Blaðamenn The Namibian telja að fráfarandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernard Esasu, sem nú hefur verið rekinn úr embætti og fangelsaður, hafi ráðgert að gera breytingar á fiskveiðilöggjöf landsins, sem hefði styrkt stöðu Samherja enn frekar. Þetta stangast á við fullyrðingar forsvarsmanna Samherja um að fyrirtækið væri að draga sig frá Namibíu. Blaðamenn The Namibian hafa fengið hótanir vegna skrifa sinna um Samherja og segjast vera á varðbergi.
Þetta kemur fram í síðari hluta umfjöllunar þáttarins Kveiks á RÚV um málefni Samherja í Namibíu.
Mótmælagöngur hafa verið farnar í Namibíu undanfarið í kjölfar uppljóstrana fjölmiðla um mútugreiðslur Samherja til embættismanna og stjórnmálamanna í Namibíu til að komast yfir mikinn fiskveiðikvóta. Samherji er talinn hafa flutt stóran hluta af þeim gróða í skattaskjól. Mikið af þeim peningum hefur runnið í gegnum norska ríkisbankann DNB. Þar segja menn að hugsanlegt sé að glæpamenn hafi misnotað bankann en starfsmenn hans áttuðu sig margir hverjir ekki á greiðslum Samherja sem runnu í gegnum bankann til fyrirtækis á Kýpur sem kom peningum í skattaskjól.
Mikil fátækt er víða í Namibíu og Kveikur heimsótti hverfi þar sem mörg börn eiga ekki þak yfir höfuðið, fjölmargir íbúar borða aðeins eina máltíð á viku, börn leika sér hjá opnum holræsum og lifrarbólga C er útbreidd vegna saurmengunar í vatni. Viðmælandi Kveiks sagði að arður af auðlindum hefði getað runnið til þess verkefnis að draga úr fátækt í landinu en þess í stað færi hann til stórfyrirtækja á borð við Samherja.
Rætt var við yfirmann stofnunarinnar ACC sem fer með rannsókn á þeim spillingarmálum sem tengjast Samherja. Stofnunin hefur beðið um gögn frá Noregi og Íslandi vegna rannsóknarinnar og segist líta á rannsóknina sem prófmál.