Svíi í flugvél Icelandair sem er á leiðinni til New York trylltist um borð. Tókst að yfirbuga manninn sem hafði látið öllum illum látum. Er hann nú handjárnaður og bundinn í sæti sínu. Farþegi um borð segir í samtali við DV að maðurinn hafi áreitt konur, bæði farþega og flugfreyjur, og trylltist yfir því að ekki var pizza á boðstólum.
„Hann hótaði að opna neyðarútgang,“ segir heimildarmaður DV en Svíinn sat mjög drukkinn við hliðina á einum af neyðarútgöngum vélarinnar. Heimildarmaður DV segir:
„Farþegar hafa reynt að róa hann niður en síðan trylltist hann við tvær flugfreyjur, stóð upp og öskraði á þær vegna þess hann fékk ekki pizzu. Síðan byrjaði hann að hrista aðra þeirra.“
Farþegar og starfsfólk sameinuðust um að binda manninn niður í sæti og var hann einnig handjárnaður. Mikil angist varð á meðal farþega sem urðu varir við manninn áður en tókst að yfirbuga hann.
Sænski flugdólgurinn var beðinn um að hafa sig hægan en hann öskraði: „Nei, ég slaka ekki á.“ Krafðist hann þess að vélinni yrði lent þegar í stað en á áfangastað í New York verður hann handtekinn og settur í varðhald.
Vísir náði sambandi við upplýsingafulltrúa Icelandair:
„Ásdís Ýr staðfestir í samtali við Vísi að farþegi í annarlegu ástandi hefði verið yfirbugaður af áhöfn flugvélarinnar. Segir Ásdís áhöfnina hafa góða stjórn á aðstæðum og hefur verið óskað eftir aðstoð lögreglunnar á Newark-flugvelli þegar þangað verður komið.“
Uppfært kl. 1:55
Farþeginn hafði samband eftir lendingu og sagði að vopnaðir lögreglumenn hefðu farið með flugdólginn. Maðurinn er annaðhvort þýskur eða sænskur. Öllum var gert að halda kyrru fyrir í vélinni þegar hún lenti og biðu aðrir farþegar á meðan lögreglan kom um borð og fór burtu með manninn.