Öll mín viðskipti við WOW air og félög tengd mér hafa verið gerð á markaðslegum og viðskiptalegum forsendum.   Af gefnu tilefni má þar sérstaklega nefna að ég hef enga aðkomu að tveimur flugvélum sem WOW air var með í leigu og hefur verið fjallað um undanfarið.  Umræðan snýr að því að skráður eigandi vélanna er með félög í Cayman eyjum að nafni Sog og Tungna.  Hvorki ég né nein félög tengd mér hafa nokkuð með þessi félög að gera en eigandi þessara flugvéla er Goshawk sem er stórt flugvélaleigufyrirtæki með starfstöðvar í Dublin og Hong Kong.

Það er óhemju erfitt og sorglegt að horfa á eftir WOW air.  Ég elskaði þetta félag, fólkið okkar og það sem við stóðum fyrir og vorum að byggja upp.  Við fluttum yfir 10 milljónir farþega frá upphafi og með okkur komu yfir tvær milljónir ferðamanna til Íslands.  WOW air skapaði þúsundir starfa bæði beint hjá félaginu og fyrir ferðaþjónustuna í heild sinni. Það liggur fyrir að beinar og óbeinar tekjur ríkissjóðs af starfsemi WOW air nemur hundruðum milljarða undanfarin ár. Við vorum á góðri leið með að klára viðsnúning félagsins og að koma okkur aftur í sama búning og við vorum í á árunum 2015 og 2016 en því miður gafst ekki tími til að klára fjármögnun félagsins.  Við reyndum allt sem við mögulega gátum til að forða félaginu frá gjaldþroti en það tókst því miður ekki.

Ég mun þurfa að lifa með þeim ákvörðunum sem ég tók alla tíð en það sem mér þykir verst er að hafa brugðist öllu því fólki sem stóð með mér og barðist fram í rauðan dauðann við að bjarga félaginu. Þetta var og er einstakur hópur sem var heiður og forréttindi að fá að vinna með. Þrátt fyrir hvernig fór mun ég ávallt vera stoltur af því sem við gerðum.  Ég vona innilega að allt það sem við lögðum í félagið og sú mikla reynsla og þekking sem hefur orðið fari ekki forgörðum. Ég vona líka að þrátt fyrir hvernig fór að þetta ævintýri okkar letji ekki aðra frumkvöðla frá því að láta drauma sína rætast.

Virðingarfyllst,

Skúli Mogensen

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Kringlan komin á fulla ferð á ný

Kringlan komin á fulla ferð á ný
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“
Fréttir
Í gær

„Háir stýrivextir eru nefnilega bara mjög fín kjarabót fyrir þau sem eiga peninga“

„Háir stýrivextir eru nefnilega bara mjög fín kjarabót fyrir þau sem eiga peninga“
Fréttir
Í gær

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“