Rúmlega fimmtugur faðir stóð með mótmælaspjald fyrir utan Bæjarskrifstofur Seltjarnarness síðdegis í dag en mótmæli mannsins beinast gegn Fjölskyldunefnd Seltjarnarness.
Dóttir mannsins, sem er 14 ára gömul, er vistuð utan heimilis í sátt við móður hennar en móðirin fer með forræði stúlkunnar. Nánar tiltekið er dóttirin vistuð á fósturheimili á landsbyggðinni. Maðurinn mótmælir mjög takmarkaðri umgengni sinni við dótturina og seinagangi Fjölskyldunefndar Seltjarnarness við að úrskurða honum umgengni.
Faðirinn hefur kært vinnubrögð Fjölskyldunefndar Seltjarnarness til Úrskurðarnefndar velferðarmála. Úrskurðarnefndin tekur undir með föðurnum í úrskurði sínum og segir hún að afgreiðsla nefndarinnar í máli hans sé ekki í samræmi við gildandi málshraðareglu stjórnsýslulaga. Hvetur úrskurðarnefndin fjölskyldunefndina til að hraða afgreiðslu máls föðurins um umgengni við dóttur hans eins og frekast er hægt.
Úrskurðurinn var kveðinn upp þann 19. nóvember síðastliðinn en þrátt fyrir það hefur ekkert gerst í máli mannsins. Segir hann að formaður fjölskyldunefndarinnar svari ekki tölvupóstum frá honum.
Maðurinn tók því til þess bragðs að standa með mótmælaspjald fyrir utan bæjarskrifstofurnar á Seltjarnarnesi auk þess að hafa samband við DV og greina frá máli sínu og senda DV afrit af úrskurði Úrskurðarnefndar velferðarmála.
Lögregla kom á vettvang eftir nokkra stund og bað manninn um að hafa sig brott og varð hann við tilmælum lögreglu. Virðist líklegt að starfsmenn á bæjarskrifstofum Seltjarnarness hafa hringt á lögreglu.