Þorbjörn Þórðarson, lögfræðingur og fyrrverandi fréttamaður á Stöð 2, er sagður vera meðal þeirra sem veita Samherja ráðgjöf í kjölfar uppljóstrana um starfsemi fyrirtækisins í Namibíu.
Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Stundarinnar.
Samherji hefur átt mjög undir högg að sækja í kjölfar umfjallana Kveiks og Stundarinnar og gagnabirtingu Wikileaks um meintar mútugreiðslur í Namibíu. Þá segir í fréttinni að Samherji hafi einnig leitað til aðila í Noregi um krísustjórnin vegna umfjöllunar um fyrirtækið þar. Til aðstoðar þar er Håkon Borud, fyrrverandi fréttastjóri Aftenposten, og meðeigandi ráðgjafafyrirtækisins First House.
Þorbjörn vann sem fréttamaður á Stöð 2 um margra ára skeið en hætti þar í sumar og stofnaði LPR lögmannstofu. Áður hafði hann fengið málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Að því er fram kemur í frétt Stundarinnar vildi Þorbjörn ekki tjá sig um störfin fyrir Samherja.