Blessuð sé minning þeirra sem féllu frá árið 2019.
Birgir Ísleifur Gunnarsson
19.07.1936–28.10.2019
Birgir varð stúdent frá MR árið 1955 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1962. Birgir lét snemma að sér kveða í stjórnmálum og á sínum yngri árum var hann formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands, formaður Heimdallar og formaður SUS. Hann átti sæti í borgarstjórn frá 1962 til 1982 og var borgarstjóri frá 1972 til 1978. Þá var hann alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokk frá 1979 til 1991 og var menntamálaráðherra árin 1987 til 1988 í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. Birgir Ísleifur var skipaður seðlabankastjóri árið 1991 og formaður bankastjórnar 1994 og gegndi hann því starfi þar til hann fór á eftirlaun árið 2005.
Helgi Seljan
15.01.1934–10.12.2019
Helgi lét mikið af sér kveða í íslensku þjóðlífi og sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið. Hann sat í bankaráði Búnaðarbanka Íslands og stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins 1973–1986. Hann var formaður Landssambandsins gegn áfengisbölinu 1988–1994, í áfengisvarnarráði 1987–1995 og í tryggingaráði 1989–1991. Eftirlifandi kona Helga er Jóhanna Þóroddsdóttir. Börn þeirra eru Helga Björk, Þóroddur, Jóhann Sæberg, Magnús Hilmar og Anna Árdís. Alls eru afkomendurnir 34. Fjölmiðlamaðurinn og nafni, Helgi Seljan, er barnabarn hans.
Elías Hergeirsson
19.01.1938–7.10.2019
Elís var knattspyrnumaður í KR og Val og varð nokkrum sinnum Íslandsmeistari og Reykjavíkurmeistari í yngri flokkum. Hann lék einnig 100 leiki með meistaraflokki á árunum 1956 til 1962 og varð Íslandsmeistari árið 1956. Elías kvæntist Valgerði Önnu Jónasdóttur og eignuðust þau fjögur börn saman; Hergeir, Margréti, Ragnheiði og Jónas.
Ásgeir Magnús Sæmundsson (Geiri Sæm)
29.11.1964–15.12.2019
Ásgeir stundaði tónlistarnám og byrjaði ungur að semja tónlist. Eftir hann liggja fjórar hljómplötur sem hann gaf út ásamt félögum sínum í Pax Vobis og Hunangstunglinu sem og fjöldinn allur af óútgefnu efni. Geiri söng, lék á gítar og hljómborð og samdi fjölda laga og texta. Þekktust eru lögin Sterinn, Er ást í tunglinu, Rauður bíll og Froðan sem hefur tvisvar komið út. Eftirlifandi eiginkona Ásgeirs er Anna Sigrún Auðunsdóttir og dætur þeirra eru Sonja og Ásgerður.
Þorvaldur Þórarinsson
12.11.1969–26.03.2019
Þorvaldur var einn af frumkvöðlunum hér á landi í frisbígolfi og varð sex sinnum Íslandsmeistari í þeirri íþrótt.
Björgvin Guðmundsson
13.09.1932–09.04.2019
Björgvin starfaði lengi sem blaðamaður en síðar tók hann þátt í stjórnmálum. Hann var borgarfulltrúi og borgarráðsmaður fyrir Alþýðuflokkinn í tólf ár. Á seinni árum ritaði hann fjölda þjóðmálagreina sem birtust í fjölmiðlum. Hin síðari ár beitti hann sér í ríkum mæli fyrir bættum kjörum aldraðra.
Hörður Sigurgestsson
02.06.1938–22.04.2019
Hörður var ráðinn forstjóri Eimskipafélags Íslands árið 1979. Hann lét af starfi forstjóra árið 2000. Hann sat í stjórn Flugleiða 1984–2004. Hörður var virkur í Sjálfstæðisflokknum og sat meðal annars í stjórn SUS og fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Eftirlifandi eiginkona Harðar er Áslaug Ottesen bókasafnsfræðingur, fædd 1940. Börn þeirra eru Inga, fædd árið 1970, og Jóhann Pétur, fæddur árið 1975. Hann átti fimm barnabörn.
