fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
FréttirLeiðari

Barnamálaráðherra upp á punt

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 30. nóvember 2019 15:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ein af stóru fréttum vikunnar var umfjöllun Kompáss um hina sautján ára gömlu Margréti Lillý Einarsdóttur. Það var erfiður lestur, að lesa um lífshlaup Margrétar sem ólst uppi hjá móður sem glímir við andleg veikindi og áfengisfíkn. Móðir Margrétar drap gæludýrið hennar fyrir framan hana og dó áfengisdauða svo oft fyrir framan dóttur sína að það var orðið „eðlilegt“. Hún lamdi dóttur sína og svelti. Samt var ekkert gert. Samt fékk Margrét að búa hjá móður sinni. Allt kerfið brást þessari ungu stúlku og þarf hún að taka þetta veganesti, þessa hræðilegu æsku, með sér inn í lífið.

Þetta er klassísk saga. Barnaverndaryfirvöld voru algjörlega meðvituð um heimilisaðstæður Margrétar því sagan um geð- og áfengisvanda móðurinnar var löng. Íbúar í bæjarfélagi Margrétar, Seltjarnarnesbæ, litu undan og skólinn gerði ekkert til að hjálpa. Enginn þorði að rétta Margréti hjálparhönd. Og aldrei fékk faðir hennar svo mikið sem símtal þegar móðirin var tilkynnt til barnaverndaryfirvalda.

Það versta við frásögn Margrétar er að hún kemur ekki á óvart. Hún er ekkert einsdæmi. Þessar sögur eru úti um allt, allt í kringum okkur. Foreldrar eru tilkynntir sí og æ til barnaverndaryfirvalda og ekkert gerist. Meira að segja þó að nærumhverfi barnsins taki sig saman og nýti sína tilkynningarskyldu þá gerist ekkert. Kerfið heldur börnum hjá foreldrum sínum í lengstu lög, jafnvel þó að foreldrar gangi svo í skrokk á þeim að þau halda vart lífi, úthúði þeim á hverjum einasta degi, sendi þau nestislaus og allslaus í skólann, drekki sig blindfulla upp á hvern einasta dag og rústi heimilinu á tyllidögum.

Hvenær ætlum við sem samfélag að fara að horfast í augu við að þó að fjölmargir geti eignast börn þá eru ekki nærri því allir sem eru færir um að vera foreldrar, með tilheyrandi ást, hlýju, siðferðiskennslu og aga? Oft þegar svona dæmi, eins og Margrétar, koma upp eða illvígar forræðisdeilur, þá er gripið í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Að barn eigi rétt á að umgangast báða foreldra sína. Þessi punktur er yfirleitt notaður sem vopn en skautað framhjá öllum hinum punktunum í þessum sáttmála sem Ísland hreykir sig af að fylgja, en hendir svo ítrekað í ruslið. Þessi sáttmáli er nefnilega ansi langur og ítarlegur. Vissulega er þar minnst á rétt barns til að umgangast foreldra, en þar er einnig farið ítarlega yfir það, að ávallt eigi að gera það sem barni er fyrir bestu. Barn á nefnilega ekki að umgangast báða foreldra sína ef það er stríðir gegn hagsmunum barnsins. Allar ákvarðanir yfirvalda eiga að vera byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Hvernig getum við þá sem þjóð fullyrt að við förum eftir þessum ágæta sáttmála ef barn eins og Margrét þarf að þola ólíðandi heimilisaðstæður svo árum skiptir?

Það er löngu kominn tími til að yfirvöld vakni. Margrét er bara eitt af hundruðum barna sem þurfa að sætta sig við það að vera ekki hjálpað. Eitt af hundruðum barna sem fengu ekki að upplifa ánægjulega barnæsku. Eitt af hundruðum barna sem fara brotin út í lífið. Það er ekki nóg að vera með sérstakan barnamálaráðherra sem mætir á barnaþing og reynir að vera sniðugur. Býr til starfshópa og nefndir sem skrifar skýrslur og álit sem mallar í kerfinu án þess að nokkur skapaður hlutur gerist. Það þarf róttækar aðgerðir til að bjarga öllum þessum börnum. Það þarf að taka börn fyrr af foreldrum sínum og setja þau í tímabundið fóstur. Nærumhverfið þarf að styðja þessi börn. Þau þurfa ást og hlýju, en einnig aðstoð sérfræðinga til að takast á við tilfinningar sínar og brotna sjálfsmynd. Þau þurfa hjálp. Þetta er ekki flókið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Fékk skilorð fyrir kynferðisbrot sem hann kallaði glens

Fékk skilorð fyrir kynferðisbrot sem hann kallaði glens
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Gagnrýna Íslandsbanka fyrir vaxtabreytinguna í dag – „Þetta er ógeðslegt, óboðlegt og til skammar“

Gagnrýna Íslandsbanka fyrir vaxtabreytinguna í dag – „Þetta er ógeðslegt, óboðlegt og til skammar“
Fréttir
Í gær

Dómur fallinn yfir konunum þremur sem fengu háar fjárhæðir frá erlendum auðkýfingi – Ein sleppur vel en tvær sitja í súpunni

Dómur fallinn yfir konunum þremur sem fengu háar fjárhæðir frá erlendum auðkýfingi – Ein sleppur vel en tvær sitja í súpunni
Fréttir
Í gær

Garðyrkjubændur greina frá 25 prósent hækkun raforkuverðs á hálfu ári – Óttast að íslenskt grænmeti verði ekki samkeppnishæft

Garðyrkjubændur greina frá 25 prósent hækkun raforkuverðs á hálfu ári – Óttast að íslenskt grænmeti verði ekki samkeppnishæft