Nú er árið senn á enda og við höldum áfram upprifjun okkar á atburðum þess. Nú er komið að júlímánuði.
Sjá einnig: Annáll janúar / Annáll febrúar / Annáll mars / Annáll apríl / Annáll maí / Annáll júní
Fréttin sem snerti mest við lesendum DV í júlí var um Albert nokkurn Ísleifsson, sem féll fyrir fíkn sinni um miðbik júlí. Ragnar Erling Hermannsson, sem sat í fangelsi í Brasilíu vegna fíkniefnasmygls á árum áður, sagði sögu Alberts í myndböndum á Facebook. Í myndböndunum gagnrýndi Ragnar úrræðaleysi fyrir fólk eins og Albert og nokkrum dögum eftir birtingu myndbandanna hélt Ragnar stofnfund nýs stjórnmálaafls. Helsta markmið aflsins er að breyta kerfinu eins og það leggur sig. „Enn og aftur berast okkur fregnir af ungum manni sem féll frá vegna neyslu sinnar. Enn og aftur. Og eitthvað sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. En það er verið að spara, spara í þessum málaflokki. Það er verið að reisa glæsihallir og glæsihýsi úti um allt og ég veit ekki hvað. En það er verið að loka heilbrigðisstofnunum og það eru biðlistar inn á meðferðarstofnanir,“ sagði Ragnar og bætti við: „Hver verður næstur, verður það sonur þinn? Frændi þinn? Þetta mun bara versna.“
Fjölskylda Arthurs Grants Wagstaff, sem lést í flugslysi á Íslandi árið 2015, steig fram í DV í júlí og sagði frá því að hún ætlaði í mál við Sjóvá vegna dauða Arthurs. Flugmaður vélarinnar þegar slysið átti sér stað, Arngrímur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri flugfélagsins Atlanta, komst lífs af úr slysinu. Fjölskyldan rekur líka mál gegn Arngrími, sem hefur heimtað tryggingu frá ekkju Arthurs, Roslyn Wagstaff. Hvorki hefur gengið né rekið í þessum málaferlum.
Íslensk kona að nafni Auður Ólafsdóttir komst í fréttirnar á vafasaman hátt um mitt sumar. Sökuðu nokkrir Íslendingar hana um að svíkja íslenska ferðalanga á eyjunni Tenerife. Auður rak Facebook-síðuna Tenerife Leigumiðlun þar sem hún bauð húsnæði til leigu. Þeir Íslendingar sem áttu viðskipti við Auði sökuðu hana um að hirða peninginn og svíkja þá um húsnæði eða hýsa þá í allt öðru húsnæði en um var samið. Auður vildi ekki tjá sig við DV um málið en hún á langan sakaferil að baki. Í kjölfar fréttaflutnings hvarf hún af Facebook, og þær Facebook-síður sem tengdust henni hurfu einnig.
DV birti umfangsmikla umfjöllun um dæmda morðingjann Gunnar Rúnar Sigurþórsson, sem varð Hannesi Þór Helgasyni að bana með hrottalegum hætti árið 2010. Upp komst að Gunnar Rúnar væri búinn að skrá sig á stefnumótaforritið Tinder, þrátt fyrir að hafa ekki lokið afplánun. Gunnar Rúnar er vistaður á Vernd og er í vinnu. Margoft hefur sést til hans í heimabæ hans, Hafnarfirði, og sagði Helgi í Góu, faðir Hannesar, að hann vonaði að hann þekkti ekki morðingja sonar síns ef hann sæi hann. Enn fremur gagnrýndi hann refsiramma fyrir svo hrottalegt brot, en Gunnar Rúnar stakk Hannes nítján sinnum með þeim afleiðingum að hann lést. Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um fangelsismál og betrun, kærði umfjöllun DV um Gunnar Rúnar til siðanefndar Blaðamannafélagsins og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ritstjóri DV hefði gerst brotlegur við siðareglur.
Íslendingur fannst látinn á gistiheimili í Kullu-héraði í Hmachal Pradesh í Indlandi í byrjun júlí. Hann fannst látinn á baðherbergi í gistiheimilinu Acharya Villa á Vashisht-svæðinu í borginni Manali en andlát hans bar ekki að með saknæmum hættu.
Hótelstjóri í Neskaupstað réð ungt erlent par sem umsjónarfólk á Cliff hótel í bænum í vor. Í maí tók parið sig til og birti kynlífsmyndband af sér á einni stærstu klámsíðu heims, Pornhub, og fór ekki á milli mála að myndbandið var tekið inni á hótelinu. Þetta rataði í fréttir í júlí en hótelið sem um ræddi var áður Eddu hótel, en heitir í dag Cliff hótel og á veturna er þar heimavist fyrir nemendur Verkmenntaskóla Austurlands. Parið var rekið úr starfi um leið og málið komst upp og er farið af landi brott.
Birgitta Jónsdóttir, einn stofnenda Pírata, ætlaði að vera með endurkomu í flokknum og sóttist eftir sæti í trúnaðarráði. Myndband fór í umferð af átakafundi hjá Pírötum þar sem alþingismaðurinn Helgi Hrafn Gunnarsson hellti sér yfir Birgittu, sakaði hana um að grafa undan fólki og hótanir. Svo fór að Birgitta fékk ekki sæti í trúnaðarráði og yfirgaf átakafundinn grátandi. Helgi Hrafn sagðist standa við orð sín, en Birgitta upplifði fundinn sem mannorðsmorð.
Til stóð að rapparinn Gísli Pálmi skemmti á bæjarhátíðinni Dýrafjarðardögum í sumar, en svo fór ekki. Pétur Albert Sigurðsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar, sagði að rapparinn hefði ekki verið í ástandi til að spila, því hefði honum verið meinaður aðgangur að sviðinu. „Við sendum hann því bara heim aftur að hvíla sig, það var ekkert flóknara en það. Það urðu engin eftirmálar af því eða vesen, hann bara var ekki í standi og gat því ekki spilað þarna.“ Gísli Pálmi átti eftir að komast aftur í fréttirnar á þessu ári, meira um það í októberannálnum.