fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Sigrún var atvinnulaus árið 2012 en veltir nú milljónum: „Þarna fann ég minn fjársjóð“

Auður Ösp
Mánudaginn 2. desember 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á aðeins sex árum hefur Sigrún Guðjónsdóttir byggt upp alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki sem veltir 250 milljónum króna á ári og vex 30 til 50 prósent á hverju ári. Viðskiptavinir hennar eru nú yfir 2.000 talsins og hún hefur aðstoðað konur á öllum aldri og frá öllum heimshornum við að byggja fyrirtæki upp frá engu og upp í hundruð milljóna króna í tekjur.

Í stjórn fyrirtækis 33 ára

Sigrún er í dag búsett í Zurich í Sviss ásamt eiginmanni sínum og tveimur stjúpsonum, en hún er upphaflega menntuð sem arkitekt, frá Tækniháskólanum í Karlsruhe í Þýskalandi. Þetta var um miðbik tíunda áratugarins, snemma á dögum internetsins og eftir að Sigrún kynntist netinu þá varð ekki aftur snúið. Hún lauk í kjölfarið námi í upplýsingaarkitektúr við Tækniháskólann í Zurich í Sviss. Í kjölfarið hóf hún störf sem upplýsingaarkitekt og síðar deildarstjóri hjá Landmat, sem sérhæfði sig í viðskiptalegri hagnýtingu landupplýsinga. Sigrún hóf nám með vinnu í tölvunarfræði eftir að hafa tekið þátt í FrumkvöðlaAuði þar sem hún lærði að gera viðskiptaáætlanir.

Þaðan lá leiðin í stjórnendastörf hjá upplýsingatæknifyrirtækjum á Íslandi, fyrst hjá veffyrirtækinu Innn þar sem hún sneri á skömmum tíma sjö ára taprekstri yfir í hagnað. Eftir þá reynslu tók hún við stjórn Tæknivals aðeins 33 ára gömul uns það var selt 15 mánuðum síðar. Eftir það tók við frekari uppbygging á Innn, uns fyrirtækið var selt til 365 árið 2007 og síðar sama ár til Kögunar, sem sameinaði það veffyrirtækinu Eskli. Eftir sameiningu Eskils og Innn lá leið Sigrúnar til London til að klára Executive MBA-nám sem hún hafði stundað með vinnu.

Sigrún Guðjónsdóttir

Vildi geta unnið hvar sem er

Sigrún útskrifaðist með EMBA árið 2008 og flutti í kjölfarið til Sviss þar sem hún tók við framkvæmdastjórastöðu hjá svissnesku lækningatæknifyrirtæki. Hún þurfti að hætta í því starfi vegna stoðverkja og var hún óvinnufær í sjö mánuði vegna verkja. Eftir það tók hún við sem framkvæmdastjóri íslenska fyrirtækisins InfoMentor í Sviss. Ári síðar lagði hún til að fyrirtækið réði frekar framkvæmdastjóra í Þýskalandi til að spara kostnað og lét þá af störfum.

„Þarna var ég búin að missa vinnuna tvisvar, á tveimur árum, og var orðin veik,“ segir Sigrún. Hún skráði sig á atvinnuleysisbætur en það var ekki auðvelt fyrir hana að finna hentugt starf með sértæka menntun og mikla reynslu af stjórnunarstörfum. Sigrún segist hafa séð þetta sem skilaboð frá alheiminum: nú væri kominn tími til að stofna eigið fyrirtæki.

„Ég vissi bara ekki hvernig fyrirtæki. Ég var byrjuð að fá áhuga á fyrirtækjarekstri á netinu. Mig langaði að geta unnið hvar sem er í heiminum, hafa tíma til að sinna heilsunni, ferðast og njóta lífsins.“

Á þessum tíma bauðst Sigrúnu að sækja námskeið á vegum Vinnumálastofnunar í Sviss, þar sem þátttakendur lærðu að stofna eigið fyritæki. „Ég lagði fram hugmynd, um að vera með verslun á netinu (online shop). Mig langaði að selja íslenskar vörur. Ég heimsótti fyrirtæki á Íslandi, talaði við hönnuði og reyndi að finna út hvernig þetta virkaði allt saman, en fljótlega runnu á mig tvær grímur. Kostnaðurinn við að senda vörur var mjög hár. Þannig að ég hugsaði með mér að kannski væri þetta ekki það sem ég vildi. Ég var ennþá að leita að hugmynd.“

Á þessum tíma las Sigrún bókina Alkemistinn. Sagan fræga fjallar um pilt sem ferðast heimshorna á milli í leit að fjársjóði. Hann finnur ekki fjársjóðinn en þegar hann kemur heim kemst hann að því að fjársjóðurinn er í bakgarðinum, innra með honum sjálfum.

