„Færst hefur í vöxt að fólk hafi þurft að leita sér hjálpar vegna kannabisneyslu á Norðurlöndunum á undanförnum tveimur áratugum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Norræna velferðarráðsins um kannabisneyslu og meðferðir við henni á Norðurlöndum. Samkvæmt skýrslunni er neyslan mest í Danmörku og Finnland í öðru sæti,“ segir í leiðara Morgunblaðsins í dag en leiða má líkur að þar haldi Davíð Oddsson um penna.
Í leiðaranum segir að neysla kannabis sé mest meðal yngra fólks. „Jákvætt við skýrsluna er að kannabisneysla á Íslandi og í Noregi og Svíþjóð er með því minnsta sem gerist í Evrópu. Neyslan er mest hjá ungu fólki, en fátíð meðal þeirra, sem eru eldri en 45 ára. Hvað sem því líður getur regluleg neysla verið afdrifarík. Í frétt um skýrsluna í Morgunblaðinu í gær segir að kannabis sé helsta neysluefni yfir þriðjungs þeirra, sem leita sér aðstoðar vegna fíknar,“ segir Davíð.
Davíð varar við því að styrkur kannabis fari vaxandi. „Í skýrslu ráðsins segir að hvorki ungir neytendur, foreldrar þeirra né skólastarfsfólk þekki áhrif kannabisefna á líkamann og hugann nægilega vel. Á vefsíðu tímaritsins The Economist var í vikunni fjallað um áhrif kannabis. Þar kemur fram að styrkur virka efnisins í vímuefninu, tetrahýdrókannabínol, fari vaxandi og nú megi finna afbrigði þar sem styrkurinn fari yfir 25%,“ segir í leiðara Morgunblaðsins.
Davíð vísar til þess að svo sterkt kannabis geti leitt til geðrænna vandamála. „Þar er vitnað í rannsókn, sem birt var í þessari viku í læknatímaritinu Lancet, um áhrif efnisins. Rannsóknin leiðir í ljós að fari styrkurinn yfir 10% fimmfaldist hættan á geðrænum vandamálum með reglulegri notkun. Ef styrkurinn er minni þrefaldast hættan. Í greininni í The Economist segir að með auknum rannsóknum hafi vísbendingum fjölgað um að notkun á kannabis sé á bak við geðheilbrigðisvandamál í Evrópu. Vandinn sé sennilega mestur í Amsterdam og London þar sem mest sé um efni með miklu magni tetrahýdrókannabínols,“ segir í leiðaranum.
Davíð bendir á að verið sé að lögleiða kannabis víða í Norður-Ameríku og skilja má af leiðaranum að það sé varasöm þróun. „Í Bandaríkjunum og Kanada er nú verið að rýmka reglur og lögleiða almenna neyslu víða. Ekki er ljóst hvaða áhrif lögleiðing mun hafa á geðheilbrigði almennings. Má segja að búin hafi verið til rannsóknarstofa og niðurstöðurnar verði kynntar síðar. The Economist vitnar í ónefndan vísindamann, sem hafði á orði að tilraunadýr væru dýr leið til að öðlast skilning á hættum kannabisnotkunar, en íbúar Norður-Ameríku væru ókeypis. Það er kaldhæðnisleg afstaða en undirstrikar hversu varasamt er að fara út í slíkar æfingar þegar heilbrigði ungs fólks er annars vegar.“