„Var einhver að tala um power couple?,“ skrifar einn vinur Margrétar Bjarnadóttur, dóttur Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, við mynd sem hún birti nú síðdegis á Facebook.
Þar má sjá hana ásamt nýjum kærasta, Ísaki Erni Kristinssyni, þar sem þau eru bersýnilega stödd á erlendri grundu. Líklega á sólarströnd. Í athugasemdum við myndina er nýja parinu hrósað í hástert. „Æj hversu flott eruð þið,“ skrifar ein vinkona hennar til að mynda.
Ísak er 25 ára gamall og hefur verið virkur í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur starfað sem körfuboltadómari og flugþjónn. Hann var í sjöunda sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra. Margrét er 27 ára og kokkanemi á Geira Smart.
Það vakti nokkra athygli í fyrra þegar Ísak var skipaður í stjórn Kadeco af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. Það var gagnrýnt að svo ungur og reynslulaus maður væri skipaður í stjórn slíks fyrirtækis. Kadeco er þróunarfélag sem heldur utan um eignir sem áður voru í umsjón Bandaríkjahers.
„Reynsla er kannski ekki aldur. Ég skil að fólk hefur á því skoðanir að 24 ára maður sér orðinn stjórnarformaður í mikilvægu verkefni, mikilvægu fyrirtæki í eigu ríkisins. Ég skil þá gagnrýni,“ sagði Ísak í samtali við RÚV í fyrra.