Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segist ekki hafa haft nein afskipti af útgerðarfyrirtækinu Samherja síðan hann var í stjórn fyrirtækisins. Kristján var formaður stjórnar Samherja á árunum 1996-1998. Eftir það starfaði hann um tíma fyrir félagið sem sjómaður á togara.
Í viðtali við RÚV segist Kristján engin afskipti hafa haft af fyrirtækinu undanfarna áratugi. Samherjamenn sögðu í samræðum við namibíska áhrifamenn að Kristján væri „þeirra maður“. Kristján segir við RÚV að Samherjamenn verði sjálfri að svara fyrir hvað þeir hafi átt við með þeim ummælum:
„Því verða þeir að svara sjálfir. Ég hef hingað til bara litið á mig sem minn eigin og minnar fjölskyldu og er þekktur fyrir flest annað en að vera mjög undanlátssamur. Ég hef nú frekar orð á mér fyrir að vera frekar stífur í framgöngu.“
Kristján segir að umfjöllun Kveiks um mútugreiðslur Samherja í Namibíu hafi verið mjög sláandi. Aðspurður segist hann hafa hitt stjórnendur fyrirtækisins nýlega, meðal annars Þorstein Má Baldursson: „Ég var bara að spyrja hvernig honum liði einfaldlega,“ sagði Kristján.