Óskar Ellert Karlsson (Skari skakki)
28.07.1954–12.07.2019
Óskar gekk undir viðurnefninu Skari skakki og undi því vel. Hann taldist til utangarðsmanna en var þekktur að einstöku ljúflyndi, kurteisi og fágun í framkomu. Óskar þótti með skemmtilegri mönnum og var vinsæll af samborgurum sínum. Á unga aldri blómstraði hann við ýmis störf, meðal annars sem fyrsti launaði hljómsveitarótarinn hér á landi.
Magnús Ingi Magnússon
19.05.1960–28.11.2019
Magnús var lengi kenndur við veitingastaðinn Texasborgara, sem var opnaður árið 2012 og lokað fimm árum síðar. Á seinni árum rak hann tvo aðra veitingastaði, Sjávarbarinn og Matarbarinn. Magnús var einnig þekktur fyrir lauflétta og fyndna sjónvarpsþætti sína um ferðalög og matreiðslu. Hann var lengi með sjónvarpsþátt á ÍNN, Eldhús meistaranna, og fór hann þar oft á kostum. Matreiðslumeistarinn vakti mikla athygli árið 2016 er hann bauð sig fram til embættis forseta Íslands. Eftirlifandi eiginkona Magnúsar er Analisa Monticello.
Bjarki Már Sigvaldason
12.04.1987–27.06.2019
Bjarki lést á líknardeild Landspítalans eftir 7 ára baráttu við krabbamein. Hann lét eftir sig eiginkonu, Ástrósu Rut Sigurðardóttur, og unga dóttur, Emmu Rut. Bjarki spilaði knattspyrnu með meistaraflokki HK og voru þau Ástrós ávallt opin með sjúkdóminn. Ástrós tilkynnti andlát síns heittelskaða á samfélagsmiðlum og skrifaði meðal annars: „Þú ert besti maður sem ég hef kynnst, svo klár, góðhjartaður og með fallega og skýra hugsun. Þessi dásamlegu fótboltalæri munu ávallt lifa með mér, þú varst einfaldlega toppurinn á tilverunni í mínu lífi! Að sjá þig dúllast með Emmu var einstök gjöf, þú ert svo yndislegur pabbi. Ég elska þig meira en allt ástin mín, að eilífu.“
Snorri Ingimarsson
22.02.1948–14.08.2019
Snorri var forstjóri Krabbameinsfélagsins. Hann nam læknisfræði í Kaupmannahöfn og krabbameinslækningar voru sérgrein hans. Snorri var einn af stofnendum Styrks, samtaka krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra.
Haraldur Reynisson (Halli Reynis)
01.12.1966–15.09.2019
Halli Reynis starfaði lengi sem tónlistarmaður, hann gaf út sína fyrstu plötu árið 1993 og gaf alls út 8 sólóplötur á ferli sínum. Hann var menntaður grunnskólakennari og hafði starfað sem tónlistarkennari í Ölduselsskóla undanfarin ár.
Atli Eðvaldsson
03.03.1957–02.09.2019
Atli féll frá eftir hetjulega baráttu við krabbamein, en hann hafði tjáð sig ítarlega um baráttuna við meinið. „Ég sagði við krabbameinið, við erum hérna tvö. Ef þú ætlar að vinna deyjum við bæði. Við þurfum að reyna að komast að samkomulagi um að finna milliveg, þannig að við höldum okkur báðum á lífi. Það sem líkaminn getur búið til getur líkaminn líka tekið til baka,“ sagði hann í viðtali við Bylgjuna í apríl, en Atli fór óhefðbundnar leiðir í leit að lækningu. Atli lék meðal annars með Borussia Dortmund, Fortuna Düsseldorf og fleiri liðum. Atli var landsliðsþjálfari frá 1999 til 2003 en hann þjálfaði fjölda liða.
