Fram kemur að WOW air sé skuldum vafið og hafi um margra mánaða skeið leitað leiða til að tryggja reksturinn.
Blaðið fer síðan stuttlega yfir sögu WOW air og stöðu þess í dag en félagið er með um 1.000 starfsmenn og notar Airbus flugvélar á áætlunarleiðum sínum. Á síðasta ári flutti félagið um 3,5 milljónir farþega. Viðskiptamódel félagsins byggir á að tengja Evrópu og Norður-Ameríku saman í gegnum Keflavíkurflugvöll. Það er sama módel og Icelandair notar.
Nú eru þúsundir farþega strandaglópar beggja meginn Atlantshafs og vita ekki hvað gerist næst. WOW air segir að nánari upplýsingar verði veittar klukkan 9 að íslenskum tíma.
Blaðið fjallar síðan um reiði og undrun farþega sem vita ekki hvað er á seyði. Blaðið bendir á að á undanförnum dögum hafi flugmiði aðra leiðina á milli Stansted og Reykjavíkur kostað 756 pund en EasyJet hafi boðið flug á 57 pund á þessari leið. Blaðið segir að flugfélög hafi oft beitt þessari tækni, að hækka verð flugmiða upp úr öllu valdi, þegar nær útséð er um að þau haldi velli. Bent er á að Monarch flugfélagið hafi notað þessa aðferð áður en það varð gjaldþrota 2017.
Blaðið segir að ólíklegt sé að það takist að bjarga flugfélaginu ef litið sé til fyrri reynslu flugfélaga í svipaðri stöðu og því séu dagar þess líklegast taldir. Hugsanlega eigi flugfélagið einhver verðmæti í lendingarleyfum sínum en ljóst sé að vörumerkið WOW air sé stórskaðað og hafi lítið verðgildi í dag.