Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvenn ummæli sérfræðings ASÍ, Maríu Lóu Friðjónsdóttur, um starfsmannaleiguna Menn í vinnu ehf. dauð og ómerk.
Menn í vinnu ehf. stefndu Maríu Lóu vegna ummæla sem hún lét falla við fréttastofu stöðvar 2 og DV í febrúar á þessu ári.
Umrædd ummæli voru eftirfarandi:
„Að mínu mati er þetta nauðungarvinna og þrælahald. Þetta er mjög slæm aðstaða og ég er búin að sjá bankareikninga hjá þeim þar sem fyrirtækið leggur inn og tekur jafn harðan út aftur. Mennirnir komast ekki neitt og þeir eru ekki á launum“
„Menn í vinnu legðu inn á þá til dæmis 100.000 en síðan færi 90.000 út aftur. Ég sá þessar færslur og spurði hvernig þetta væri hægt en þá vissu þeir það ekki almennilega, en að Halla Rut sem á fyrirtækið vildi alltaf fá að sjá og vita PIN númer þeirra svo það virðist vera sem Menn í Vinnu ehf. hafi aðgang að heimabönkum mannanna.“
Menn í vinnu ehf. töldu ummælin fela í sér alvarlegar ásakanir um refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi. Nauðungarvinna sé ólögleg og ummæli um úttektir af bankareikningum feli í sér ásökun um þjófnað.
Dómari féllst á mál starfsmannaleigunnar að hluta. Ummæli um nauðungar- og þrælavinnu væru gildisdómur en ekki fullyrðing um staðreyndir eða aðdróttun, því var María sýknuð af þeim hluta kæru. Hins vegar fælist ásökun um refsiverða háttsemi í ummælum um að starfsmannaleigan hefði ekki greitt laun, eða að laun væru tekin jafn harðan út af reikningum starfsmanna. Slíkum ásökunum ætti fyrirtæki ekki að þurfa að sæta án þess að staðreyndir byggju þar að baki.
María Lóa gat ekki fært sönnur á þessi ummæli eða sýnt fram á að hún hefði haft ástæðu til að trúa þeim. María Lóa vísaði í vörnum sínum til þess að ummælin fælu í sér endursögn á því sem starfsmenn leigunnar hefðu sagt henni og auk þess yrði að líta til þess að ummælin voru látin falla í aðdraganda kjaraviðræðna, umræðan hafi ekki verið að hennar frumkvæði og auk þess yrði að meta þau í samhengi við starf hennar fyrir ASÍ og þess hlutverks sem ASÍ sinnir í samfélaginu.
Dómari féllst ekki á þetta .„Getur stefnda ekki skotið sér undan ábyrgð á orðunum sínu með því að breiða út rangar sögur án þess að kanna réttmæti þeirra“
Var Maríu Lóu gert að greiða þrotabúi Manna í vinnu 75 þúsund krónur í bætur en auk þess skal hún greiða 1,3 milljónir í málskostnað.
Í samtali við DV segir lögmaður Manna í vinnu ehf., Jóhannes S. Ólafsson að dómurinn feli í sér viðurkenningu á því ranglæti sem Menn í vinnu hafa orðið fyrir. Dómari hafi verið harðorður í niðurstöðu sinni og dæmdur málskostnaður endurspegli það ranglæti sem starfsmannaleigan hafi verið beitt.