Ingveldur Geirsdóttir
19.11.1977–26.04.2019
Ingveldur hóf störf hjá Morgunblaðinu árið 2005 og var blaðamaður fyrir Daglegt líf og menningardeild blaðsins áður en hún hóf störf á fréttadeild. Ingveldur fór yfir til Stöðvar 2 áramótin 2013 en flutti sig aftur á Morgunblaðið undir lok þess árs. Ingveldur sat í stjórn Blaðamannafélags Íslands, fyrst í varastjórn árin 2014–2015 og síðan í aðalstjórn árin 2015–2019. Eftir að Ingveldur greindist með krabbamein árið 2014 starfaði hún um tíma með samtökunum Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur.
Fanney Eiríksdóttir
10.03.1987–07.07.2019
Fanney lést á líknardeild Landspítalans eftir harða baráttu við leghálskrabbamein. Hún og eftirlifandi eiginmaður hennar, Ragnar Snær Njálsson, töluðu opinskátt um sjúkdóminn. Fanney greindist með krabbameinið þegar hún var hálfnuð með meðgöngu annars barns þeirra, Eriks Fjólars. Erik var tekinn með keisaraskurði eftir 29 vikna meðgöngu og þurfti Fanney að undirgangast fjölmargar geisla- og lyfjameðferðir.
Birna Sif Bjarnadóttir
02.09.1981–27.06.2019
Birna Sif var skólastjóri Ölduselsskóla og varð bráðkvödd að heimili sínu, 37 ára að aldri. Hún lét eftir sig eiginmann og þrjár dætur. Birna starfaði í áratug sem kennari við Ölduselsskóla. Síðan tók hún við sem deildarstjóri einn vetur í Flataskóla í Garðabæ, var aðstoðarskólastjóri einn vetur í Breiðholtsskóla og loks sneri hún aftur í Ölduselsskóla á síðasta ári sem skólastjóri.
Sigrún Pálína Ingvarsdóttir
08.11.1955–02.04.2019
Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, eða Pála eins og hún var alltaf kölluð, var þroskaþjálfi og brautryðjandi í baráttunni gegn kynferðisofbeldi á Íslandi. Hún lést á sjúkrahúsi í Danmörku eftir erfið veikindi. Pála lauk námi frá Þroskaþjálfaskóla Íslands árið 1977 og starfaði við sitt fag fram til 1996 er hún flutti búferlum til Danmerkur þar sem hún starfaði lengst af sem þroska- og markþjálfi og meðferðarráðgjafi. Sigrún Pálína varð á vörum þjóðarinnar er hún steig fram og sakaði Ólaf Skúlason biskup Íslands um kynferðisofbeldi.
Ingibjörg Þorbergs
25.10.1927–06.05.2019
Ingibjörg var ástsæl útvarpskona, lagahöfundur og söngkona. Ingibjörg varð fyrst íslenskra kvenna til að syngja eigið lag inn á hljómplötu og hún samdi mörg vinsæl lög og söng fjölda laga inn á hljómplötur. Meðal laga eftir Ingibjörgu eru hinar þekktu Aravísur. Ingibjörg starfaði á Ríkisútvarpinu frá árinu 1952 og stýrði meðal annars hinum vinsæla þætti Óskalög sjúklinga.
Ragnar S. Halldórsson
01.09.1929–07.08.2019
Ragnar lauk M.Sc.-prófi í byggingaverkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn árið 1956. Það sama ár hóf hann störf hjá Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli og var yfirverkfræðingur og síðar framkvæmdastjóri verkfræðideildar sjóhersins. Árið 1966 flutti Ragnar af landi brott og hóf störf hjá Swiss Aluminium í Sviss og Austurríki. Í framhaldi af því, árið 1969, tók hann við starfi forstjóra álvers ÍSAL í Straumsvík. Starfinu gegndi Ragnar til ársins 1988 og eftir það gegndi hann stöðu formanns stjórnar ÍSAL um skeið.
