Karlmaður fannst látinn í Salahverfi í Kópavogi að morgni sunnudags. Þetta staðfesti Ævar Pálmi Pálmason, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við DV. Hann segir að líklega hafi verið um slys að ræða og að málið væri til rannsóknar.
Samkvæmt heimildum DV virðist maðurinn hafa fallið til jarðar eftir að hafa verið að klifra utan á fjölbýlishúsi í Salahverfi aðfaranótt sunnudags.
Talið er að enginn hafi komið að manninum fyrr en á sunnudagsmorgun en þá hafi maðurinn verið látinn. Heimildir DV herma að maðurinn hafi dvalið í íbúð á þriðju eða fjórðu hæð hússins og hann hafi ætlað að dvelja þar um helgina.
Líkt og áður kom fram staðfesti lögregla að rannsókn á málinu væri í gangi, en hún gat ekki tjáð sig frekar um málið, nema að öllum líkindum væri um slys að ræða. DV ræddi við íbúa í Salahverfi sem sagði að íbúum í nágrenninu væri brugðið vegna málsins.