Mennirnir tveir sem sakaðir eru um aðild að dauða Gísla Þórs Þórarinssonar verða leiddir fyrir dómara í kvöld. Frá þessu greinir miðillinn iFinnmark.
Eins og áður hefur komið fram eru hinir grunuðu báðir íslenskir karlmenn á fertugsaldri. Annar þeirra er Gunnar Jóhann Gunnarsson, hálfbróðir Gísla Þórs. Hann er grunaður um að hafa framið ódæðið, en hinn er sakaður um hlutdeild. Sakborningarnir hafa ekki verið yfirheyrðir enn, þar sem túlkurinn, sem mun verða lögreglu til aðstoðar, hefur, að sögn Silju Arvolu hjá lögreglunni í Finnmörk, tafist vegna verkfalls flugmanna. Áætlað er að yfirheyrslur fari fram á miðvikudag.
Gunnar skrifaði færslu á Facebook skömmu eftir verknaðinn, en í færslunni virðist hann játa á sig glæpinn. Formleg afstaða hans til sakarefnisins liggur þó ekki fyrir, en meintur hlutdeildarmaður neitar sök.
„Fyrirgefið mér, en ég get ekki lifað með það vitandi að, Guðfaðir sonar míns, minn besti maður í giftingunni minni, og ég skýrði son minn í höfuð hans, það réttlætir ekki neitt hvað ég gerði, en sársaukinn og hjartað mitt var brotið það mikið að ég framdi svívirðilegan glæp sem mun elta mig alla ævi. En þetta átti ekki að fara svona en þetta var stórslys, ætlaði aldrei að hleypa af.“
Facebook-síðu Gunnars hefur nú verið eytt.
Lögreglan í Noregi fer fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald og bann við bréfasendingum eða heimsóknum, en slíkt er gert sökum rannsóknarhagsmuna.
RÚV hefur greint frá því að Gunnar Jóhann eigi sér langan sakaferil hérlendis. Hann hefur verið dæmdur fyrir umferðalagabrot, fíkniefnalagabrot, þjófnað og vopnalagabrot. Þá var hann dæmdur fyrir naugðun árið 2002, fyrir stórfellda líkamsárás 2007 og stórfellda líkamsárás, frelsissviptingu og rán árið 2010.
Samkvæmt frétt RÚV voru bræðurnir báðir sjómenn. Gunnar er grunaður um að hafa banað bróður sínum með haglabyssu en samkvæmt norskum fjölmiðlum hafði Gunnar verið gert að sæta nálgunarbanni vegna grófra hótanna við Gísla.
Margir minnast Gísla Þórs nú á samfélagsmiðlum, en fráfall hans var með öllu óviðbúið og aðstandendum mikið áfall.
„Þetta er svo hrikalega mikill missir fyrir okkur öll sem þekktu þig. Ég mun ALDREI geta fyrirgefið hvernig þú varst tekinn frá okkur, aldrei.“
„Í morgun bankaði lögreglan upp á. Gísli minn var skotinn til bana í morgun. Í losti sem stendur. Þvílíkt áfall. Sársaukinn er ólýsanlegur.“
„Í dag er ég dofin, föst í óraunverulegum veruleika.“
„Ég bölva í hljóði og blóta djöflinum upphátt. Hvernig getur þetta bara verið!!??!. […]Við fáum þig aldrei aftur Gísli. Veröldin er gjörsamlega hrunin.“
„Auðmýkt augna í brúnleitum bjarma. Angurvært syrgja þig margir og harma.“
Fréttin hefur verið uppfærð
Sjá einnig: