Listi yfir þá umsækjendur sem sækjast eftir stöðu útvarpsstjóra verður ekki birtur opinberlega. Ráðningarfyrirtækið Capacent er sagt hafa lagt þetta til og markmiðið sé að auka möguleika á betri umsækjendum. RÚV greinir frá.
Auglýst var eftir nýjum útvarpsstjóra um miðjan nóvembermánuð en umsóknarfrestur er til 2. desember. Magnús Geir Þórðarson, sem gegnt hefur stöðunni undanfarin ár, var ráðinn Þjóðaleikhússtjóri og tekur hann við því starfi um áramótin.
Kári Jónasson, stjórnarformaður RÚV, segir í frétt RÚV að stjórnin hafi ákveðið að fara að ráðum Capacent og birta ekki listann yfir umsækjendur opinberlega. Þá kveðst hann ekki hafa upplýsingar um hversu margir hafa þegar sótt um stöðuna.