Björgvin Guðmundsson lést á heimili sínu í gær. Hann var 86 ára. Björgvin starfaði um lengi sem blaðamaður en síðar tók hann þátt í stjórnmálum. Hann var borgarfulltrúi og borgarráðsmaður fyrir Alþýðuflokkinn í tólf ár. Á seinni árum ritaði hann fjölda þjóðmálagreina sem birtust í fjölmiðlum. Hin síðari ár beitti hann sér í ríkum mæli fyrir bættum kjörum aldraðra.
Sjálfur tók Björgvin saman æviágrip sín á heimasíðu sinni. „Björgvin Guðmundsson er fæddur 13. september 1932 í Reykjavík. Varð stúdent frá MR 1953, viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1958, blaðamaður og fréttaritstjóri við Alþýðublaðið og Vísi um 11 ára skeið, umsjónarmaður Efst á baugi í ríkisútvarpinu í 10 ár, forstjóri BÚR í 2 ár, framkvæmdastjóri Íslensks nýfisks í 9 ár, starfsmaður stjórnarráðsins í 28 ár, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu og sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu. Borgarfulltrúi og borgarráðsmaður fyrir Alþýðuflokkinn í 12 ár. Formaður borgarráðs í 1 ár,“ segir þar.