Engilbert Runólfsson athafnamaður hefur verið ákærður fyrir stórfelld skattsvik og peningaþvætti. Fyrirtaka málsins fór fram í Héraðsdómi Vesturlands á miðvikudaginn. Engilbert er gert að sök að hafa brotið gegn skattalögum, bókhaldslögum og lagt stund á peningaþvætti. Samkvæmt ákæru stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti á sex mánaða tímabili á árunum 2017 og 2018, og nema meint svik tæpum 24 milljónum króna. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Engilbert hefur komist í kast við lögin. Á hann langan og litríkan sakaferil að baki sem má rekja allt aftur til áttunda áratug síðustu aldar.
Ökuníðingur sem lætur ekki segjast
Engilbert hefur ítrekað verið fundinn sekur um brot gegn umferðarlögum. Á árinum 1982–1996 gerði hann alls fimm sinnum dómsátt vegna slíkra brota, auk hylmingar á þýfi. Eins hafði honum í þrígang verið gerð viðurlög vegna umferðarlagabrota og þar að auki hafði hann hlotið sektardóm fyrir umferðarlagabrot.
Á þessu tímabili var Engilbert einnig fundinn sekur um fíkniefnalagabrot, brot gegn skotvopnalöggjöfinni, hylmingu og skjalafals.
Frá árinu 1982 til 1996 gekkst Engilbert undir alls fimm dómsáttir fyrir umferðarlagabrot og hylmingu þýfis. Frá 1993–1996 gekkst hann þrívegis undir viðurlagaákvörðun fyrir umferðarlagabrot og hafði auk þess hlotið fimm refsidóma frá árinu 1988. Þetta kemur fram í dómsorði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1996, en í því máli var Engilbert dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnasmygl. Var það í annað sinn sem Engilbert hlaut dóm fyrir slíkan innflutning, en áður hafði hann hlotið sakfellingu árið 1991 vegna hlutdeildar í fíkniefnasmygli.
Héraðsdómur leit til sakaferils Engilberts við ákvörðun refsingar og þótti ljóst að þrátt fyrir að hafa ítrekað komist í kast við lögin, hefði Engilbert ekkert lært af reynslunni. „Ákærði Engilbert er fulltíða maður, sem hefur ekki látið af afbrotum þrátt fyrir óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir sams konar afbrot. Telur dómurinn þetta bera vitni um styrkan og einbeittan brotavilja hans, og er það virt ákærða til refsihækkunar.“
Upp úr aldamótunum fór hagur Engilberts að vænka og varð hann umsvifamikill í viðskiptalífinu og fór fyrir fjölda fyrirtækja sem sinntu stórum byggingaverkefnum. Hann var þó sakfelldur fyrir umferðarlagabrot, enn aftur, árið 2009 og gert að greiða sekt í ríkissjóð. Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að innan við tveimur vikum áður en dómur þessi féll hafði Engilberg gengist undir dómsátt vegna umferðarlagabrots þar sem honum var gert að greiða tæpar 200 þúsund krónur í sekt og missti hann bílprófið í eitt ár.
Hvað varð um Valgeir Víðisson?
Þann 19. júní 1994 hvarf maður að nafni Valgeir Víðisson, að því er virðist sporlaust. Hefur ekkert spurst til hans síðan. Valgeir þessi glímdi við fíkn og hafði átt í útistöðum við hættulega menn í undirheimum Reykjavíkur. Skömmu eftir hvarfið höfðu fjölmiðlar eftir kunningjum Valgeirs að hann hefði skuldað hættulegum mönnum töluverðar fjárhæðir og virtust flestir á sama máli um að fíkniefnaviðskipti hefðu átt sinn þátt í hvarfi hans. Valgeir hafði skilið við íbúð sína líkt og hann hefði áformað að skreppa aðeins frá. Enn var kveikt á sjónvarpi og öll ljós íbúðarinnar kveikt. Faðir hans, Víðir Valgeirsson, var þess fullviss allt til dauðadags að sonur hans hefði ekki látið sig hverfa, heldur hefði hann verið látinn hverfa.
