fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Fréttir

Grátandi Rúmeninn stígur fram: „Ég fékk kannski rúmlega 100 þúsund útborgað á meðan aðrir fengu 20 eða 70 þúsund“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 9. mars 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég kom fyrst í fyrra, 2018 í júlí. Strax eftir fyrsta mánuðinn vissi ég að ekki væri allt með felldu.“

Romeo Sarga kom til Íslands í júlí 2018. Hann var kominn hingað, með bróður sínum, til að vinna og spara pening. Hann hafði ákveðnar hugmyndir um hvað biði hans við komuna, enda hafði hann hlotið upplýsingar og loforð frá starfsmannaleigunni Menn í vinnu ehf. sem hann var að fara að vinna fyrir.

Eftir að hann kom á áfangastað, varð honum þó fljótt ljóst, að þau fögru fyrirheit sem hann hafði fengið, voru í hrópandi ósamræmi við þann veruleika sem tók á móti honum á Íslandi. Hann settist niður með blaðamanni til að segja frá því af hverju hann hætti hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu ehf. og af hverju hann og fleiri fyrrverandi starfsmenn eru nú að leita réttar síns með aðstoð Eflingar.

Húsnæðið að Hjallabrekku

Ekki mikið pláss til að leggja frá sér persónulega muni. Mynd/RÚV

„Fyrst og fremst var það húsnæðisvandamál, varðandi gistinguna. Við vorum alltaf of margir í sama herbergi. Þegar það var haft samband við okkur úti, áður en ég kom til Íslands, var okkur tjáð að við myndum búa við góðar aðstæður. Ekkert endilega að við yrðum einir í herbergi. Mér til dæmis var sagt, því ég kom með bróður mínu, að við fengjum að vera tveir einir saman.“

En Romeo og bróðir hans voru ekki í tveggja manna herbergi. Þeir voru yfirleitt 3–4 saman.

„Herbergin voru mjög lítil. Við höfðum ekki einu sinni pláss til að leggja frá okkur persónulega muni við hliðina á rúminu. Þetta voru mjög mjög slæmar aðstæður. Margir sem hafa komið hingað endast bara í 1–3 mánuði. Þeir verða óánægðir þegar þeir sjá hvar þeir eiga að búa og hvað launin eru lág og fara því bara heim. Ég er búinn að endast óvenju lengi og með einn hæsta starfsaldurinn.“

DV fjallaði um daginn um málsvarnir starfsmannaleigunnar. Þar greindi fyrirsvarsmaður leigunnar, Halla Rut, frá því að Romeo og fleiri hefðu dvalið í flottri risíbúð í Krummahólum þar til þeir fóru í jólafrí heim til Rúmeníu. Romeo segir það rangt,  hann hafi bara búið að Hjallabrekku.

„Það særði mig að heyra hvaða lygum hún er að dreifa um mig og okkur. Ég hef aldrei verið á öðrum stað eða í annarri íbúð eins og hún heldur fram. Það er ekki satt og ég veit ekki af hverju hún er að halda því fram.“

Sárnaði fréttin

Við komuna til landsins fékk Romeo samning til undirritunar sem kvað á um 1.600 króna tímakaup í dagvinnu og 2.800 króna í yfirvinnu. Síðan hafi starfsmannaleigan ákveðið að hafa launin 440 þúsund krónur fastar á mánuði fyrir 220 vinnustundir.

„Ég veit ekki hvaða samkomulag við eigum að hafa gert, ég fékk aldrei nýjan samning til að skrifa undir. Ég kannast ekki við að hafa samið um föst mánaðarleg laun.“

Eitt ef fyrstu verkefnunum sem Romeo var settur í var að taka til eftir Guns N‘Roses-tónleikana á Laugardalsvelli. Sú vinna hafi verið svört og fengu þeir starfsmenn sem henni sinntu greidda einhverja fjárhæð sem þeir höfðu enga leið til að sannreyna. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem þeir byrjuðu að fá launaseðla.

„Við fengum aldrei launaseðla fyrr en við byrjuðum að ganga á eftir því. Þá fórum við að fá þá rafrænt í heimabanka.“

Tungumálaörðugleikar

Blaðamaður bar launaseðil fyrir nóvembermánuð undir Romeo sem virtist ekki hafa fengið upplýsingar um hvernig lesa eigi úr launaseðlum. Ýmislegt sem blaðamaður benti honum á varðandi frádráttarliði og útreikning launa, kom Romeo á óvart. Til dæmis taldi hann að 10,17% orlofsgreiðslur sem bættust við föstu launin væri frádráttarliður sem væri lagður inn á einhvern orlofsreikning sem ekki væri til.