„Þarna fann ég minn fjársjóð. Mig langaði að verða viðskiptaráðgjafi, það var það sem ég kunni best. Ég byrjaði sem hefðbundinn viðskiptaráðgjafi en uppgötvaði fljótlega að það hentaði ekki mínum lífstíl að veita ráðgjöf til fyrirtækja, heldur vildi ég bjóða upp á „online business coaching“, ráðgjöf til einstaklinga við að byggja upp þekkingarfyrirtæki á netinu. Og einblína á konur. Á þessum tíma var ég mjög virk í Facebook-hópum og ég var alltaf að hjálpa fólki, en ekki til að selja heldur til að byggja upp traust. Ég hafði til dæmis boðið upp á frítt námskeið þar sem ég kenndi fólki hvernig á að finna viðskiptahugmynd. Vegna þess að síðan kemur fólk og finnur þig. Fólk fer að „tagga þig“ og benda öðrum á þig. Fyrstu viðskiptavinirnir mínir komu úr þessum Facebook-hópum. Fólk sem hafði séð mig hjálpa og vildi meiri hjálp. Málið er nefnilega að fólk vill borga. Ef þú ert bara á höttunum eftir einhverju fríu þá gerirðu yfirleitt ekki neitt við upplýsingarnar. Ókeypis upplýsingar eru góðar til að fá innsæi og hugmyndir en yfirleitt gerirðu ekki neitt fyrr en þú ert búinn að borga, fjárfesta í sjálfum þér.“

Sigrún Guðjónsdóttir

Sigrún segir það hafa verið stórt skref að markaðssetja sjálfa sig á þennan hátt. „Þegar þú ferð að vinna fyrir sjálfan þig þá koma upp alls konar furðulegar tilfinningar. Þú ert berskjaldaður að vissu leyti. Það tók mig tvo mánuði, bara að setja inn á síðuna mína: „1 klst viðskiptaráðgjöf: 180 dollarar“.  26. mars 2014 kaupir fyrsta konan tíma hjá mér.“

Sigrún byrjaði því á að bjóða upp á einstaklingsráðgjöf en það var þó alltaf stefnan að bjóða upp á námskeið á netinu. Hún tekur undir að vissulega sé nauðsynlegt að byrja smátt. „Ef þú getur ekki selt einni manneskju, þá geturðu ekki selt tveimur, eða tíu eða tuttugu.“

Sumarið 2014 hóf Sigrún einnig að bjóða fólki upp á svokallaða „webinar“ fyrirlestra í beinni á netinu, við góðar undirtektir. Um haustið sama ár var hún komin með hátt í 2000 manns á tölvupóstlista og árið 2016 var svo komið að hóparnir voru farnir að taka yfir einkstaklingsráðgjöfina. Síðan þá hefur Sigrún eingöngu boðið upp á hópnámskeið til eins árs. „Einfaldlega vegna þess að þú færð ekki hugmynd og stofnar fyrirtæki á fjórum vikum. Eftir að þú færð hugmyndina, þá koma spurningarnar og þú þarft hjálp og aðhald og eftirfylgni.“

Konurnar sem leita til Sigrúnar eru margar hámenntaðar og með mikla starfsreynslu.

„Margar eru í kringum fertugt, en ég segi oft að það sé besti tíminn fyrir konur til að stofna fyrirtæki. Þær eru þá margar komnar með reynslu og eru ekki lengur með lítil börn. Ég er með fjölbreyttan hóp; hundaþjálfara, innanhúshönnuði, arkitekta, stílista, lækna og næringarfræðinga.“