Rannsókn lögreglu miðaði lítið áfram og á árinu 2002 var málið enn opið og fáar vísbendingar til að fylgja eftir. Þá gáfu sig fram nokkur vitni við lögreglu sem greindu frá því að menn að nafni Ársæll Snorrason og Engilbert Runólfsson, hefðu myrt Valgeir vegna fíkniefnaskulda. Bar frásögn vitnanna að mörgu leyti saman. Engilbert og Ársæll áttu að hafa farið á fund við Valgeir í þeim tilgangi að neyða hann til að gera upp skuldir. Hafi Ársæll gengið of hart fram og Valgeir dáið. Árásin á að hafa átt sér stað í bílakjallara hjá húsi því sem Engilbert bjó í á þeim tíma. Í kjölfarið, sögðu vitnin, hafi Engilbert og Ársæll komið líki Valgeirs fyrir í farangursrými Chevrolet Caprice-bifreiðar þar sem þeir geymdu líkið áður en þeir losuðu sig við það skammt frá Vík í Mýrdal.
Lögregla hafði upp á öðru vitni, starfsmanni bifreiðaverkstæðis, sem kannaðist við að Engilbert og Ársæll hefðu komið með Chevrolet-bifreiðina til hans og beðið um að henni yrði fargað. Minnti starfsmanninn að áklæði í farangursrými hefði verið rifið af og járnið þar bert. Þótti starfsmanninum undarlegt að mennirnir óskuðu eftir því að bifreið, sem virtist í fínu lagi, yrði fargað. Kvað hann Engilbert og Ársæl hafa gefið þá skýringu að bifreiðin væri að ryðga og þeir vildu bara losna við hana. Bíllinn var í eigu Ársæls sem undirritaði afsal sem seljandi, en Engilbert ritaði nafn sitt á skjalið sem vitundarvottur. Það tók starfsmanninn nokkra daga að taka vélina úr bifreiðinni og farga og minnti hann við yfirheyrslu að á þeim tíma hafi komið til hans maður og rekið á eftir förguninni.
Engilbert og Ársæll voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Sönnunargögn þóttu þó ekki næg til að hægt væri að gefa út ákæru svo þeim félögum var að lokum sleppt. Framburður fyrrnefndra vitna var ekki staðfestur. Hvarf Valgeirs er enn óupplýst.
Dauðahúsin
Um áramótin 2005/2006 fjallaði DV um svonefnd „dauðahús“ á Hverfisgötu. Þrjú hús, þar sem fjórir einstaklingar, sem allir glímdu við fíkn, létust á innan við ári. Tvö húsanna voru í eigu fyrirtækisins Stafna á milli ehf., sem var verktakafyrirtæki Engilberts. Þriðja húsið var í eigu Frakkastígs ehf., sem Engilbert virtist hafa aðkomu að samkvæmt frásögn vitna sem DV ræddi við. Engilbert þvertók þó fyrir aðkomu sína en þegar framburður vitnis var borinn undir hann fór hann undan í flæming: „Ég vil ekki tala við ykkur,“ sagði Engilbert og skellti á blaðamann.
DV greindi jafnframt frá því að 30. desember 2005 hafi Engilbert sent áðurnefndan Ársæl Snorrason til að hreinsa út úr dauðahúsunum. Fullyrtu viðmælendur DV að útburðaraðgerðir hafi verið harkalegar. Þegar fyrirhugaður útburður á leigjendum dauðahúsanna fréttist var haft samband við Engilbert og var þá lítið um svör. „Haltu kjafti,“ sagði Engilbert og skellti á. Einnig var haft samband við Ársæl sem sagði: „Ég vinn fyrir hann [Engilbert], ég var beðinn um að sjá um þetta.“
Ársæll lést árið 2013.