Frádráttarliðir voru sýndir fyrir hvern mánuð, en einnig samtala um frádráttarliði frá áramótum. Þetta hafði aldrei verið skýrt almennilega út fyrir honum. DV hefur áður greint frá því að starfsmannaleigan bæti kjör starfsmanna eftir vissan reynslutíma. Þetta var ekki skýrt út fyrir starfsmönnum. Um hver mánaðamót báru þeir saman launin sín og skildu ekki af hverju þeir fengu mismikið greitt fyrir sömu vinnu. Enda er starfsmannaleigan ekki með túlk á sínum vegum, og því geta tungumálaörðugleikar orðið til vandræða.

„Þetta er líka aðalvandamálið. Það koma upp vandamál því það eru alls ekki allir sem tala ensku og svörin eru snörp frá leigunni, ef þau berast yfirhöfuð. Við vorum til dæmis fjórir í sama verki með sama vinnutíma. Ég fékk kannski rúmlega 100 þúsund útborgað á meðan aðrir fengu 20 eða 70 þúsund. Þá vakna margar spurningar. Til dæmis ég og bróðir minn, við höfum unnið til svona klukkan hálf sex, sex, en aðrir eru kannski til tíu um kvöldið. Svo þegar við berum saman launaseðlana okkar þá var ég að fá miklu meira borgað en þeir.“

Peningarnir á bankabók og launamál

Romeo segir að samskiptin við Höllu hafi alltaf farið vel fram, en hún hafi stöðugt verið að gefa honum og öðrum loforð sem aldrei voru efnd.

„Það átti að borga fyrir laugardagana, miðað við það átti ég mánaðarlega inni hjá þeim 70 þúsund krónur fyrir skatt. Skiptir ekki máli hvaða dag vikunnar við erum að vinna, virkan dag eða um helgar. Við unnum oftast á laugardögum og samkvæmt okkar skilningi á íslensku launakerfi þá eigum við að fá borgað extra fyrir það. Við erum með ráðningarsamning sem kveður á um yfirvinnu, um 2.800 krónur.“

Starfsmannaleigan sendi DV skjáskot af kröfu sem Romeo fékk frá Landspítalanum sem sýndi að staðan á reikningnum hans var um 700 þúsund krónur. „Já, þetta skjáskot sýnir innistæðuna mína, en ekki frá því í janúar heldur frá nóvember. Krafan var tilkomin vegna þess að ég leitaði á spítalann eftir vinnuslys, missti jafnvægið í vinnunni og datt. Ég sendi þetta skjáskot á Höllu því ég skildi ekki af hverju ég var að fá þennan reikning og af hverju hann var svona hár. Var ég ekki sjúkratryggður? Ég var búinn að vera að borga skatta. En þessir peningar voru það sem ég hafði náð að safna frá því að ég kom til Íslands og tæplega 200 þúsund króna lán sem ég fékk frá Danmörku. Þessir peningar voru ekki lengur til staðar þegar ég talaði við fjölmiðla.“

Matarkort frá Eflingu

Fyrirsvarsmaður starfsmannaleigunnar heldur því fram að Romeo og fleiri, sem hafa hlotið aðstoð Eflingar, hafi farið með matarkort sem Efling gaf þeim, keypt mikið magn af kjöti og síðan selt það frá sér. Romeo segir þetta rangt og bauð blaðamanni að skoða allar kvittanir.

„Við seldum matinn ekki, heldur gáfum þeim sem búa í húsnæðinu að Hjallabrekku með okkur. Fengum kort til að kaupa fyrir alla og þetta var gefins, það voru engin skilyrði. Við fórum og keyptum matinn fyrir alla og skiptum svo á milli okkar jafnt. Þetta voru líka ekki bara kjötvörur heldur líka sódavatn og þess háttar.“

Með Romeo er vinur hans, Ion Anghel, sem líka vann hjá starfsmannaleigunni. Hann bætir við:

„Ég var að vinna í Noregi í viku, fór að kvarta yfir að hafa ekki fengið borgað rétt. Málið var svakalega hratt afgreitt, ég fékk strax hjálp, strax voru ráðstafanir gerðar og ég fékk peninginn strax. Hér gerist þetta hægar, hér vissi Efling af þessu í haust en ekkert gerðist fyrr en þetta var komið aftur í fjölmiðla.“

Þegar Romeo kom til landsins var einn samlandi hans starfandi sem nokkurs konar umsjónarmaður. Hann hafði milligöngu fyrir Rúmenana, aðstoðaði þá við að fá kennitölu, kaupa vinnuföt, stofna bankareikning og þess háttar.

„En þegar hann gerði sér grein fyrir hvernig farið var með okkur reyndi hann að taka upp hanskann fyrir okkur hina. Þá var hann látinn fara.“

Fyrirvaralaust hent úr húsnæði eða úr landi

Hann var ekki sá eini sem lenti í því að vera sagt að hypja sig þegar hann fór að leita eftir betri kjörum. Að sögn Romeos gátu þeir sem kvörtuðu eða spurðu of margra spurninga, átt von að því að verða tilkynnt að búið væri að kaupa fyrir þá flugmiða og þeir ættu að fara úr landi, jafnvel strax um nóttina. Aðrir lentu í því að verða fyrirvaralaust vikið úr starfi, enginn uppsagnarfrestur og gert að rýma húsnæðið umsvifalaust.

„Einn ungur strákur lenti á götunni því honum var hent út. Ég fann til í hjartanu að vita af honum þar og hringdi í hann og bauð honum að gista hjá okkur í herberginu, en hann þorði ekki að koma, var of hræddur. Svo var einn ungur strákur, 18 ára, við kölluðum hann krakkann, hann fékk skilaboð um að því miður væru engin verkefni í boði fyrir hann og búið væri að bóka flug fyrir hann heim klukkan eitt um nóttina. Krakkinn svaraði: „Ég get ekki farið, ég hef enga peninga til að ferðast með.“ Halla sagði að það væri ekkert mál, hún myndi leggja inn á hann. Svo lendir hann í Póllandi, ekki Rúmeníu. Hann hringir og spyr eftir peningunum, en fær engin svör. Hann beið og beið í Póllandi. Hann talar hvorki ensku né pólsku og þarna var hann strandaður, peningalaus, á götunni í Póllandi í nokkra daga.“

Vildu ekki hætta

„Ég fór til Rúmeníu í desember. Þar hafði ég samband við Höllu og tilkynnti henni að ég kæmi ekki til baka nema rétt væri gert við mig, ég fengi öll launin og byggi við betri aðstæður. Ég hef ekkert á móti henni persónulega. Ég vildi bara fá það greitt sem ég átti inni.“

Þegar Romeo kom til baka varð honum ljóst að aðstæðurnar væru ekki að fara að batna.

„Við vildum ekki hætta hjá starfsmannaleigunni. Við reyndum að fá Höllu til að tala við okkur. Hún vildi það ekki. Það eru sönnunargögn fyrir því að við höfum reynt að tala við hana og að við höfum ekki hlaupið úr starfi.“

En enginn kom til að leita sátta við Romeo og hina Rúmenana sem voru ósáttir. Þess í stað komu menn til að henda þeim út.

„Við sögðum að við vildum ekki vera til vandræða, við værum peningalausir og hefðum engan stað að fara á. Einn af mönnunum talaði rúmensku svo við gátum rætt við hann, hann sagði að hann hefði ekkert á móti okkur, hann væri bara að sinna starfi sem honum væri borgað fyrir.“

Þessir menn sögðust vera á vegum eiganda húsnæðisins, ekki starfsmannaleigunnar svo Romeo og hinir reyndu þá að komast að samkomulagi um að fá að dvelja áfram í húsnæðinu, gegn greiðslu, á meðan þeir kæmu undir sig fótunum.

„Þá var okkur sagt að það yrðu 65 þúsund krónur á mann, fyrir viku.“ Þegar Romeo sá inn á hvaða reikning þeir ættu að leggja leiguna gerði hann sér grein fyrir að mennirnir væru á vegum starfsmannaleigunnar. Þeir fengu að dvelja þar um nóttina en var tilkynnt að daginn eftir yrði þeim hent út, með valdi ef þyrfti.

Leituðu til lögreglunnar

Einn mannanna sem ætlaði að henda þeim út sagði þeim að það þýddi ekkert að hafa samband við lögregluna, hún vissi af þessu og myndi ekki skipta sér af. Þessu trúðu þeir, enda væri slíkt ekkert óvenjulegt í Rúmeníu. Þeir ákváðu samt að reyna og hringdu í Neyðarlínuna, en sambandið slitnaði og þeir túlkuðu það á þann veg að skellt hefði verið á þá, sem staðfesti í þeirra huga það sem maðurinn hafði sagt þeim.

„Þegar það var skellt á okkur þá urðum við mjög hræddir. Það getur ekki verið að lögreglan skelli á okkur. Okkur fannst við vera í hættu. Þá fórum við allir persónulega til lögreglunnar í miðbænum. Við reyndum að útskýra aðstæður okkar fyrir lögreglunni, en okkur var sagt að þeir gætu ekkert gert nema að handtaka okkur. Eina leiðin sem þeir hefðu til að veita okkur hjálp væri  handtaka okkur.“

Þarna byrjaði þetta allt, þegar það átti að henda þeim út. Þeir ákváðu að standa upp fyrir sjálfum sér og skömmu síðar var fréttastofa mætt til þeirra og fulltrúar frá ASÍ og Eflingu komnir í málið.

„Það hafa um 70 starfsmanna frá leigunni leitað til Eflingar. Efling segir að þetta sé eitt stærsta mál sem þau hafi fengið. Við viljum vinna, allir vilja vinna. Okkur langar að taka það skýrt fram að við erum ekki að leita að neinum peningi sem við eigum ekki rétt á. Við viljum ekki atvinnuleysisbætur eða félagslegar bætur. Við viljum bara fá það sem við eigum rétt á og vinna okkur inn sanngjörn laun. Við getum ekki verið aðgerðarlausir, við viljum fá okkar rétt.“

Að lokum

Það sem blasir við blaðamanni eftir samtal við fyrirsvarsmann starfsmannaleigunnar og Romeo Sarga er að mikið af þessum vandamálum hefði verið hægt að fyrirbyggja með betra upplýsingaflæði, ef starfsmannaleigan hefði til dæmis haft túlk í vinnu eða nýliðafræðslu þar sem meðal annars launaseðlar væru útskýrðir fyrir starfsmönnum.

Ásakanirnar á hendur starfsmannaleigunni eru þó meiri og stærri en bara varðandi launin ein og sér. Starfsmenn halda því fram að þeir hafi verið beittir ofbeldi af aðilum á vegum leigunnar, hafi verið sópað upp í flugvél og hent heim ef þeir kvörtuðu og að þeir hafi upphaflega verið fengnir til landsins með fölskum loforðum, hálfum sannleik.

Romeo Sarga talar enga íslensku og litla ensku. Hann kemur hér til landsins með ákveðnar hugmyndir um hvað hann á í vændum en gerir sér fljótt grein fyrir að þessar hugmyndir eru í engum takti við raunveruleikann sem tekur á móti honum á Íslandi.

Hann langaði, að eign sögn, ekki að búa til neitt vesen. Hann vildi bara samtal við vinnuveitendur sína, útskýringar og fá greitt það sem hann taldi sig eiga inni.

Hann á í rauninni bágt með að skilja af hverju hann, grátandi Rúmeninn, er orðinn andlit baráttu gegn starfsmannaleigum. Hann vill bara fá peningana sína og vettvang til að vinna sér inn sanngjörn laun. Hann á líka bágt með að skilja af hverju þetta mál er svona lengi í kerfinu, ef þetta sé klippt og skorið, líkt og hann hefur verið sannfærður um. Af hverju er hann enn að bíða eftir niðurstöðu?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilja banna innflutning frá Temu og Shein

Vilja banna innflutning frá Temu og Shein
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óánægjualda rís vegna umdeildra kaupa og áskrifendur flýja- „Það er fráleitt að kaupa sorpritið Mannlíf til þess að Reynir Traustason megi eiga áhyggjulaust ævikvöld“

Óánægjualda rís vegna umdeildra kaupa og áskrifendur flýja- „Það er fráleitt að kaupa sorpritið Mannlíf til þess að Reynir Traustason megi eiga áhyggjulaust ævikvöld“