Íslenskur maður, Jón Þröstur Jónsson, hvarf í Dublin um helgina og hefur írska lögreglan látið lýsa eftir honum í fjölmiðlum. Jón er 41 árs gamall.
Í frétt írska miðilsins The Journal er sagt að síðast hafi sést til Jóns í úthverfinu Whitehall í Dublin seint á laugardagsmorgun. Jón Þröstur er 184 cm á hæð, meðalmaður vexti og með stutt brúnt hár. Hann var klæddur í svartan jakka síðast þegar sást til hans.
Unnusta Jóns Þrastar var með honum í Dublin og gekk hann út af hótelinu símalaus þar sem þau gistu á laugardagsmorguninn. Aðstandendur Jóns Þrastar halda til Dublin á þriðudagsmorgun vegna málsins.
Málið þykir hið dularfyllsta og ónefndur vinur Jóns Þrastar sagði við DV: „Þetta er bara venjulegur strákur, ekki í neinu rugli.“
Fram kemur á vef RÚV að Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, staðfesti að málið sé komið inn á borð borgaraþjónustunnar.