Glaðheimaævintýrið
Aðeins þremur árum eftir að hann losnaði úr gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að hvarfi Valgeirs Víðissonar var Engilbert orðinn umsvifamikill í íslensku atvinnulífi og tók meðal annars þátt í svonefndu Glaðheimaævintýri í Kópavogi, braski með lóðir undir hesthús á svæði Gusts sem endaði með að kosta Kópavogsbæ fleiri milljarða. Engilbert var ítrekað bendlaður við kaup á hesthúsum á svæðinu. Árið 2006 reyndi Fréttablaðið að ná tali af Engilbert þegar grunur hafði vaknað um að kaupverð kaupsamninga við hesthúsaeiganda væri skráð lægra en raunverulega hefði verið greitt. „Ég hef ekki tíma til að tala við þig,“ sagði Engilbert við blaðamann og skellti svo á.
Í maí 2006 greindi DV frá því að Engilbert væri eigandi um 40 prósenta hesthúsanna og ætlaði sér að kaupa þau öll til að þróa þar íbúðabyggð.
Vatnsendamálið
Flestir Íslendingar hafa heyrt sögur af Vatnsendamálinu fræga. Málið varðaði harðar deilur erfingja Sigurðar Hjaltested um jörð á Vatnsenda sem Þorsteinn Hjaltested hafði fengið í sinn hlut vegna erfðaskrár frá árinu 1938. Aðrir erfingjar Sigurðar hafa barist hart fyrir því að fá viðurkennt að Þorsteinn væri ekki réttmætur erfingi jarðarinnar og unnu mál sitt fyrir Hæstarétti árið 2015. Kópavogsbær hafði tekið stóra hluta jarðarinnar eignarnámi í gegnum árin og greitt eignarnámsbætur fyrir til Þorsteins en eins hafði Þorsteinn selt hluta jarðarinnar sjálfur. Meðal annars til Engilberts. Engilbert hugðist þar reisa fjögur einbýlishús en áformin strönduðu þegar ekki fengust tilskilin leyfi hjá Kópavogsbæ. Kaupverð jarðarhluta Engilberts nam um 80 milljónum króna.
VBS fjárfestingarbanki
Engilbert fékk umfangsmiklar lánveitingar frá VBS fjárfestingarbanka í gegnum eitt eða annað af þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem hann hefur haft aðkomu að í gegnum tíðina. Nokkur dæmi um fyrirtæki sem Engilbert tengist eða hefur tengst eru Ferjuholt ehf., Uppbygging ehf., JB byggingafélag., S23 ehf., Stafna á milli ehf., Eignasmári ehf., og Frakkastígur ehf., en Engilbert fékk einmitt lán frá VBS til að kaupa JB byggingafélag, á fjóra milljarða króna árið 2007.
Í gegnum Ferjuholt ehf. fékk Engilbert lán frá VBS upp á ríflega milljarð til kaupa á tæplega 200 hekturum úr landi í Flóanum á Suðurlandi. Í samtali við Sunnlenska fréttablaðið sagði Jón Þórisson, þáverandi forstjóri VBS, að menn innan bankans hefðu líklega vitað um fortíð Engilberts en fremur horft á hugsanlega ávinning af viðskiptunum.
Lánveitingar VBS til fasteignaverkefna voru umtalsverðar eða um 76 prósent af heildarútlánum bankans. Einn af stórtækustu viðskiptavinum VBS var Engilbert og fyrirtæki hans Innova, meðal annars til verkefna sem sem aldrei voruð kláruð. VBS fór í þrot árið 2010 en ári fyrr hafði bankinn þurft að afskrifa um sjö milljarða króna vegna tapaðra útlána.
Uppbygging á Akranesi
Fyrirtæki Engilberts Uppbygging ehf. greindi á síðasta ári frá áformum um að reisa allt að 17 þúsund fermetra húsnæði á Akranesi undir ýmiss konar atvinnustarfsemi. Áætlaður kostnaður var um fimm milljarðar króna. Bæjaryfirvöld Akraness tóku, að sögn Engilberts, vel í áformin. Nýlega var einnig greint frá því að Uppbygging hafi náð samningum um að byggja Reebok Fitness líkamsræktarstöð og heilsulind.
Ljóst er að litríkur sakaferill hefur ekki valdið Engilbert teljandi vandkvæðum í atvinnulífinu og miðað við þær upphæðir sem fyrirtæki í hans eigu hafa farið með, eru þær 24 milljónir sem honum er gert að sök að hafa svikið af skattinum, fremur smávægileg fjárhæð.