Formaður Landssambands bakarameistara, Jóhannes Felixson, betur þekktur sem Jói Fel, varar við innleiðingu þriðja orkupakkans. Hann telur að innleiðing hans muni leiða til hækkunar á raforkuverði sem muni svo veikja samkeppnisstöðu bakaría. Ætla má því að brauð og bakkelsi verði dýrara muni sú spá rætast.
Þetta kemur fram í umsögn við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu þriðja orkupakkans sem Jóhannes skrifar fyrir hönd landssambandsins. „Um mitt ár 2003 tóku gildi hér á landi raforkulög þar sem innleidd var samevrópsk löggjöf á sviði raforkumála. Við þá innleiðingu breyttust taxtar og innheimtuferli orkufyrirtækja á landinu. Landssamband bakarameistara vakti athygli á því þá að stærstur hluti raforkunotkunar í bakaríum fari fram á þeim tíma sólarhrings þegar almenn orkunotkun er í lágmarki. Af þeim sökum og áður en að breytingunni kom höfðu bakarí notið betri kjara raforkuverðs, gegn því að hægt væri að rjúfa rafmagn til þeirra á öðrum tímum sólarhringsins,“ segir Jóhannes .
Hann segir að staðhæfingar stjórnvalda um lægra raforkuverð einfaldlega rangar. „Við breytingar á orkulögum var þeim samningum einhliða rift og við það hækkaði raforkuverð til bakaría um allt að 50% og laskaði starfsumhverfi og dró verulega úr samkeppnishæfni þar sem hækkunin óhjákvæmilega hækkaði vöruverð. Þessi ákvörðun á breytingu raforkuverðs var andstætt vilja stjórnvalda, á þeim tíma, um að lækka verð á matvælum og hvatningu orkusala til að koma til móts við óskir bakara um að leita leiða til að lækka orkuverð. Staðhæfingar stjórnvalda, síðustu misseri, um að þessi breyting með markaðsvæðingu íslensks orkumarkaðar hafi leitt til lægra raforkuverðs eru rangar. Í þessu samhengi er hægt að benda á 5-8% hækkun á milli áranna 2015- 2016,“ segir Jóhannes .
Því segir Jóhannes að landssambandið dragi í efa aðrar fullyrðingar stjórnvalda. „Landssamband bakarameistara dregur stórlega í efa þær fullyrðingar stjórnvalda að þriðji orkupakkinn, sem sagður er vera beint framhald af þeirri þróun sem átti sér stað með breytingum á raforkulögum 2003, sé til þess fallinn að styrkja enn frekar markaðsvæðingu, samkeppni og jafnræði og að það stuðli að lækkuðu verði,“ segir Jóhannes .
Hann segir að þriðji orkupakkinn myndi hafa skaðleg áhrif á Ísland. „Þriðji orkupakkinn snýr einna helst að flutningi og sölu raforku á milli landa. Á það hefur verið bent að með innleiðingu tilskipunarinnar muni það hafa lítil sem engin áhrif hér á landi þar sem Ísland sé með einangrað raforkukerfi sem ekki er tengt við Evrópu. Sú einangrun er engin trygging fyrir því að Ísland muni ekki tengjast innri orkumarkaðnum í framtíðinni með lagningu sæstrengs. Með lagningu sæstrengs er ljóst að innleidd yrðu ný markaðslögmál sem myndu að óbreyttu hækka raforkuverð umtalsvert. Í því samhengi er vert að benda á að niðurstöður starfshóps iðnaðarráðherra frá árinu 2016, sem var meðal annars falið að greina þjóðhagsleg áhrif lagningu sæstrengs, voru meðal annars þær að með lagningu sæstrengs myndi raforkuverð á Íslandi hækka umtalsvert. Í skýrslunni er tekið fram að meira en helmingur þeirrar kostnaðarhækkunar sem kæmi til yrði borinn af þeim hópum sem eru stærstu raforkunotendur fyrir utan heimili og stóriðju. Raforkuverð til iðnaðar, annars en stóriðju, myndi samkvæmt útreikningum hækka um helming,“ segir Jóhannes .
Hann leggur að lokum áherslu á að bakarar séu alfarið á móti því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur á Íslandi. „Landssamband bakarameistara telur að innleiðing þriðja orkupakkans muni leiða til hækkunar á raforkuverði og þar af leiðandi veikja samkeppnisstöðu bakaría sem og íslensks iðnaðar. Því leggst Landssamband bakarameistara alfarið gegn því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur á Íslandi.“