Þröstur Ólafsson, hagfræðingur á eftirlaunum og fyrrverandi verkalýðsforingi, fer hörðum orðum um hluta af baráttu #metoo hreyfingarinnar og líkir því framferði að ófrægja menn á grundvelli nafnlausra ásakana um kynferðislega áreitni við vinnubrögð fasistastjórna og glæpagengja. Grein sína birtir Þröstur í Fréttablaðinu. Í niðurlagi hennar segir hann:
„Skyldi mælikvarði meðalhófs vera hafður í heiðri þegar meintir misgjörðamenn eru dæmdir af dómstóli götunnar? Eru kynferðisleg áreitni og káf svo alvarlegir glæpir að um þá gildi ekkert meðalhóf? Er það eins með fyrrnefndan ágang og meinsemi eins og morð, að þau fyrnist aldrei? Skyldi slíkt réttarfar mega kallast réttlátt? Hér er ekki verið að fjalla um íslenskt réttarfar, heldur dómstól götunnar, sem kallaður hefur verið til. Sá dómstóll fær ekkert að vita um misgjörðirnar annað en að þær hafi verið alvarlegar. Þó að ekki sé um nauðgunartilraun eða þaðan af verra að ræða. Áreitni er hvimleið og lítt verjandi, þó ekki þurfi hún endileg að valda viðkomandi miklum varanlegum eftirköstum. Hún er bæði huglæg og hlutlæg, því mælikvarðinn er líka einstaklingsbundinn. Dómur almennings sem meintur misgjörðamaðurinn fær, gerir þar engan greinarmun. Hann er kategórískur. Á myrkum miðöldum Íslandssögunnar voru snærisþjófar dæmdir til Brimarhólms og konum drekkt fyrir meint framhjáhald. Það þykja okkur sem nú lifum óréttlátir, ofstopa- og kúgunarfullir dómar. Á okkar tíð verður dómi götunnar ekki áfrýjað. Refsingin er einföld og grimm. Útlegð úr mannlegu samfélagi – opinber aftaka.“
Þröstur er sáttur við margt í framgöngu #metoo hreyfingarinnar og skrifar í upphafi greinar sinnar:
„Það bæri vott um mikla samfélagslega blindu eða meðvitaða missýn að draga í efa eða neita frelsandi áhrifum MeToo hreyfingarinnar á jafnréttisstöðu kvenna. Án hennar væri margur dóninn enn heiðursmaður. Þegar konur koma opinberlega fram undir nafni og segja frá stað og stund, ber það vott um ábyrgð og kjark, þá getur málið fengið framgang innan réttarríkisins.“
Þröstur álítur hins vegar að nafnlausar ásakanir séu óhæfa og segir að ásakanir í skjól nafnleyndar minni á leyniskyttur sem skjóta á varnarlausa:
„Mannfólkið er missterkt siðferðislega. Sumir telja sig hafa rétt til að ná sér hressilega niður á annarri persónu eða til að koma voðaorði á einstakling. Í slíkum tilfellum er upplagt að gera það án þess að hægt sé að persónugreina ákæranda. Þá er sú aðferð alþekkt og var (er?) stunduð af alúð af íslenskum fjölmiðlum, að birta óhróður og jafnvel níð undir nafnleynd. Nafnleyndin hefur þá miklu kosti, að sá sem ber óhróður um náungann eða ber hann sökum um óviðurkvæmilega hegðun, ber enga ábyrgð á framburði sínum eða skrifum. Þetta er íslenska aðferðin. Víðast hvar erlendis virðist mér nafnleysið vera undantekning.“
Þröstur segir nafnlausar ásakanir vera siðferðislega brenglaða aðferð femínista enda firri nafnleysinginn sig ábyrgð á sannleiksgildi ásakana sinna. Nefnir hann síðan til sögunnar tvö þekkt dæmi undanfarinnar missera þar sem þjóðþekktir menni hafi þolað nafnlausar ásakanir:
„Kunnum leikara var fyrirvaralaust vikið úr starfi. Þjóðþekktur stjórnmálamaður „brenndur á báli“ víðtækrar fordæmingar. Sumum atgöngum hefur verið stýrt af duldum einstaklingum. Fámenn samfélög eru mun viðkvæmari fyrir slíkum vinnubrögðum en fjölmenn. Nafnleysið hefur verið réttlætt með nauðsyn á vernd. Það er ekki sannfærandi, ekki hvað síst þegar um marga meinta brotaþola er að ræða. Þessi mál eiga lítið sameiginlegt með uppljóstrurum, sem komist hafa yfir mikilvæg leynigögn sem skipta almenning máli. Því betur er nafnlaus framburður ekki tekinn gildur þegar réttarríkið fær að virka, nema í sérstökum réttarlega samþykktum tilfellum.“