fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Draumasamfélag ef karlar hegðuðu sér eins og konur?

Auður Ösp
Sunnudaginn 14. apríl 2019 15:29

Helgi Gunnlaugsson Prófessor við Háskóla Íslands.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgi Gunnlaugsson er afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við HÍ. Hér verður fram haldið greiningu hans á muninum á afbrotahegðun kynjanna frá því í síðasta tölublaði.

 

Konur og karlar í fangelsi

Fangelsistölur eru mjög lýsandi veruleiki fyrir þann mun sem er á glæpum kynjanna. Sem dæmi má nefna að hér á landi eru konur að jafnaði innan við tíu í fangelsi á móti um 160 körlum. Hlutföllin eru ekki ósvipuð erlendis. Spurningin er eiginlega hvað er að körlum frekar en velta fyrir sér konum eða ástæðum brota hjá þeim. Við sjáum reyndar bágbornari stöðu karla víðar í samfélaginu.

Hegðunarvandi drengja er mun meiri en stúlkna og þeim líður jafnframt verr í skóla en stúlkum. Vímuefnavandinn er stærri hjá körlum og þeir falla í meira mæli fyrir eigin hendi en þær. Karlmennskunni fylgja því óneitanlega skuggahliðar. Jafnréttisbaráttan á ekki síður við um karla en konur þótt okkur sé gjarnt að horfa til kvenna þegar jafnréttismál ber á góma í samfélaginu. Aftur á móti eiga konur sem enda í fangelsi oft við meiri vanda að stríða en venjulegir karlfangar. Lengi vel voru afplánunarúrræði kvenna takmarkaðri hér á landi en karla en það hefur breyst sem betur fer. Konur hafa í dag einnig möguleika á til dæmis opnum úrræðum eins og karlar.

 

Hvers vegna er svona mikill munur á brotum kynjanna?

Konur geta alveg drepið með byssu eða hníf til jafns við karla en gera það ekki. Þær geta stolið og framið alvarleg auðgunarbrot eins og karlar en gera minna af því. Í raun er lítið því til fyrirstöðu að bæði kynin séu jafn mikið í afbrotum – líffræðin ætti ekki að hindra að konur fremji afbrot til jafns við karla – en þær gera það ekki. Konur fremja að sönnu mun færri kynferðisbrot en karlar, en hafa verður í huga að kynferðisbrot eru samkvæmt opinberum skýrslum hlutfallslega fátíð miðað við önnur brot. Hvers vegna er svona mikill munur á kynjunum?

Fræðimenn hafa einkum staldrað við félagslegar, sálrænar og menningarlegar skýringar frekar en einblína á þær líffræðilegu. Félagsmótun kynjanna sé enn þá talsvert ólík.

Jafnvel má spyrja hvort uppeldi stúlkna einkennist af of mikilli stjórnun eða of mikið sé passað upp á þær, sem haldi aftur af þeim. Að drengir séu almennt undir minni stjórnun í uppeldi sem leyfi þeim að hlaupa meira út undan sér, meðal annars til að fremja afbrot.

Gamlar hugmyndir um kynin og hlutverk þeirra séu því enn býsna lífseigar. Ólík hlutverk karla og kvenna í samfélaginu, og þá um leið mismunandi félagslegt taumhald á kynjunum, sé enn við lýði þrátt fyrir allt.

Sjálfsmynd kvenna tengist meira móður- og umönnunarhlutverkinu en sjálfsmynd karla. Ábyrgð kvenna á börnum og heimili hafi í för með sér að þær rækti með sér öðruvísi siðferðiskennd en karlar. Að karlar megi ef til vill rasa meira út en konur, megi vera ábyrgðarlausari. Frelsið sé meira hjá körlum til bæði góðra verka og slæmra.

Konur séu því færari um að halda aftur af sér þótt tækifæri gefist til glæpsamlegs afhæfis. Ætlast sé meira til þess að konur feti hefðbundnari leiðir meðan rásin sé lausari hjá körlum.

