Þetta var meðal þess sem kom fram hjá Karli Steinari Valssyni, yfirlögregluþjóni miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í erindi hans í Háskólanum í Reykjavík í dag en þar var fjallað um stafrænt kynferðisofbeldi gegn börnum á alþjóðlegri ráðstefnu um málefnið. Mbl.is greindi frá þessu.
Karl greinir frá því að stofnun á sérstöku teymi innan deildarinnar sé í vinnslu og langt komin, teymið mun taka formlega til starfa á næsta ári en þrír sérfræðingar verða í teyminu. Lögreglan á Íslandi hefur fengið ráðleggingar frá Interpol, Europol, hollensku lögreglunni og þeirri dönsku varðandi hvernig hagkvæmast er að beita sér í rannsóknum á svona málum.
„Eðli þessara brota er þannig að það hefur ekki verið að okkar mati nægilega vel unnið í því. Þessi brot eru sjaldnast kærð til lögreglu heldur þurfum við að sækja þau og vinna þau svolítið öðruvísi,“ sagði Karl. Teymið krefst aukinnar þekkingar og reynslu og því mun það samanstanda af tölvu- og tæknisérfræðingum auk lögreglumanna en Karl segir að öðruvísi sé ekki hægt að ná árangri í svona málum.