Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og segir að þetta megi lesa úr skýringum við ársreikning Íslandsbanka sem var birtur í gærkvöldi. Segir blaðið að árslaun Birnu 2018 hafi verið 59,6 milljónir og er þá ekki tekið tillit til árangurstengdra greiðslna sem voru 3,9 milljónir. Árið á undan voru laun Birnu 48,3 milljónir og árangurstengdar greiðslur voru 9,7 milljónir.
Heildarlaun Birnu voru 63,5 milljónir á síðasta ári en inni í þeirri tölu eru árangurstengdar greiðslur frá 2014 vegna kaupaukakerfis sem var við lýði innan bankans til ársloka 2016.
Á mánudaginn greindi Íslandsbanki frá því að laun Birnu hefðu verið lækkuð um 14,1 prósent að hennar frumkvæði í nóvember og hafi þá farið niður í 4,2 milljónir króna. Var þessi ákvörðun sögð tekin í ljósi stöðunnar í íslensku atvinnulífi og yfirstandandi kjaraviðræðna.