fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Gistiskýlið við Lindargötu: „Tifandi tímasprengja!“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 12. apríl 2019 13:00

Svona er aðkoman á salernum sem bíður starfsmanna á morgnana

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er gríðarleg óánægja meðal starfsfólks niðri í gistiskýli og mikil starfsmannavelta hefur verið undanfarna mánuði. Aðalástæðan er sú að þarna eru rekin sjö neyslurými fyrir sprautufíkla og dreifast þau á allar þrjár hæðir hússins. Þetta skapar gríðarlega hættu fyrir bæði okkur starfsfólkið og líka skjólstæðingana sem búa í húsinu. Margir þeirra eru bara venju   legir karlar sem eru tímabundið heimilislausir, til dæmis vegna skyndilegra sambúðarslita og svo framvegis. Þessir menn eru margir ekki í neyslu,“ segir Tómas Jakob Sigurðsson, starfsmaður gistiskýlisins við Lindargötu.

Tómas og margir samstarfsfélagar hans eru mjög ósáttir við hvernig rekstur gistiskýlisins hefur þróast á undanförnum árum, eftir að tekin var upp svokölluð skaðaminnkunarstefna. Forstöðumaður gistiskýlisins, Þór Gíslason, er á meðal stofnenda Frú Ragnheiðar sem gengst fyrir skaðaminnkandi aðgerðum í málum sprautufíkla.

„Stærstur hluti þeirra sem sækja í gistiskýlin er alkóhólistar. Síðan breyttist þetta fyrir tæplega tveimur árum þegar tekin var upp þessi skaðaminnkunarstefna. Þá var opnað fyrir það að menn gætu sprautað sig inni á salernum. Það eru settir þarna gulir dallar fyrir notaðan búnað og boðið upp á hreinar sprautunálar. Það hefur verið reynt að hafa einhverjar reglur um þetta, til dæmis að menn séu skráðir inn í hús. En þetta fer meira og minna úr böndunum, því það er miklu meiri aðsókn í þetta en húsið leyfir. Núna er það ekki bara þessi stóri hópur fólks sem er á götunni, heldur bætast við sprautufíklar, og meðal þeirra eru menn sem aldrei áður hafa nýtt sér gistiskýlið sem slíkt, en nýta sér aðstöðuna til að geta sprautað sig,“ segir Tómas.

Brotin rúða. Oft kemur til átaka í gistiskýlinu.

Ekki viðurkennt að neyslurými sé á staðnum

Tómas segir að starfsmenn hafi tekist á um þetta mál við forstöðumannsins á sérstöku spjallsvæði. Þar neiti hann því að um neyslurými sé að ræða. Stefnan sé sú að líta fram hjá neyslu. Orðrétt skrifaði forstöðumaðurinn meðal annars í þessum umræðum: „Og hér er þar sem ég stíg fast niður fæti, jafnt gagnvart ykkur sem öðrum sem tala gegn skaðaminnkun. Það er unnið samkvæmt skaðaminnkandi aðferðafræði í gistiskýlinu og það er ekki ykkar að ákveða annað.“

Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, hefur kynnt sér starfsemi gistiskýlisins og blöskrar ástandið. Hann og Tómas eru sammála um að ekki sé með nokkrum hætti hægt að andmæla því að í húsinu séu rekin neyslurými fyrir sprautufíkla. „Þetta er bara súrrealískt,“ segir Baldur um þá afstöðu að afneita því að neyslurými sé í gistiskýlinu.

Hann bendir á að í nýju lagafrumvarpi sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt fram og miðar að tilslökun á reglum um skaðaminnkandi aðgerðir, sé gert ráð fyrir að uppfyllt séu mjög ströng skilyrði til að mega reka slík rými. Segir meðal annars í frumvarpinu:

„Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem eru 18 ára og eldri geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.“

Baldur (t.v.) og Tómas

Baldur bendir á að engin af þessum skilyrðum séu uppfyllt í gistiskýlinu, en þar séu rekin neyslurými, hvort sem forstöðumaðurinn viðurkennir það eða ekki, við óviðunandi og stórhættulegar aðstæður.

„Þetta er á þremur hæðum og allt út í ranghölum. Þarna eru aðeins tveir starfsmenn á vakt hverju sinni á nóttunni og stundum allt að 30 manns í húsinu,“ segir Baldur sem heimsótti gistiskýlið á dögunum og tók þar myndir sem fylgja fréttinni. Segir Baldur að sér hafi verið mjög brugðið og segist hann þó ýmsu vanur í þessum efnum, en hann var lengi gæslumaður á Kleppi í gamla daga og sinnti erfiðustu sjúklingum auk þess að hafa starfað í öryggisgæslu.

„Þarna eru aðeins tveir að störfum hverju sinni og ekki raunhæfur möguleiki að kalla út bakvakt ef eitthvað kemur upp á. Þetta er stórhættulegt og ég mun leggja til í borgarstjórn að þessum neyslurýmum í gistiskýlinu verði lokað,“ segir Baldur enn fremur.

Gistiskýlið við Lindargötu. Segja ástandið hafa farið hríðversnandi undanfarin tvö ár.

Vilja sprautufíklana og neyslurýmin út

Tómas bendir á að starfsmenn hafi enga þjálfun eða menntun til að takast á við sprautufíkla. „Við erum ekki þjálfuð til að takast á við þetta skaðaminnkandi hlutverk,“ segir hann. Stórhættulegt ástand skapist og starfsmenn þurfi að standa í handalögmálum við yfirgangssama aðila úr hópi sprautufíklanna. Venjulegir menn, ekki í neyslu, sem þarna gista komist ekki á klósettið fyrir fíklunum, nema starfsmenn hafi áður barið á dyr og komið þeim út. Þetta valdi miklu álagi.

Á meðan sprautufíklar fá þarna aðstöðu til neyslu er áfengi tekið af alkóhólistum sem nýta sér gistiskýlið. Starfsmenn vilja hins vegar sjá hvorugt á staðnum.

„Okkar krafa er að farið sér eftir því sem stendur á skilti inni í húsinu, að neysla vímuefna og áfengis sé ekki leyfð í húsinu,“ segir Tómas. Hann setur sig ekki á móti skaðaminnkunarstefnunni en vill að neyslurými séu einfaldlega annars staðar – tilvist þeirra í gistiskýlinu sé fráleit.

„Ég hef ekkert á móti skaðaminnkandi aðferðum, en neyslurými er einn hlutur og gistiskýli annar.“

Mikið ofbeldi á sér stað innan gistiskýlisins þegar verst lætur og sprautufíklar eru oftast þeir sem vaða yfir aðra íbúa gistiskýlisins. Starfsmenn lenda hvað eftir annað í átökum við þá og eiga mjög erfitt með að halda ró og friði í húsinu þegar verst lætur.

Óboðlegt ástand: Starfsfólk vill neyslurýmin út.

„Ég tel þá starfsemi sem þarna fer fram vera kolólöglega og stórhættulega,“ segir Baldur. „Þetta hús er í raun tifandi tímasprengja og mér finnst bara með ólíkindum hvað viðgengst þarna.“

Ekki náðist í Þór Gíslason, forstöðumann Gistiskýlisins við Lindargötu, við vinnslu fréttarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“

Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“
Fréttir
Í gær

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti