Í tilkynningu sem barst rétt í þessu á fjölmiðla frá Eflingu stéttarfélagi kemur fram að dómsskjöl, í máli fjögurra fyrrverandi starfsmanna starfsmannaleigunnar Menn í vinnu gegn Mönnum í vinnu og fyrirtækinu Eldum rétt, sýni fram á að starfsmennirnir umræddu hafi unnið í upp undir mánuð fyrir Eldum rétt. Stangast þetta á við fullyrðingar framkvæmdastjóra Eldum rétt sem sagði umrædda starfsmenn aðeins hafa unnið í nokkra daga.
„Dómsskjöl sem fram hafa komið vegna stefnu rúmenskra verkamanna gegn fyrirtækinu Eldum rétt sýna að framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Kristófer Júlíus Leifsson, fór ítrekað með ósannindi í fjölmiðlum fyrr á þessu ári um viðskipti fyrirtækisins við alræmda starfsmannaleigu. Hann sagði Eldum rétt aðeins hafa leigt fjóra menn af starfsmannaleigunni Menn í vinnu í fjóra daga en hið rétta er að Eldum rétt leigði mennina í þrjár til fjórar vikur. Að auki kemur fram að mennirnir voru ekki fjórir heldur sex.“
Menn í vinnu er gjaldþrota og standa skipti á þrotabúinu yfir. Efling er með 48 útistandandi launakröfur á hendur þrotabúinu og hefur þar að auki kært starfsmannaleigunna til Héraðssaksóknara fyrir umfangsmikla brotastarfsemi, þar á meðal mansal og nauðungarvinnu.
Starfsmenn skráðir sem vörur
Samkvæmt reikningum starfsmannaleigunnar til Eldum rétt unnu starfsmennirnir í þrjár til fjórar vikur fyrir Eldum rétt. Nöfn þeirra eru skráð á reikningnum undir liðnum „vöruheiti“. Áður hafði framkvæmdastjóri Eldum rétt, Kristófer Júlíus Leifsson, greint frá því opinberlega að umræddir starfsmenn hefðu aðeins starfað fyrir hann í örfáa daga.
Í málinu sem nú er rekið fyrir Héraðsdóm mun reyna í fyrsta sinn á ákvæði laga um starfsmannaleigur um keðjuábyrgð.
„Eldum rétt nýttu sér bágindi verkafólks frá Austur-Evrópu í gegnum það sem ég tel réttast að kalla einhvers konar mansalshring, rekinn af alræmdum síbrotamönnum í starfsmannaleigubransanum. Framkvæmdastjórinn laug svo að fjölmiðlum í stað þess að fallast á boð um að rétta hlut þeirra,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, í tilkynningu á fjölmiðla og vísar í samningaviðræður Eflingar við Eldum rétt í júní og júlí 2019.
„Eldum rétt er á harðahlaupum undan sannleikanum í þessu máli,“ segir Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar. „Málflutningur Eldum rétt í þessu máli hefur frá byrjun einkennst af undanbrögðum, ólíkt hinum notendafyrirtækjunum sem öll hafa verið fús að gangast við ábyrgð sinni. Viðbrögð þeirra eru til sóma. Það er hins vegar óbragð af Eldum rétt.“