Tveir kettir drápust á dögunum í Sandgerði. Banamein kattanna var eitrun sökum frostlagar, en það virðist vera orðin nokkuð algeng aðferð við að koma köttum fyrir kattarnef á Íslandi. Ber þá skemmst að nefna ítrekaðar eitranir í Hveragerði.
Ása Rögnvaldsdóttir kom að ketti sínum meðvitundalausum í gær og fór með hann til dýralæknis. Þar fékkst staðfest að kötturinn hefði innbyrgt frostlög. Frostlögur er sætur á bragðið en baneitraður fyrir dýr. Köttur Ásu var annar kötturinn sem deyr vegna frostlagar í Sandgerði undanfarna daga samkvæmt frétt Víkurfrétta.
Ef grunur leikur á að gæludýr hafi komist í frostlög þá hefur Dýraspítalinn í Garðabæ gefið út leiðbeiningar um hvaða einkenni skuli vera vakandi fyrir. Gæludýraeigendum er jafnframt ráðlagt að varðveita uppköst dýra sinna, því þau gætu verið sönnunargögn um eitrunina.
1. stig: (þessi einkenni koma fram innan 30 mínútna frá því dýrið innbyrðir frostlög) : slappleiki,mikil uppköst, jafnvægisleysi jafnvel, aukin þvaglát, aukinn þorsti, líkamshiti fellur/kuldi, krampar, meðvitundarleysi.
2. stig: 12-24t frá því innbyrt: stundum virðast einkenni lagast töluvert og ganga tilbaka sem gefur okkur falska von um bata. Hins verður vökvaskortur hjá dýrinu og öndunartíðni og hjartsláttartíðni hækkkar.
3. stig: 36-72 tímum frá því innbyrt: einkenni alvarlegrar nýrnabilunar koma fram sem eru alvarlegar bólgur í nýrum , mikill sársauki og framleiðsla á þvagi minnkar og hættir jafnvel alveg. Áframhaldandi versnandi ástand með miklum slappleika, engin matarlyst, uppköst, krampar og meðvitundarleysi og dauði að lokum.
Meðhöndla þarf dýrin innan 8-12 tíma frá því eitrið er innbyrt eigi dýrin að eiga einhverja von .
Geymið uppköst/ eða leifar af því sem dýrið át, sem sönnunargögn!