fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Gunnlaugur kærður til Vinnueftirlitsins vegna eineltis: Var sagt upp störfum sem sveitarstjóri Borgarbyggðar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 14. nóvember 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrrverandi starfsmaður í stjórnunarstöðu hjá Borgarbyggð kærði Gunnlaug Auðunn Júlíusson sveitarstjóra fyrir einelti til Vinnueftirlits ríkisins. Mál starfsmannsins er til meðferðar hjá Vinnueftirlitinu. Manninum var sagt upp störfum er hann var í veikindaleyfi vegna vinnuslyss. Yfirmanni hans hjá Borgarbyggð var ekki gert viðvart um brottreksturinn fyrr en tveimur mánuðum síðar.

Þetta kemur fram í gögnum sem DV hefur undir höndum. Maðurinn segir í kæru sinni til Vinnueftirlitsins að honum hafi ekki verið gefið færi á því að svara þeim ávirðingum sem á hann voru bornar og skipulega hafi verið unnið að því að bola honum úr starfi.

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur sagt Gunnlaugi upp störfum sem sveitarstjóra. Kemur það fram á vef Borgarbyggðar þar sem segir:

„Mismunandi sýn á stjórnun sveitarfélagsins gerir það að verkum að sveitarstjórn og Gunnlaugur hafa ákveðið að slíta samstarfi.

Gunnlaugur hefur frá því að hann kom til starfa fyrir sveitarfélagið unnið vel að mörgum mikilvægum málum og er honum þakkað fyrir sitt framlag.

Sveitarstjórn stendur einhuga á bakvið þessa ákvörðun.“

Gunnlaugur vildi ekki tjá sig um uppsögnina er DV hafði samband við hann í gær. Hann skrifar hins vegar kveðjupistil á Fésbókarsíðu sína þar sem hann horfir sáttur yfir farinn veg eftir störf sín fyrir sveitarfélagið. Fer hann nokkrum orðum um þau góðu verkefni sem hafa verið unnin í tíð hans sem sveitarstjóra:

„Ég er mjög ánægður og stoltur yfir þessum þremur árum og hálfu betur sem ég hef starfað hér í Borgarbyggð. Á þessum árum hefur ótrúlega mikið gerst innan sveitarfélagsins og það þróast áfram á margan hátt. Auðvitað er það ekki einvörðungu mitt verk heldur er það uppskera af starfi þess öfluga fólks sem vinnur hjá sveitarfélaginu og fyrir sveitarfélagið. Það er t.a.m. unnið mjög gott starf í fræðslumálum hér, bæði í leikskólum og grunnskólum. Börn eru tekin í leikskólana frá 9 mánaða aldri og er það mikill munur miðað við stöðuna víða annarsstaðar.

Starf grunnskólanna er með miklum sóma. Nýkomin skýrsla Skólapúlsins um Grunnskólann í Borgarnesi er gott dæmi þar um. Þar liggur skólinn verulega yfir landsmeðaltali á flestum sviðum. Næst síðasta verk mitt var að ganga frá greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir næsta ár sem lögð verður fram til fyrri umræðu á morgun. Fjármál sveitarfélagsins eru í mjög góðri stöðu. Reksturinn er með miklum ágætum og hefur verið haldið innan fjárheimilda ár hvert.

Skuldastaðan hefur gjörbreyst á nokkrum árum og er skuldahlutfall A hluta um 55%. Sem dæmi má nefna um fjárhagslegan styrkleika er að það verður fjárfest fyrir um 900 m.kr. í ár án þess að nein lán hafi verið tekin. Unnið er að þremur stórum verkefnum. Viðbygging og endurbætur Grunnskólans í Borgarnesi hefur staðið yfir í eitt ár. Þar verður gjörbreyting á öllum aðstæðum bæði fyrir nemendur og kennara. Í gær var hafist handa við að reisa veggi við nýjan leikskóla á Kleppjárnsreykjum og að lokum hófst lagning ljósleiðara um héraðið í byrjun september. Þessi stóru verkefni munu breyta miklu fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Innan dyra í ráðhúsinu hefur margt breyst til batnaðar. Mannauðsmál fá t.d. miklu meiri áherslu en áður, búið er að ráða sérstakan markaðs og kynningarfulltrúa og byggingar- og skipulagsmál hafa fengið þann styrk sem nauðsynlegur er. Vitaskuld er margt ótalið og það verður að virða mér það til vorkunnar að hætta upptalningunni hér því af svo miklu er að taka. Eitt sem eftir stendur er hvað það er mikils virði að hafa kynnst öllu því góða fólki sem ég hef haft samskipti við í héraðinu á liðnum árum, bæði starfsfólki sveitarfélagsins svo og öðrum íbúum. Borgarbyggð er mjög gott hérað sem ég er ánægður með að hafa fengið tækifæri til að kynnast innan frá.“

Því má við þetta bæta að Gunnlaugur Júlíusson hefur hlotið landsfrægð fyrir afrek sín í ofurlanghlaupum en hann hefur margsinnis keppt í langhlaupum erlendis þar sem vegalengdir skipta hundruðum kílómetra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Aftur sektaðir af KSÍ
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Réðst á lögreglumann hjá bráðamóttökunni

Réðst á lögreglumann hjá bráðamóttökunni