Sigurður Kristinsson hefur verið dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi vegna Skáksambandsmálsins svokallaða. Hann var dæmdur fyrir að smygla um fimm kílóum af amfetamíni til landsins í upphafi síðasta árs.
Auk Sigurðar voru Hákon Örn Bergmann og Jóhann Axel Viðarsson dæmdir í fangelsisvist. Hákon hlaut tólf mánaða dóm meðan Jóhann Axel var dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna.
Málið vakti mikla athygli í samfélaginu. Lögreglan hafði haldlagt pakka með fíkniefnunum sem stílaður var á Skáksamband Íslands. Lögreglan skipti fíkniefnunum út fyrir gerviefni og réðst síðan til atlögu á skrifstofu sambandsins þegar pakkinn barst þangað.
Líkt og frægt er orðið slasaðist fyrrverandi eiginkona hans, Sunna Elvíra Þorkelsdóttir, á þáverandi heimili þeirra í Malaga-borg á Spáni um svipað leyti. Hvað átti sér stað ytra liggur ekki fyrir en afleiðingarnar voru skelfilegar. Sunna Elvira þríhryggbrotnaði við fallið og fékk að lokum þann úrskurð að hún væri lömuð til lífstíðar.
Dómur Sigurðar hefur ekki enn verið birtur á vef dómstóla en Fréttablaðið greinir frá því að dómur hafi fallið.