Endalausir möguleikar

„Það geta allir búið til fyrirtæki á netinu,“ segir Sigrún jafnframt og nefnir dæmi. „Segjum sem svo að ljósmyndari myndi koma til mín og langaði að stofna fyrirtæki. Þú getur ekki tekið myndir af fólki í gegnum netið en þú getur hins vegar kennt öðrum að taka eigin myndir, þú getur hjálpað fólki að undirbúa sig fyrir myndatökur, þú getur boðið upp á VIP-dag þar sem fólk kemur og fær förðun og stíliseringu og myndatöku. Möguleikarnir eru endalausir. Það er alltaf til leið, það þarf bara að hugsa út fyrir boxið. En vegna þess að þetta er orðið svo auðvelt, þá þarf fólk að kunna að markaðssetja sig. Það er erfitt að skera sig úr.“

Sigrún segist sjálf hafa lagt upp með að skapa sér sérstöðu. „Ég er frá Íslandi og tala um það. Ég er sömuleiðis með menntun og reynslu sem er frekar sértæk,“ segir Sigrún. „Svo er ég alltaf í rauðu! Það hjálpar, fólk talar um það. Ég er líka þekkt fyrir að vera mjög ákveðin þegar ég veiti ráðgjöf: ég er ekkert að sykurhúða hlutina. Það hefur fallið vel í kramið hjá til dæmis þýskumælandi kúnnum,“ segir hún og brosir.

Sigrún Guðjónsdóttir

Vigdís ruddi brautina

Það er álit Sigrúnar að til að ná jafnrétti þá þurfi konur að búa til eigin peninga. Og vera fyrirmyndir. Hún minnist á Vigdísi Finnbogadóttur; einstæðu móðurina sem braut glerþakið og gerðist þjóðhöfðingi Íslands í upphafi níunda áratugarins.

„Vigdís kenndi konum og stelpum að það er allt hægt. Þú getur orðið forseti, þú þarft ekki einu sinni að vera gift manni! Ég las grein um daginn, reyndar í nokkuð óvenjulegu blaði, Barbie-blaðinu. Þar kom meðal annars fram að þegar stúlkur eru orðnar fimm ára þá trúa þær því ekki lengur að þær geti látið drauma sína rætast. Ég vil sýna öllum að þetta er hægt. Þú þarft ekki að hafa fjárfesta og þú þarft ekki að vera með milljón dollara viðskiptahugmynd. Þú ert nú þegar með reynslu og þekkingu sem þú þarft, þú þarft kannski bara hjálp við að breyta því í fyrirtæki. Ég hef oft sagt við viðskiptavini mína að stundum þarftu að gera eitthvað sem þú ætlar kannski ekki að vera þekktur fyrir, bara til að koma hjólunum af stað.“

Stærsta verkefnið til þessa

Sigrún verður með alþjóðlega ráðstefnu í Hörpu 18. og 19. júní, 2020, og er ráðstefnan sérstaklega fyrir konur sem vilja byggja upp þekkingarfyrirtæki á netinu. Hún segir alla geta byggt upp fyrirtæki á netinu, en konur þurfi að rétta upp höndina: vekja athygli á sér. Sigrún bendir þó á að að auðvitað séu karlmenn velkomnir.

„Þetta er nýjasta verkefnið mitt, og það stærsta til þessa. Þarna verða fyrirlesarar alls staðar að úr heiminum. Og allir mæta í rauðu! Ég er með mjög háan gæðastandard en fyrirlesararnir eru allir „self made“; konur sem hafa byggt upp sín eigin fyrirtæki með sínu eigin fjármagni, en hafa ekki fengið utanaðkomandi fjármagn. Og allar eru þær með að minnsta kosti milljón dollara í árstekjur. Ég er að gera þetta fyrir konurnar þarna úti. Við þurfum að gera þeim kleift að láta drauma sína rætast. Það skilar sér til næstu kynslóðar. Ef konur í dag láta drauma sína rætast, þá munu stelpurnar seinna láta drauma sína rætast.“

Sigrún rifjar upp að árið 2008 fór hún á fyrirlestur hjá Tony Robbins á London. Þar voru viðmælendur látnir gera verkefni þar sem þeir skrifuðu niður framtíðarsýn sína, hvar þeir sáu fyrir sér að vera tíu árum síðar. „Ég týndi síðan skjalinu, en fann það, tíu árum seinna. Þar stóð meðal annars: „Ég á mitt eigið fyrirtæki, ég er með milljón dollara í árstekjur, ég er búin að ná jafnrétti, ég er búin að hlaupa maraþon. Ég var búin að ná öllum markmiðunum, nema að hlaupa maraþon, og ná jafnrétti. Það er næst á dagskrá.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Í gær

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt