Mótmælti fyrir utan veitingahúsið Hraun í Ólafsvík
Robert Zubcic mótmælti fyrir utan fyrrverandi vinnustað sinn, veitingahúsið Hraun í Ólafsvík í hádeginu nokkra daga í röð í janúar á þessu ári. Ástæða mótmælanna var framkoma vinnuveitanda hans gagnvart honum en hann hélt því fram að hann hefði ekki fengið greitt fyrir yfirvinnu og þar að auki verið sagt upp störfum eftir að hann leitaði réttar síns hjá stéttarfélagi sínu.
Samkvæmt upplýsingum frá Verkalýðsfélagi Snæfellinga á þeim tíma var þetta ekki í fyrsta sinn sem starfsmenn fyrirtækisins leituðu til félagsins, þó svo ekki hafi verið fært að gefa upp heildarfjölda erinda sem þeim hefði borist vegna þess.
Eigendur staðarins eru hjónin Jón Kristinn Ásmundsson og Katrín Hjartardóttir, áður áttu þau fyrirtækið í gegnum Hraun eldhús ehf., en sú kennitala fór í þrot í október síðastliðnum. Þrotið hefur átt sér nokkurn aðdraganda því í júní hafði verið stofnað nýtt fyrirtæki um reksturinn sem sótti um rekstrarleyfi á nýrri kennitölu, Tarragon ehf.
Armindo
Armindo Camillo er kokkur að mennt og menntaður í fyrirtækjastjórnun. Hann kom til Íslands eftir langa búsetu í Írlandi þar sem kona hans og börn eru búsett. Hann segir að hann hafi unnið sem kokkur á fiskiskipi þegar hann sá starf yfirkokks auglýst hjá Hrauni veitingahúsi. Hann vildi ólmur komast af fiskiskipinu og fá starf sem betur hentaði hans menntun og sló til. Hann var ráðinn til reynslu og segir að nánast frá upphafi hafi honum verið ljóst að eitthvað væri ekki með felldu. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hans fékk hann ekki skriflegan ráðningarsamning og hefur ekki enn fengið launaseðil.
„Hann hefur haldið að ég væri banani, en það er ég ekki. Ég er skaphundur, enda er það oft þannig með kokka, maður þarf að hafa bein í nefinu til að stýra eldhúsi. Svona framkomu læt ég ekki yfir mig ganga. Bæði vill ég fá peninginn sem ég á inni hjá honum sem og koma til leiðar að hann láti af þessum svikum.“
Armindo segir Jón Kristin hafa lofað honum öllu fögru þegar hann bauð honum lausa yfirkokkastöðu í eldhúsinu á Hrauni. Armindo væri ráðinn inn sem yfirkokkur í eldhúsi og myndu þeir ganga frá samningi síðar. Eins útvegaði Jón Kristinn honum húsnæði og yrði leigan dregin af launum hans.
Fljótlega eftir að Armindo hóf störf í eldhúsinu var honum gerð grein fyrir því ástandi sem hafði átt sér stað hjá fyrirtækinu í byrjun árs, þegar starfsmaður mótmælti ítrekað með skilti fyrir utan staðinn vegna meints launaþjófnaðar Jóns Kristins.
„Ég varð því var um mig og þetta hvatti mig áfram í að ganga á eftir því að fá skriflegan ráðningarsamning svo ég gæti séð hvaða launakjör ég væri með og hvað yrði dregið af mér í leigu og svona.“
Armindo kveðst skilja vel að það sé erfitt fyrir hann að sanna að hann hafi verið ráðinn inn sem yfirkokkur þar sem engin skjöl séu því til staðfestingar. „Hann getur reynt að halda því fram að ég hafi bara verið ráðinn þess vegna í uppvaskið, það er ekkert skriflegt til um stöðu mína þarna. Hins vegar hefði ég aldrei samþykkt slíka stöðu. Ég er með góða menntun og hæfur í því sem ég geri, ég á ekkert erfitt með að finna mér vinnu. Ég hef starfað á mörgum stöðum sem yfirkokkur og hafði enga ástæða til að taka niður fyrir mig.“
Máli sínu til stuðnings sýnir Armindo blaðamanni prófskírteini og leyfisbréf úr kokkaskóla, sem og ráðningarsamninga frá fyrrverandi vinnuveitendum sem gefa vissa hugmynd um þær launakröfur sem hann gerir. „Ég færi aldrei að semja um verri laun en ég hafði áður í starfi á Íslandi.“
Í dag, aðeins skömmu eftir að hafa verið sagt upp störfum hjá Hrauni, er Armindo þegar komin í góða stöðu hjá fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Sýnir þetta að hans sögn fram á að það sé í raun og veru tiltölulega auðvelt fyrir mann með hans menntun og reynslu að fá vinnu með skömmum fyrirvara.
„Ég byrjaði að vinna þarna [á Hrauni] um miðjan mánuð í október. Um mánaðamótin voru samstarfsfélaga mínir búnir að fá borgað, en ekki ég. Ég fer þá til Jóns Kristins og bið hann um að borga mér launin mín og hann svarar að hann geti reddað mér smá fyrirfram. Ég vildi ekkert fá fyrirfram, ég vildi fá launin mín. Ég var búinn að vinna þarna yfir 300 klukkustundir á mjög skömmum tíma.“ Armindo sýnir blaðamanni tímaskráningu sem sýnir yfir 300 unnar klukkustundir og grófan útreikning á brúttó launum fyrir það tímabil. Sú upphæð nam ríflega milljón. Hafði hann fengið 150 þúsund fyrirfram um það leyti sem hann tók við stöðunni, síðan hafði Jón Kristinn greitt bílaleigubíl fyrir Armindo, 78 þúsund og svo fékk hann 100 þúsund krónur um mánaðamótin. Þessi upphæð var mun lægri en Armindo hafði reiknað með auk þess fylgdi útborgun enginn launaseðill og enginn sundurliðun á hvernig launin væru reiknuð út eða hvað væri dregið frá þeim.
Armindo gekk hart á eftir ráðningarsamningi og launum sínum og telur að vegna þess hafi Jón Kristinn sagt honum upp störfum, en Jón hefði aðeins viku fyrir uppsögnina lýst yfir ánægju sinni með störf hans. Í kjölfarið leitaði hann til Verkalýðsfélags Snæfellinga og segir að þar hafi ekki virst koma nokkrum manni á óvart þegar hann nefndi hver vinnuveitandi hans væri.
„Þeir sögðu bara orðrétt: Herra Jón gerði það aftur.“
Verkalýðsfélagið
DV hafði samband við Verkalýðsfélag Snæfellinga og ræddi við Vigni Smára Maríasson sem staðfesti að Armindo væri í samskiptum við stéttarfélagið. Gat hann þó ekki tjáð sig um hvort og þá hve mörg önnur mál væru í vinnslu hjá þeim sem vörðuðu starfsmenn Hrauns veitingahúss.
Varðandi kennitölubreytingu Hrauns sögðu þeir lítið hægt að gera þar sem fyrirhugaðar lagabreytingar til að koma í veg fyrir kennitöluflakk væru ekki komnar í gegn. „Það er ekki enn komin í gegn lagabreyting til að koma fyrir kennitöluflakk eða allavega hægja á því ef svo má segja, eins og hefur verið sagt því ekki megi setja of íþyngjandi lög. Þetta er bara svoleiðis. Nú er bara verið að lýsa kröfum í þrotabú fyrir starfsmenn í þeim gömlu málum sem voru. En nú er náttúrlega komið nýtt fyrirtæki.“
Atvinnurekendum beri ávallt skylda til að standa skil gagnvart starfsmönnum á launaseðlum. Hins vegar tryggi kjarasamningar vissan frest til að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi. „Það er skylt að afhenda launaseðil, en nægjanlegt að afhenda rafrænan launaseðill. Það er skylt að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi innan tveggja mánaða. Samkvæmt kjarasamningum.“
En er ástæða til að óttast að atvinnurekandi sem ítrekað verður uppvís að sömu brotum gegn starfsmönnum sínum muni ekki láta af háttsemi sinni?
„Maður óttast það. En lengi skal manninn reyna.“
Blaðamaður spurði hvort mikið væri um að erlendir starfsmenn leituðu til félagsins vegna ágreinings við vinnuveitendur. „Það er mjög algengt, og það er að aukast, að fólk er koma til að forvitnast um rétt sinn. Sem betur fer er fólk að verða meðvitaðra um það. Það er líka algengt að það komi og spyrji bara: Er þetta rétt? Það er líka algengt að atvinnurekendur hringi og spyrji: Á ég að gera þetta svona? Það er mjög ánægjulegt.“
En eru almennt að koma fleiri eða færri erindi inn á borð hjá ykkur um þessar mundir?
„Þeim hefur fjölgað núna á þessu ári.“
Jón Kristinn Ásmundsson:
Blaðamaður hafði samband við Jón Kristinn vegna máls Armindos, sem vildi upphaflega ekki tjá sig en vísaði ásökunum Armindos á bug.
Ég er blaðamaður á DV og maður að nafni Armindo leitaði hingað til okkar og segir farir sínar ekki sléttar og frásögn hans rímar við þær frásagnir sem bárust frá fyrrverandi starfsfólki þínu hér í janúar. Ég vildi því hafa samband og gefa þér kost á að koma þinni hlið á framfæri.
„Ertu ekki að grínast? Hérna hefurðu nokkuð skoðað, nei þú hefur ekki … ehhh nei nei … ég vil ekkert segja um þetta nema bara þetta að Armindo vinnur ekki hjá okkur lengur og ekkert neitt frekar um það að segja.“
En er eitthvað til í því sem hann segir, að hann hafi ekki fengið ráðningarsamning eða launaseðla?
„Sko, hann er ekkert búinn að fá, maðurinn vann bara hjá okkur í nokkra daga. Hann er bara ekki búinn að fá launaseðil, hann fær bara borgað 1. desember eins og allir aðrir.“
En byrjaði hann ekki í október?“
„Við greiðum laun frá 20.–19. svo það er allt innan þess ramma. Hann er samt búinn að fá held ég 75 prósent af laununum sínum greidd fyrirfram. Svolítið skemmtilegt að það skuli hringja bjöllum hjá þér út af því sem gerðist í janúar út af því að það er sem sagt blaðamaður frá ykkur búinn að hringja í mig til að biðjast afsökunar á grein ykkar frá því í janúar, því hún var bara eins röng og hún gat mögulega orðið. Það mál endaði þannig að verkalýðsfélagið hér í Snæfellsbæ þurfti að borga flugfarið fyrir þennan mann sem mótmælti fyrir utan hjá mér, heim til sín, af því að hann var farinn að valda þeim vandræðum. Og þetta mál hafði sko svo mikil áhrif á fjölskylduna mína, vegna þess að þetta var bara hreinn viðbjóður, algjörlega út í gegn, og þið áttuð ykkar þátt í því sko. [innsk. blm. Blaðamaður þekkir ekki til þess að Jón hafi verið beðinn afsökunar og frétt DV af málinu var aldrei tekin úr birtingu]
Það var líka greint frá málinu í Stundinni og í Fréttablaðinu.
„Þeir áttu líka þátt í því enda eru allir nema Stundin búnir að hringja í mig og spyrja mig hvort ég hafi áhuga á því að þeir fjalli um málið aftur og leiðrétti þar minn hlut, en ég hef bara engan áhuga á því vegna þess að ég er búinn að sjá hvernig þessir hlutir virka. Það hefur enginn áhuga á að fjalla um sannleikann, þeir hafa bara áhuga á að segja að einhver gaur sé ljótur og þá skrifa allir einhver komment undir, sko.“
Og heldur þú að þessi umræða hafi haft áhrif á að fyrirtækið fór í þrot og þurfti að skipta um kennitölu?
„Já, algjörlega. Ég er búinn að reka þetta fyrirtæki í sex ár og hef aldrei verið undir áætlun í sölu nema í þessa fjóra mánuði eftir að þetta mál kom upp. Þetta er bara skólabókardæmi. Ég er ekki að segja að ég sé fullkominn, ég hef gert þúsund mistök en þetta voru bara ekkert mistök.“
Ókei, og þú segir að einhver frá ókei …
„Þessi Armindo er að reyna að hafa samband við verkalýðsfélagið hérna í Snæfellsbæ því verkalýðsfélag hans, Matvís, vill væntanlega, þú veist, hann vann náttúrlega bara hjá mér í nokkra daga svo það er ekki enn búið að greiða fyrir hann í verkalýðsfélagið en hann greiðir í Matvís þar sem hann er matreiðslumaður og hann er að reyna að fá verkalýðsfélagið hér eitthvað til að hjálpa sér því Matvís væntanlega vill það ekki. Við gerðum nákvæmlega ekki neitt rangt gagnvart þessum gaur, það var bara vesen á honum, hann gat ekki unnið hjá okkur. Hann fær hverja einustu krónu sem hann vann sér inn hjá okkur greidda 1. desember. Ég þurfti sko að greiða fyrir hann bílaleigubíl eftir að ég sagði honum upp því bílaleigan treysti honum ekki, svo endilega fjallið um þetta og þá gerum við bara eitthvað í þessu máli frá því í janúar.“
Var hann ráðinn inn hjá ykkur sem yfirkokkur?
„Hann var bara ráðinn inn hjá mér til að prófa og það bara gekk ekki upp. Hann var bara ekki nógu góður.“