„Satt best að segja kom það mér á óvart að nokkuð hafi yfirhöfuð komist í verk. Þetta var svolítið eins og að vera í fríi.“
Þetta segir Pratik Kumar, eigandi og stofnandi íslenska fyrirtækisins App Dynamic sem veltir hundruðum milljóna króna. Pratik er í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag þar sem hann ræðir meðal annars feril sinn hér á landi, uppgang App Dynamic og fyrstu árin eftir komuna til Íslands árið 1999 þegar Pratik var 22 ára. Hann rifjar til dæmis upp hvað vinnustaðamenningin hér á landi hafi komið honum á óvart.
Pratik er fæddur og uppalinn í Indlandi en hann er kvæntur íslenskri konu og á fimm börn. Í viðtalinu við Pratik kemur fram að hann hafi fengið starf hjá OZ sem skiptinemi en um það leyti var hann að klára háskólanám í rafmagnsverkfræði.
Hann segist ekki hafa ætlað sér að staldra lengi við á Íslandi en hann hafi fallið fyrir landi og þjóð. Eftir eitt og hálft ár hjá OZ hætti fyrirtækið störfum og réð hann sig til starfa hjá Nýherja, nú Origo. Þar starfaði hann í sex ár áður en ferðinni var heitið til Kaupþings vorið 2008.
„Mér fannst ég þurfa reynslu af bankastarfsemi. Hálfu ári seinna hrundi bankinn og varð að Nýja Kaupþingi og síðar Arion banka. Ég get ekki sagt að þetta hafi verið þægilegir tímar,“ segir hann áður en hann ræðir starfsumhverfið hjá bankanum sem honum hugnaðist ekki.
„Vinnustaðamenningin var mjög afslöppuð. Ef þú vannst meira en samstarfsfélagarnir fékkstu illt auga frá þeim fyrir að láta þá líta illa út. Satt best að segja kom það mér á óvart að nokkuð hafi yfirhöfuð komist í verk. Þetta var svolítið eins og að vera í fríi,“ segir hann og bætir við að af tuttugu manna hópi hafi tveir til þrír starfsmenn séð um mestu vinnuna. Aðrir hafi verið allt frá því að vera afkastalitlir yfir í að gera ekki neitt. Þetta hafi átt við tæknifólk sem og aðra starfsmenn.
„Stjórnendur ráða lögum og lofum í bönkum. Það skiptir því sköpum að borin sé virðing fyrir tæknifólkinu í þeim deildum sem snúast öðru fremur um tækni. Viðhorfið hefur hins vegar verið meira í þá átt að henda einfaldlega meiri mannskap í vandamálin þangað til þau leysast. Það er afar misráðin leið til að reka tæknideild eða -fyrirtæki. Afleiðingin er mun fleira fólk en til þarf fyrir viðkomandi verkefni, sem býr til glundroða þannig að ekkert gerist.“
Hægt er að nálgast viðtalið við Pratik í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.
Pratik var í áhugaverðu viðtali við DV sumarið 2018 sem hægt er að lesa hér.