Michelle Ballarin, endurstofnandi WOW air, er nú stödd hér á landi til skrafs og ráðagerða. Þetta kemur fram í frétt á RÚV en ekki er vitað hverja Ballarin hittir í dvöl sinni hér á landi. Ljóst er að áform WOW um að hefja flug milli Washington og Keflavíkur í október eru brostin. DV fjalla um málið í vikunni. Þar segir:
„Það eina sem ég get sagt á þessu stigi málsins er að við erum ekki að fara í loftið í október. Og að fenginni reynslu ætla ég bara að segja sem minnst um hvaða dagsetningar verið er að horfa til. Er bara ekki tilbúinn að tjá mig um það á þessu stigi máls,“ segir Gunnar Steinn Pálsson, almannatengill og talsmaður hins endurreista flugfélags WOW air.
Frá Dulles flugvelli bárust þau skilaboð til DV í gær að engin samskipti hefðu verið milli eigenda WOW og Dulles flugvallar síðan einn fundur var haldinn í ágúst. Því síður liggja þar fyrir samningar um flugvallarþjónustu við WOW eða skráðar flugferðir.
„Ég verð að viðurkenna að ég veit ekkert tum samskipti þeirra þarna fyrir vestan við flugvöllinn. Hef bara ekki hugmynd um það,“ segir Gunnar Steinn.
Í frétt RÚV segir Gunnar Steinn að WOW stefni á að hefja starfsemi innan nokkurra vikna. Hins vegar verður áherslan í fyrstu á fraktflutninga en ekki farþegaflutninga. Ballarin ætli að fylla vélarnar af fiski og öðrum varningi en ekki farþegum. Óvíst er með öllu hvenær farþegaflutningar hefjast.