„Læknirinn minn sagði að þegar svona hraustir menn verði veikir þá verði þeir mjög veikir. Það mun taka tíma að jafna sig á þessu en þetta blossaði upp í síðustu viku,“ segir körfuboltamaðurinn Kristófer Acox í spjalli við DV en hann var lagður inn á spítala í síðustu viku vegna sýkingar í nýra sem fór síðan út í blóðið.
Kristófer er einn af þekktustu körfuboltamönnum landsins, landsliðsmaður og margfaldur Íslandsmeistari með KR.
„Þetta eru mjög erfið veikindi, ég hef verið í rannsóknum og meðferðum eftir að ég byrjaði að finna fyrir þessu fyrir nokkrum vikum síðan. Í síðustu viku blossaði þetta síðan upp,“ segir Kristófer sem var lagður fárveikur inn á spítala í síðustu viku. Hann er á batavegi og er nýútskrifaður af spítalanum.
Kristófer lék ekki síðasta leik KR gegn Grindavík í bikarkeppninni en flestir héldu að hann væri meiddur. En þessi veikindi eru ekki körfuboltatengd. „Ég hef ekkert verið að auglýsa þetta og þess vegna vita fáir af þessu,“ segir Kristófer sem þó var alveg tilbúinn að ræða þetta við DV.
Kristófer segir nýrnabilunina ekki vera ættgenga en hann hafi þó strítt við þetta frá barnæsku. „Að öðru leyti hef ég alltaf verið hraustur,“ segir hann.
Ljóst er að þó að Kristófer sé á batavegi mun hann ekki spila með KR fram að áramótum. „Númer eitt tvö og þrjú er að bjarga nýranu og komast aftur á bataveg. Það voru framkvæmd inngrip á spítalanum til að hlífa nýranu og hjálpa því að jafna sig,“ segir hann.
Hann vonast eftir því að verða aftur kominn á fullt í boltanum í janúar en það á eftir að koma betur í ljós. Það eina sem er öruggt núna er að Kristófer er á batavegi.
DV sendir Kristófer Acox innilegar bata- og baráttukveðjur.