Morgunblaðið ræðst í leiðara sínum í dag gegn þeim sem létu þung orð falla í gær vegna brottvísunar þungaðrar albanskrar konu frá landinu og fléttar málið inn í umræður um þungunarrof. Morgunblaðið kallar þá hræsnara sem studdu frumvarp til laga um þungunarrof í vor en mótmæltu meðferðinni á albönsku fjölskyldunni. Deilt var um í gær hvort óhætt hafi verið að senda konuna, sem komin var á 36. viku meðgöngu, í langt flug. Morgunblaðið rifjar upp framgöngu Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, í umræðunum um þungunarrof:
„Logi Einarsson formaður Samfylkingar virtist vera með enn bögglaðri samvisku á þessari vegferð svo hann vildi ekki kannast við að þarna væri yfirleitt verið að fjalla um barn í móðurkviði, sem er hugtakið sem gilt hefur í allri slíkri umræðu um þúsundir alda.
Hann taldi að með þungunarrofinu væri hvorki verið að eyða fóstri (þótt lög hafi orðað það svo þar til í ár) og því síður barni. Þetta sem var tekið eða eytt var „frumuklasi“.“
Mogginn segir að nú sé annað hljóð komið í strokkinn hjá formanni Samfylkingarinnar:
„En þegar sami formaður þarf að glenna sig opinberlega í hlutverki góðmennis vegna brottvísunar fólks frá Albaníu horfir málið allt öðruvísi við. Þá gengur konan sem á í hlut ekki með frumuklasa eins og Samfylking kallar barn í móðurkviði, þegar rætt er um víðtækari heimildir til að eyða því. Þá er það hagur barns sem er í hættu.“
Mogginn gagnrýnir líka Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar, sem hafði sig í frammi vegna máls albönsku konunnar í gær, og síðan segir:
„Kannski væri ráð fyrir þá sem með þessu tali fylgjast núna að slá því upp hvernig þetta sama fólk talaði í umræðunni um „þungunarrofið“ sitt. Þá kom barn í hinni hefðbundnu merkingu lítt við sögu. Þó eru þau talin í hundruðum sem mæta slíkum örlögum á hverju ári. Það sjá því allir sem eitthvað sjá að ekkert blasir betur við í allri þessari umræðu en hræsnin og tvöfeldnin.“