Tuttugu og sex ára gömul kona frá Albaníu var í morgun neydd til að fljúga úr landi. Er konan komin níu mánuði á leið. Klukkan 18 í gær kom lögrelgan í lokað úrræði Útlendingastofnunar fyrir fjölskyldur, konur og fylgdarlaus ungmenni til að handtaka fjölskyldu frá Albaníu. Fjölskyldan er ungt par og tveggja ára barn, en auk þess er konan við það að fæða annað barn. Tekist var á um í gærkvöld og nótt hvort stætt væri á því að fljúga konunni úr landi vegna ástands hennar.
Greint er frá málinu á Facebook-síðu No Borders Iceland og tíðindi uppfærð í alla nótt. Textinn er eftirfarandi:
„Í kvöld um 18:00 mætti lögreglan í lokað úrræði ÚTL fyrir fjölskyldur, konur og fylgdarlaus ungmenni og ætlaði að handtaka unga fjölskyldu frá Albaníu. Fjölskyldan samanstendur af ungu pari og 2 ára barni, en konan er einnig kasólétt, komin á 35-36 viku.
Parið hefur ekki fengið svar frá kærunefnd Útlendingamála í hendurnar og því gæti verið að máli þeirra sé ekki lokið.Þegar lögreglan birtist óvænt og án fyrirvara til að handtaka og brottvísa þeim í fyrramálið varð konan fyrir miklu stressi og byrjaði að blæða mikið úr nefi. Þau báðu þá um að fara á spítalan em lögreglan leyfði með þeim orðum að þeir myndu sækja þau klukkan fimm í nótt fyrir brottvísunarflugið.
Myndin er tekin á meðgöngudeild þar sem ljósmóðir metur ástand hennar. Þar sem við sátum og hlustuðum á hraðan hjartslátt bumbubúans blikkuðu blá ljós inn um gluggann. Lögreglan beið beint fyrir utan með ljósin á og fór ekki fyrr en um 23:00 leytið. Við erum þar enn.
***Uppfært klukkan 01:30***
Konan er komin út af mæðradeild þar sem hún fékk vottorð með upplýsingum um hversu langt hún væri gengin og að ekki væri mælt með að hún myndi fljúga. Venjulega þegar óléttar konur flúga þurfa þær að fá svokallað „fit to fly“ vottorð en engin fordæmi voru hins vegar fyrir að gefa „not fit to fly“ vottorð þar sem enginn læknanna hafði upplifað það áður að verið væri að neyða ólétta konu í flug gegn vilja hennar. Vonast er til að þetta vottorð hafi eitthvað að segja, en nú er hún á leið heim til sín þar sem lögreglan bíður.
***Uppfært klukkan 3:00***
Tveir lögreglumenn stoðdeildar komu og skoðuðu vottorðið frá meðgöngudeild landspítalans. Þeir sögðu að það skipti ekki neinu máli og að ‘trúnaðarlæknir’ Útlendingastofnunnar hefði ákveðið þetta. Konan man ekki eftir að hafa hitt lækni frá UTL en fór í blóðtöku hjá göngudeild hælisleitenda fyrir 10 dögum. Engar frekari skoðanir fór fram, fyrir utan skoðun frá ljosmæðrum á meðgöngudeild í kvöld. Þær mæla eindregið gegn því að brottvisunin væri fram.
***Uppfært klukkan 05:00***
Lögreglan kom á brottrekstrarbíl og stuttu seinna flygdu tveir lögreglubílar með ljósin á.
Lögreglan segist vera með “fit to fly” vottorð sem hún hefur ekki fengið að sjá og frá lækni sem hún hefur ekki hitt. Lögreglan kýs að styðjast við þetta vottorð frekar en það sem hún fékk frá ljósmóður á mæðra deild fyrr í kvöld.
Lögregla færði fjölskylduna inní bíl til að fara með uppá flugvöll.“
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar ummæli undir færslu No Borders þar sem hún lýsir yfir hneykslun á meðferðinni á fjölskyldunni: „Er þetta mannúðleg stefna í málefnum fólks á flótta? Svei þessum stjórnvöldum!!!“