fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Eggjastormur í vatnsglasi

Svarthöfði
Laugardaginn 14. desember 2019 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði elskar nútímatæki. Samfélags- og fréttamiðlar tryggja að upplýsingarnar eru alltaf í rassvasa okkar sem eigum snjallsíma og því þarf enginn að missa af neinu. Ágæti tækninnar sannaði sig ágætlega í vikunni sem leið þar sem skapaðist múgæsingur út af slæmri veðurspá. Svarthöfði elskar múgæsing en hatar múgsefjun. Vikan sem leið olli sko ekki vonbrigðum.

Mikið illviðri gekk yfir landið á þriðjudag og aðeins fram á miðvikudaginn. Ekki var fréttaflutningur af yfirvofandi stormi til þess fallinn að róa taugaþaninn landann. Fyrirtæki lokuðu dyrum sínum langt fyrir auglýstan lokunartíma. Skólar þrábáðu foreldra að sækja börn í skólann laust eftir hádegi og koma þeim í öruggt skjól áður en ósköpin dyndu yfir. Landsbyggðin fór verst út úr illviðrinu og er talið að stormurinn hafi valdið milljarða tjóni. Hins vegar kættist Svarthöfði mikið þegar hann sá sveitta höfuðborgarbúa flykkjast í matvöruverslanir upp úr hádegi þar sem þeir birgðu sig upp af matvöru líkt og heimsendir væri í nánd. Götur borgarinnar voru mannlausar um þrjú leytið og margur maður stóð, vafinn inn í öryggisteppi, við glugga heimilis síns og beið þess sem verða yrði. Svo kom þessi líka væga gjóla. Svarthöfði stóð úti á svölum hjá sér og virti fyrir sér tómar göturnar og ekki laust við að það hlakkaði í honum. Ef þetta var ekki bókstaflega stormur í vatnsglasi þá er Svarthöfði líklega ekki að skilja það orðatiltæki rétt. Og já já já, það var svaka vont veður úti á landi og á hálendinu og það fuku þök og kindur hlutu kalda og vota greftrun í snjó. En enginn getur sagt Svarthöfða að hann hefði ekki verið öruggur hefði hann hætt sér í Krónuferð um sjö leytið á þriðjudaginn. Hann hefði varla þurft að skafa bílinn.

Annað dæmi í vikunni um gleðigjafann nútímatæknina var þegar einhver áhrifavaldafrekja snöggreiddist eftir að hafa lesið helgarblað DV. Líklega fyrsti Íslendingurinn sem hefur haft einverra harma að hefna á DV. Hann ákvað að beita tækninni til að hefna sín. Á örskömmum tíma höfðu gamlir og nýir nágrannar ritstjóra DV fengið að finna fyrir reiði samfélagsmiðla eftir að æstur múgur fylgjenda áhrifavaldsins marseraði í hefndarhug þangað sem þeir töldu ritstjóra DV búa. Lifi byltingin, með eggjum skal manninn aga. Ekki fór þó betur en svo að múgurinn fór í tvígang húsavillt, enda hvarflaði svo sem ekki að neinum þeirra að fleiri gætu átt sama heimilisfang og ritstjórinn.

Svarthöfði ætlar sér að fylgja þessari taktík eftir. Hann er ósáttur við nýjustu stjörnustríðsmyndirnar og ætlar því að kasta Kindereggjum í Smárabíó. Síðan ætlar hann að gera einhvern usla og reita áhrifavalda til reiði. Svarthöfði hefur nefnilega lengi eldað grátt silfur við nágranna sína og veitir þeim ekki af smá eggjakasti, svona til að kenna þeim lexíu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“