Salvatore Torrini
09.06.1946–18.11.2019
Salvatore, faðir söngkonunnar Emilíönu Torrini, var frá Napólí í Ítalíu. Hann kom til landsins fyrir tæplega 50 árum. Salvatore rak vinsæla veitingastaðinn Ítalíu í Reykjavík.
Birgir Sigurðsson
28.08.1937–09.08.2019
Birgir var afkastamikið skáld og eftir hann liggur fjöldi verka. Þekktasta leikverk Birgis er án vafa Dagur vonar sem frumsýnt var árið 1987. Hans fyrsta verk, Pétur og Rúna, vakti einnig mikla athygli og vann 1. verðlaun í samkeppni Leikfélags Reykjavíkur árið 1982. Birgir var gerður að heiðursfélaga Rithöfundasambands Íslands í maí 2019. Eftirlifandi eiginkona Birgis er Elsa Vestmann Stefánsdóttir. Hann átti fjögur stjúpbörn og þrjú börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, Jóhönnu Steinþórsdóttur.
Jón Helgason
04.10.1931–02.04.2019
Jón var alþingismaður Suðurlands á árunum 1974 til 1995 fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var landbúnaðar-, dóms- og kirkjumálaráðherra 1983–1987 og landbúnaðarráðherra 1987–1988. Eiginkona hans var Guðrún Þorkelsdóttir og börn þeirra Björn Sævar Einarsson, fóstursonur, Helga og Bjarni Þorkell.
Atli Heimir Sveinsson
21.09.1938–21.04.2019
Atli Heimir var einn af upphafsmönnum nútímatónlistar á Íslandi og var afar fjölhæft tónskáld. Hann samdi framúrstefnulega og krefjandi tónlist en líka aðgengilegri tónlist. Hann samdi mörg verk fyrir kóra og mikið af leikhústónlist við vinsælar uppfærslur. Hann fékk ýmis verðlaun á ferlinum og hélt fyrirlestra víða um heim. Atli var kjörinn meðlimur í Konunglegu sænsku tónlistarakademíunni árið 1993 og var staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2004–2007.
Margeir Dire Sigurðarson
12.04.1985–30.03.2019
Margeir lést í Berlín þar sem hann var búsettur. Óhætt er að segja að Margeir hafi verið meðal efnilegustu listamanna Íslands. Hann stundaði nám á myndlistarbraut við Verkmenntaskólann á Akureyri, Myndlistarskólanum á Akureyri, Lahti Institude of Fine arts og Art direction í IED Barcelona. Hann var þekktur fyrir myndsköpun í mismunandi miðla svo sem vegglistaverk, strigamálverk, teikningar, vídeó, tónlist, hönnun og listræna stjórnun. Margeir hélt fjölda einkasýninga bæði hér á landi og erlendis.
Gabríel Jaelon Skarpaas Culver
17.07.1998–09.11.2019
Gabríel varð nokkuð þekktur sem fyrirsæta en framtíðaráform hans fólust í rafvirkjun. Hann var vinmargur og vinsæll meðal unga fólksins í hinum ýmsu listgreinum á Íslandi.
Herdís Tryggvadóttir
29.01.1928–15.08.2019
Herdís átti þátt í stofnun safnaðar Grænáss á Keflavíkurflugvelli og var þar sóknarnefndarformaður. Herdís studdi heilsugæsluverkefni á vegum Kristniboðssambandsins í Afríku, beitti sér innan samtakanna Herferð gegn hungri og átti þátt í stofnun samtaka gegn limlestingu á kynfærum kvenna. Herdís var stofnaðili að friðarsveitum Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og tók þátt í starfi bænahóps fyrir sjúka í Hallgrímskirkju um langt árabil. Herdís tók virkan þátt í náttúruverndarbaráttu.
