Jósef Smári Brynhildarson hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir kynferðisbrot gegn manni sem er rúmlega tvítugur en var 19 ára þegar brotið átti sér stað. Brotið átti sér stað þann 5. desember 2017 á heimili Jósefs, en málið var dómtekið 21. október síðastliðinn og dómur féll 16. desember.
Þolandi og Jósef voru vinir og eyddi sá fyrrnefndi nóttinni hjá Jósef. Þolandi var undir áhrifum áfengis en ekki mikið drukkinn, var hann nýfallinn eftir bindindi.
Jósef káfaði á þolanda innanklæða, á rassi hans, setti fingur að endaþarmsopi og átti við buxnaklauf hans. Þolandinn vaknaði við þessar aðfarir og yfirgaf íbúðina.
Fyrir rétti neitaði Jósef brotinu og sagði að allt sem gerst hefði milli þeirra tveggja hefði verið með vitund og vilja beggja. Framburður þolandans var hins vegar trúverðugur og auk þess studdi framburður vitna mál hans, en þar var um að ræða aðila sem hann sagði frá brotinu skömmu eftir að það var framið.
Ennfremur vógu textaskilaboð sem Jósef sendi þolandanum þungt í sönnunarfærslunni. Meðal þeirra eru eftirfarandi:
„Skal lofa að reyna ekki mikið við þig“
„Fyrirgefðu, xxxxx minn. Gekk of langt. Átti ekki að fara svona. Hvar ertu?“
„Ertu hér? Fyrirgefðu. Átti ekki að fara svona.“
Jósef gat ekki gefið skýringar á skilaboðunum né skýrt frá í hvaða samhengi þau voru gefin en tímasetning þeirra passar við tíma brotsins.
Jósef Smári vakti mikla athygli árið 2015 er hann steig fram og sakaði föður sinn um kynferðisbrot. Greindi Stundin ítarlega frá máli hans. Í dómnum kemur fram að Jósef segist hafa verið beittur kynferðisofbeldi í æsku og liðið mjög fyrir það.
Jósef hefur á undanförnum árum verið mjög virkur í AA-samtökunum, sem eru 12 spora samtök fyrir óvirka alkóhólista, og stofnað þar eigin deild. Þolandi Jósefs í þessu máli hefur rætt stuttlega við DV og lýst yfir áhyggjum sínum af því að Jósef sé í miklu og nánu sambandi við unga alkóhólista sem eru að stíga sín fyrstu skref á braut edrúmennsku, og eru á mjög viðkvæmum stað í lífi sínu. Í ljósi sinnar reynslu óttast hann misnotkun Jósefs gagnvart þessum ungu mönnum.
Jósef Smári Brynhildarson var fundinn sekur um kynferðisbrot gegn unga manninum og dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann var einnig dæmdur til að greiða þolanda sínum 500.000 krónur í miskabætur og þóknun til verjanda og annan málskostnað upp á um 1.300.000 krónur. Til viðbótar við þetta þarf Jósef að greiða skipuðum réttargæslumönnum þolandans samtals 700.000 krónur.