Losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda jókst um 2,2 prósent á milli áranna 2016 og 2017. Losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis hefur verið nokkuð stöðug síðan 2012 þrátt fyrir aðgerðir til að stemma við losuninni. Þetta má meðal annars rekja til fjölgunar ferðamanna á Íslandi og aukinnar neyslu almennings.
Árlega skilar Umhverfisstofnun Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (National Inventory Report – NIR) til Evrópusambandsins og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (United Nation Framework Convention on Climate Cange – UNFCCC) í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
Helstu orsakavaldarnir losunarinnar á Íslandi eru vegasamgöngur, sem telja um 38 prósent af þeirri losun sem er á ábyrgð Íslands. Næst kemur olíunotkun fiskiskipa, eða um 18 prósent. Þar á eftir kemur iðragerjun, svo losun frá kælimiðlum og losun frá urðunarstöðum.
Í skýrslunni er einnig litið til losunar frá stóriðju undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir. Undir það féll 39 prósent af heildarlosun Íslands árið 2017 sem var tæplega 3 prósentum meira en árið á undan.
Meginástæður fyrir aukinni losun á ofangreindum árum er aukin losun frá fólksbílum, málmframleiðslu, kælimiðlum og frá nytjajarðvegi. Skýrslan er þó ekki alsvört fyrir Ísland heldur hefur losun frá framleiðsluiðnaði dregist saman um 9 prósent og losun frá urðunarstöðum um 3 prósent.