fbpx
Laugardagur 28.desember 2024
Fréttir

Annáll – Mars – Fall WOW air og handalögmál í Alþingishúsinu: „Sýndu smá sómakennd og drullaðu þér burtu“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 29. desember 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tíminn var á þrotum

Ein stærsta frétt ársins leit dagsins ljós í lok mars þegar tilkynnt var um gjaldþrot WOW air. Almenningur kom af fjöllum enda stóðu flestir í þeirri trú að endurskipulagning félagsins gengi vel, þrátt fyrir að þröngt hafi verið í búi félagsins um margra mánaða skeið. Það sem felldi WOW air var 300 milljóna króna skuld við Air Lease Corporation (ALC), stærsta leigusala WOW air sem greiðast átti fyrir miðnætti daginn áður en tilkynnt var um þrotið. Því voru sjö vélar WOW kyrrsettar, með augljósum afleiðingum. Skúli Mogensen, stofnandi og fyrrverandi forstjóri WOW air, var augljóslega miður sín í bréfi sem hann sendi starfsmönnum.

„Þetta er líklega það erfiðasta sem ég hef þurft að gera en raunveruleikinn er sá að tíminn er á þrotum og okkur hefur mistekist að tryggja starfseminni fjármagn.“

Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW.

Skiptar skoðanir voru á Skúla og endalokum WOW air en strax var ljóst að starfsmenn félagsins myndu gera hvað sem væri til að bjarga vinnustað sínum, til dæmis gefa eftir laun. Strax í kjölfar þrotsins ruku flugfargjöld upp í verði hjá Icelandair, sem hefur að einhverju leyti gengið til baka. Í kjölfarið fóru af stað sögusagnir um að nýtt flugfélag væri í bígerð, en það má segja að tvö hugsanleg fyrirtæki hefðu orðið til úr þroti WOW air; Play og Wow Air 2. Hvorugt hefur komist á flug. Við þrotið misstu hundruð vinnuna og hafði fall flugfélagsins mikil áhrif á íslenskt samfélag og ferðamannastrauminn til landsins.

Þó að fall WOW air sé tvímælalaust ein af stærstu fréttum ársins þá vöktu dægurmálafréttir tengdar fallinu mesta lukku meðal lesenda DV. Umfjöllun um konurnar í lífi Skúla Mogensen er ein mest lesna frétt ársins, sem og fréttir um fasteign Skúla að Hrólfsskálavör, sem seinna á árinu fór í einkasölu, og heimili Skúla og kærustu hans, innanhússhönnuðarins Grímu Bjargar Thorarensen, en þau tilkynntu á dögunum að þau ættu von á barni.

Flúðu hjálpartækjaverslun

Gerður Arinbjarnardóttir komst í pressuna í byrjun mars þegar Stundin sagði af því fréttir að fjöldi starfsmanna hefði sagt upp störfum í kynlífstækjabúð hennar, Blush, vegna kjaradeilna. Var Gerður einnig sökuð um að áreita starfsfólk. Gerður vísaði öllum ásökunum á bug.

Gerður Arinbjarnardóttir.

„Drullaðu þér burtu“

Hiti færðist í leikana á göngum Alþingishússins þegar Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Þorsteinn Már Baldvinsson, þá forstjóri Samherja, mættust. Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins, veittist að Má eftir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en þar var farið yfir framgöngu Seðlabankans gagnvart Samherja. Gjaldeyriseftirlit Seðlabankans framkvæmdi húsleit í húsnæði Samherja vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum en fyrirtækið var aldrei ákært og Seðlabankinn hefur verið sakaður um að hafa farið offari í málinu. „Sýndu smá sómakennd og drullaðu þér burtu,“ sagði Baldvin er Már ætlaði að gefa sig á tal við Þorstein.

Baldvin stjakar við Má Guðmundssyni.

Tímabundinn ráðherra

Önnur tíðindi af Alþingi í mars voru þau að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók við dómsmálaráðuneytinu eftir að Sigríður Andersen sagði af sér vegna landsréttarmálsins. Þórdís sinnti embættinu þar til fyrir stuttu þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tók við því.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Mynd: DV/Hanna

Þrot í skugga niðurgangs

Úr hörðum veitingastaðabransanum komu þær óvæntu fréttir að Skelfiskmarkaðnum hefði verið lokað í skugga matareitrunar sem kom upp á staðnum í nóvember 2018. „Þetta er mjög erfið ákvörðun en blákaldur veruleikinn er sá að þetta ömurlega atvik sem kom upp í nóvember hafði það mikil áhrif að þetta er bara því miður staðan. Salan minnkaði um meira en helming eftir þetta og það setur strik í reikninginn,“ sagði Hrefna Rósa Sætran, einn af eigendum veitingastaðarins, í tilkynningu um lokun staðarins.

Hrefna Rósa Sætran.

Þórarinn með sprengju

Þórarinn Ævarsson, þá framkvæmdastjóri IKEA, snerti marga illa er hann hélt erindi á morgunverðarfundi ASÍ um verðlag á Íslandi um miðjan mars. Þórarinn skaut þar föstum skotum á íslenska veitingastaði sem hann telur að séu á miklum villigötum. Hvatti hann veitingamenn til dæmis til að lækka verð og bera virðingu fyrir landsmönnum. „Ég held að menn séu fastir í vítahring þar sem allir eru að tapa, bæði viðskiptavinir og veitingamenn og ef menn ætla að ná vopnum sínum aftur, og þeir hafa sannanlega tapað þeim, þá verða þeir að endurhugsa málin,“ sagði Þórarinn til dæmis. Almenningur fagnaði erindi Þórarins á meðan aðrir í veitingabransanum litu það hornauga.

Þórarinn Ævarsson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Steingrímur rifjar upp örlagaríka för á hamfarasvæði – „Og ekkert varð aftur eins“

Steingrímur rifjar upp örlagaríka för á hamfarasvæði – „Og ekkert varð aftur eins“
Fréttir
Í gær

Þyrla kölluð til vegna áreksturs í Öræfum – Tveir með áverka

Þyrla kölluð til vegna áreksturs í Öræfum – Tveir með áverka
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi – Brotið þótti ekki nógu alvarlegt

Sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi – Brotið þótti ekki nógu alvarlegt