Eliza Reid, forsetafrú Íslands, hefur verið ráðin til Íslandsstofu þar sem hún verður talsmaður á völdum viðburðum erlendis á næsta ári.
Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
Þar segir að um launað starf sé að ræða og fær Eliza 576 þúsund krónur auk vsk. í laun á mánuði. Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, segir við Morgunblaðið að hann geri ráð fyrir því að Eliza verði talsmaður Íslandsstofu á 7 til 9 viðburðum á ári hverju. Þá muni hún vinna með Íslandsstofu að kynningu á íslensku atvinnulífi gagnvart fjölmiðlum og samstarfsaðilum íslenskra fyrirtækja.
Þá segir Pétur að miklu máli skipti að hafa Elizu með í för. „Þegar hún er með okkur fáum við miklu meira pláss, meiri athygli og almennt meira út úr viðburðinum,“ segir hann.