Dagfinnur Stefánsson
22.11.1925–16.06.2019
Dagfinnur var frumkvöðull í íslenskri flugsögu og flaug vel yfir 30.000 flugtíma á ævi sinni. Hann starfaði sem flugstjóri fyrir meðal annars Loftleiðir, síðar Flugleiðir og Air Bahama og Cargolux, dótturfélag Loftleiða, en Dagfinnur var flugstjóri í fyrstu ferð þess félags. Dagfinnur flaug víða um heim og sinnti sjálfboðastarfi. Dagfinnur sat til dæmis í stjórnum Loftleiða, Flugleiða og Lífeyrissjóðs flugmanna. Dagfinnur var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní 2014 fyrir brautryðjandastörf á vettvangi flug- og samgöngumála.
Atli Magnússon
26.07.1944–14.06.2019
Atli var mikilvirtur þýðandi. Hann þýddi margar bækur sem teljast til heimsbókmennta, svo sem bækur eftir Scott Fitzgerald, Josep Conrad, Thomas Hardy, Truman Capote og Johannes V. Jensen. Atli starfaði lengi við blaðamennsku, fyrst sem prófarkalesari á Þjóðviljanum, síðan á Alþýðublaðinu og Tímanum þar sem hann starfaði sem blaðamaður. Eftir að Tíminn var lagður niður starfaði hann alfarið við þýðingar.
Kristín Sveinbjörnsdóttir
13.10.1933–09.06.2019
Á árunum 1963–1982 vann Kristín við þáttagerð hjá Ríkisútvarpinu og hafði þá meðal annars umsjón með þættinum Óskalögum sjúklinga í 15 ár. Sá þáttur var lengi við lýði hjá Ríkisútvarpinu og var einn sá vinsælasti. Kristín varð fyrsta konan til að sitja í stjórn Golfsambands Íslands og gerði það á árunum 1982–1985.
Þóra Friðriksdóttir
26.04.1933–12.05.2019
Þóra var ein ástsælasta leikkona landsins. Hún lærði leiklist í London School of Speech and Drama og lærði einnig í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins, þaðan sem hún útskrifaðist 1955. Hún starfaði við Þjóðleikhúsið í um hálfa öld og lék yfir 80 hlutverk. Ásamt því að leika í leikhúsinu lék Þóra í ýmsum kvikmyndum, þar á meðal Atómstöðinni og Foxtrot. Eftirminnilegasta hlutverk hennar hlýtur þó að vera mamman í Sódóma Reykjavík.
Jensína Andrésdóttir
10.11.1909–18.04.2019
Jensína var elst allra þeirra sem hafa átt heima hér á landi. Hún var í fimmta eða sjötta sæti yfir elstu íbúa á Norðurlöndum. Nú er því Dóra Ólafsdóttir, búsett í Kópavogi, elsti núlifandi Íslendingurinn en hún varð 107 ára í júlí.
Karólína Lárusdóttir
12.03.1944–07.02.2019
Karólína nam myndlist í Englandi, í Sir John Cass College á árunum 1964 til 1965. Að því loknu stundaði hún nám við Ruskin School of Fine Art í Oxford. Þaðan útskrifaðist hún árið 1967. Karólína bjó og starfaði í Bretlandi um árabil og var myndlist hennar mótuð af meginstraumum breskrar myndlistarhefðar, en myndheimur hennar var íslenskur. Myndefni sitt sótti hún ekki síst í æskuminningar sínar, meðal annars af mannlífinu á Hótel Borg á árum áður og sömuleiðis af farþegum og starfsfólki um borð í MS Gullfossi. Karólína hélt fjölda einkasýninga um heim allan; í Bretlandi, Danmörku, Frakklandi og Suður-Afríku.
Tryggvi Ólafsson
01.06.1940–03.01.2019
Tryggvi var einn af þekktustu listamönnum þjóðarinnar og vann lengst af að list sinni í Danmörku þar sem hann bjó í rúm fjörutíu ár. Hann sýndi víða um heim en þurfti að hætta að mála eftir að hann lenti í alvarlegu slysi árið 2007. Tryggvi var riddari af Dannebrog, handhafi fálkaorðunnar og hlaut verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2018.