Vefsíðan Severe Weather Europe, sem virðist sérhæfa sig í vondu veðri, segir að á morgun komi svokölluð sprengilægð, eða bombogenesis til Íslands. Á vefnum er spáð allt að 200 sentímetrum af snjó norðantil á landinu og vindhraða sem líkist helst fellibyl.
Flestir hafa eflaust ekki heyrt orðið sprengilægð oft og hljómar það raunar mjög ógnvekjandi. Trausti Jónsson veðurfræðingur fjallaði um það fyrirbæri árið 2006 á vef Veðurstofunnar.
„Morguninn 9. nóvember 2006 nálgaðist landið lægð sem hafði dýpkað um 48 mb á einum sólahring. Lægðir sem dýpka svo hratt eru kallaðar sprengilægðir og er hér farið yfir þær aðstæður og þau skilyrði sem voru í andrúmsloftinu dagana áður en lægðin varð sprengilægð.“
Vegagerðin hefur birt áætlun um lokanir vegna veðurofsans sem gengur yfir landið á morgun og næstu daga. Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra og Miðhálendi.