Maður að nafni Jón Birkir Jónsson var á föstudag dæmdur fyrir langan hala af svikabrotum fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra. Brot Jóns Birkis fólust í því að bjóða fólki vöru til sölu, láta það millifæra á sig og afhenda síðan aldrei vöruna eða þjónustuna.
Brotin eru alls 22. Meðal annars bauðst hann til að selja konu tvo miða á tónleika Dimmu í Bæjarbíó í Hafnarfirði, fékk konuna til að millifæra á sig andvirði miðanna og afhenti þá síðan aldrei.
Hann bauðst til að selja manni nagladekk fyrir 43.000 krónur sem hann fékk greiddar en afhenti aldrei dekkin.
Sömu brot voru framin varðandi sölu á bílvél, Playstation tölvu og ýmsu öðru. Væntanlegir kaupendur millifærðu fjármuni inn á reikning Jóns Birkis en fengu vörurnar aldrei sendar.
Jón Birkir játaði brot sín fyrir dómi.
Sakaferill hans nær allt aftur til ársins 2006 en brotin sem hann var dæmdur fyrir núna voru öll framin árið 2018. Árið 2009 var hann dæmdur fyrir skjalafals, ránstilraun, brot gegn valdstjórninni, hótanir og umferðarlagabrot.
Jón Birkir var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir brot sín. Hann var dæmdur til að greiða sakarkostnað upp á tæpa milljón.
Dóminn í heild má lesa hér.