 

Konur óttast afbrot meira en karlar

Áhugavert er að konur óttast afbrot meira en karlar og öryggiskennd þeirra á götu úti er mun minni en karla. Samt sem áður verða mun fleiri karlar fyrir ofbeldi úti á götu en konur. Konur óttast að verða fyrir ofbeldi af hálfu ókunnugra en skýrslur sýna að það ofbeldi sem þær verða fyrir er fyrst og fremst framið af körlum sem þær þekkja eða eru í nánu sambandi við. Karlar eru aftur á móti mun oftar þolendur ofbeldis af hálfu þeirra sem þeir þekkja lítið eða ekki – þeir hafa sannarlega meiri ástæðu til að óttast að verða þolendur ofbeldis á götu úti en konur.

 

Hvenær vöknuðu fyrst áhyggjur af afbrotum kvenna?

Fyrsta bókin í afbrotafræði sem sérstaklega tók fyrir hlutdeild kvenna í afbrotum var skrifuð af Freda Adler, bandarískum afbrotafræðingi, árið 1975 og hét Sisters in Crime – The Rise of the New Female Criminal.

Adler spáði því að með vaxandi áhrifum og atvinnuþátttöku kvenna í samfélaginu til jafns við karla myndu konur fremja afbrot á svipaðan hátt og þeir. Afbrotum kvenna var að fjölga á þessum tíma og ein fyrsta konan hafði nýlega komist á lista FBI yfir hættulegustu afbrotamenn Bandaríkjanna. Marie Dean Arrington, blökkukona, drap opinberan starfsmann árið 1969 sem farið hafði með mál hennar og barna í kerfinu. Hún lést fyrir nokkrum árum í fangelsi í hárri elli.

 

Hefur spádómur Adler gengið eftir?

Afbrotum kvenna hefur fjölgað en langt í frá til jafns við afbrot karla. Sem betur fer. Ef konur myndu hegða sér eins og karlar værum við eiginlega komin í villta vestrið með hálfgerðri skálmöld í samfélaginu. Fangelsi myndu ekki bara yfirfyllast heldur þyrftum við tvöfalt fleiri fangelsi með öllum þeim kostnaði sem því fylgir fyrir ríkisbudduna, fyrir utan þann kostnað og sársauka sem skilinn væri eftir meðal borgaranna. Spyrja má hvort það væri ekki miklu öruggara og huggulegra um að litast ef karlar færu að hegða sér eins og konur? Værum við þá ekki komin í draumasamfélagið og þyrftum ekki nein fangelsi? Og þyrftum ekki að óttast afbrot og ofbeldi á götum úti eins og við gerum því miður í dag.

Afbrotum fækkar á Vesturlöndum

Afbrotum tilkynntum til lögreglu hefur fækkað mikið undanfarin ár – fyrst í Bandaríkjunum fyrir aldarfjórðungi eða svo, síðan Evrópu og loks á Norðurlöndum – og nú allra síðustu ár hefur þess líka orðið vart hér á landi einkum í fækkun brota hjá ungmennum.

Ef þróunin er skoðuð eftir kyni sést áhugaverð tilhneiging. Fækkun afbrota er meiri hjá ungum körlum en konum.

Bilið milli kynjanna er því að minnka – karlarnir eru farnir að líkjast konum! Þótt enn sé langt í land eru þetta óneitanlega jákvæðar fréttir fyrir okkur öll, jafnstaðan nálgast mest vegna þess að karlar eru farnir að hegða sér betur en áður og nálgast því konur hvað afbrotahegðun varðar.

Skýringar á fækkun hefðbundinna afbrota á Vesturlöndum eru auðvitað spennandi viðfangsefni. Tengsl foreldra og barna meiri en áður, meiri skipulagður frítími ungmenna og auknar forvarnir, svo örfáar skýringar séu nefndar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt